12.12.1950
Efri deild: 35. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2997)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fram. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. er fram komið í þeim tilgangi að eyða óánægju frá fyrstu tíð skattalöggjafarinnar um, áð kona, sem vinnur utan heimilisins, er skattskyld ásamt manni sínum, og hafa skattarnir þá orðið hærri en ef þeir hefðu verið lagðir á hvort um sig. — Þetta er réttlætt með því, að rétt sé, að löggjöfin letji konur frekar en hvetji þær til að vinna utan heimilisins, því að bezt sé, að konan annist heimilið, börn sín og bú.

Mótstaðan er hins vegar sú, að ef tekjur kvennanna eru við heimilið og konur fái ekki sérstaklega að telja fram, þá fari forgörðum vinnukraftur og síður verði stofnað til hjónabanda.

Ýmsar uppástungur hafa komið fram í þessu máli, m. a. á þskj. 208 frá Soffíu Ingvarsdóttur um, að konur, sem vinni utan heimilisins og ekki hjá manni sínum, megi telja sérstaklega fram. Till. þessi gerir enga grein fyrir tekjum af samanlögðum eignum, skuldavöxtum o. þ. l. Þessu mætti nú kannske bæta úr, ef till. stofnaði ekki til ósamræmis, sem sé þess, að ranglátt er, að konur, sem vinna utan heimilisins og ekki hjá mönnum sínum, fá að telja sérstaklega fram, en konur, sem vinna hjá mönnum sínum við t. d. heyskap, verzlun o. þ. l., fá ekki að telja sérstaklega fram. Svo að þessi till. virðist vera fálm eitt út í loftið.

Hitt virðist vera sanngjarnt mál, að kona, sem vinnur utan heimilisins og fær vinnu við hússtjórn aðkeypta, fái að draga þá upphæð frá samanlögðum tekjum. Það er í samræmi við það, að í hvert skipti, sem vinna er aðkeypt, fá hjónin hana til frádráttar, t. d. kaupavinna eða kostnaður við vinnukonuhald o. þ. l. Þetta ætti að vera auðvelt í framkvæmd.

Fjárhagsnefnd klofnaði í þessu máli. Meiri hl. vildi, að frv. yrði samþ. eða vildi a. m. k. styðja stefnu þess. Við tveir, hv. fyrri þm. Eyf. og ég, leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt, en Kristinn Andrésson leggur til, að það verði samþ. með breyt., sem telja má, að sé sú sama og fram kom í till. Soffíu Ingvarsdóttur. Ég hef áður bent á annmarkana á slíku og legg til, að þær brtt. verði felldar.

Nú í dag er fram komið nál. frá síðari minni hl. fjhn. Hv. 11. landsk. leggur til, að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá, og rökstyður það með því, að nú sé verið að endurskoða skattalöggjöfina, enda verði agnúar á þessari framkvæmd. Fjhn. gerði fsp. til fjmrn. um það, hvað liði endurskoðun skattalöggjafarinnar, og fékk það svar, að álít þeirrar n., sem hefði verið falið það verkefni, væri ekki á næstu grösum, og mælir ráðun. með því, að frv. verði gert að lögum. Ég tel þess vegna, að dagskrártill. hv. minni hl., 11. landsk. þm. (ÞÞ), sé ekki réttmæt og að það sé of mikil íhaldssemi að vera á móti því að gera þessar breyt., þótt að því hljóti að koma, að gerðar verði gagngerðar breyt. á skattal.

Þá hefur annar minni hl. fjhn., hv. þm. Barð. (GJ), lagt fram minnihl. álit, mjög viðamikið, og satt að segja hef ég ekki getað komizt yfir að lesa það, af því að það kom hér inn í d.í upphafi þessa fundar, svo að ég hef ekki fengið ráðrúm til þess. Ég sé, að aðalefni þess er að afnema l. um tekju- og eignarskatt. Þetta er nokkurs konar atomsprengja, sem varpað er hér inn, og hvað sem annars má um það segja við athugun, virðist það liggja ljóst fyrir, að þessi hv. d. getur ekki tekið jákvæða afstöðu til þessara till. við umr. málsins nú. Mér virðist, að sú stefna, sem þar kemur fram, sé ákaflega umdeilanleg, að afnema hina beinu skatta, og að ekki þurfi að eyða miklum tíma í að ræða hana við afgreiðslu þessa máls. Hitt er það, að endurskoðunarn. skattal. mun að sjálfsögðu líta á þessa sprengju, og ég hygg, að við afgreiðum hana bezt með því að víkja henni varlega til hliðar og rjála sem minnst við hana.

Ég vil fyrir hönd meiri hl. n. leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.