12.12.1950
Efri deild: 35. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2998)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki ljúka minni ræðu á þeim tíma, sem ætlaður er til fundarhalda í dag, en vil gjarnan byrja, þar til hæstv. forseti slítur fundi, og mun, þegar þar að kemur, fresta ræðu minni.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. (KK) sagði, að ég hefði kastað hér inn atomsprengju með nál. mínu á þskj. 318 og væri bezt að eiga sem minnst við það, því að af því væri minnst áhætta, og að í það þyrfti ekki miklum tíma að eyða hér í d. Ég er á nokkuð annarri skoðun. Ég hygg, að hér sé um eitt af allra veigamestu málunum að ræða, sem fyrir þ. liggja, ef menn vildu brjóta það til mergjar og athuga, hvaða afleiðingar það hefði fyrir þjóðina, ef farið væri inn á þá stefnu, sem afmörkuð er í frv., og mér finnst miklu eðlilegra, að hv. fjhn. hefði, meðan hún ræddi frv., tekið meiri tíma í að athuga þetta mál nánar en gert var, einmitt vegna þess, hversu mikið ber í milli í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Það að samþ. það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 55, veldur engum breyt. í þjóðlífinu. Það er aðeins smávegis auglýsingakák í sambandi við skattalöggjöfina og gerir hvorki til né frá. Hins vegar eru mínar brtt. á þskj. 318 mál málanna í skattamálunum, og þess vegna þykir mér það einkennilegt, að hv. frsm. meiri hl. skyldi enda mál sitt með því að segja, að þær væru ekki þess virði að ræða þær hér á Alþ. í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Hér er verið að tala um það að gera breyt. á l., sem ég legg til að verði afnumin, og það er ákaflega hrein afstaða frá minni hálfu, og þess vegna vil ég ekki vera með í því, að gerðar séu breyt. á l., sem ég tel að eigi að afnema. Það er ekkert óeðlilegt, þótt ég komi fram með slíkar till. og rökræði þær og taki til þess nauðsynlegan tíma frá Alþ., og er óþarft og óviðeigandi að líkja þeim við atomsprengju.

Mér þykir rétt að benda á, að á Alþ. árið 1927 var raunverulega mörkuð sú stefna, sem enn er haldin í skattamálunum, að taka af þjóðinni stighækkandi skatta eftir tekjum og eignum manna. Að vísu var stefnan ekki mörkuð í fast form fyrr en árið 1921, þegar afgr. er á Alþ. frv. um tekju- og eignarskatt, sem þó hafði verið undirbúið af mþn. í skattamálum og legið fyrir Alþ. 1913, og hafði mþn. þá lagt mjög til, að tekin yrði þessi stefna í skattamálum. Það var ekki samþ. þá, en stefnan var algerlega mörkuð 1921. Með þeim skattal., sem þá voru sett og síðan hefur verið breytt margsinnis og alltaf til hins verra, svo að mælirinn virðist nú orðinn það fullur, að einmitt nú er rétt að stíga sporið til fulls og afnema l., eftir alla þá reynslu, sem þau hafa gefið. Það er varla hægt að breyta l. til hins lakara, en það er hægt að snúa við og afnema l., eins og ég legg til.

Í aths. við skattafrv. frá 1921, sem var stjórnarfrv., segir svo — með leyfi hæstv. forseta: „Það hefur verið einn aðalgalli á núgildandi tekjuskattsl., að allt of vægt hefur verið gengið eftir því að fá upplýstar tekjur manna. Í þessu frv. hefur því mikil áherzla verið lögð á að tryggja það sem bezt, að allar tekjur og eignir, sem skatt ber að greiða af, komi fram til skattgjalds. Þetta er í raun og veru þýðingarmesta atriðið í öllum tekjuskattsl., og undir framkvæmd þess er það mikið komið, hvort tekjuskatturinn nær tilgangi sínum, að leggja skattbyrðina á borgarana eftir því, hversu færir þeir eru að bera hana.“

Nú skulum við athuga, hvernig þetta hefur tekizt öll þau ár, sem skattal. hafa staðið með þjóðinni frá 1921. Ég held, að enginn leyfi sér að halda því fram, að þetta meginatriði hafi ekki brugðizt, aðalstoðin, sem skattal. frá 1921 voru byggð á, og breyt., sem gerðar hafa verið á l. síðan, voru byggðar á, hefur svo gersamlega brugðizt. Þessu verður engan veginn mótmælt, og hv. Alþ. hefur margsinnis viðurkennt þetta, eins og ég skal síðar koma að. En þegar svo er komið, er ekki aðeins nauðsynlegt að viðurkenna þetta, heldur jafnnauðsynlegt að afnema l., sem þannig hafa gersamlega brugðizt landsmönnum í einu og öllu.

Ég held, að allan þann tíma, frá því l. voru fyrst sett, hafi menn — færri eða fleiri — úr öllum stéttum landsins framið það lagabrot að telja ekki rétt fram til skatts. En það var megintilgangur l., að það væri hægt að fá menn til þess að telja rétt fram til skatts, og voru lögð sérstök viðurlög við því, ef það væri ekki gert, en menn hafa gersamlega virt að vettugi öll þessi viðurlög, hversu ströng sem þau hafa verið, og því strangari sem þau hafa verið, þeim mun meira hafa menn virt þau að vettugi. Þetta er einnig svo að segja viðurkennt hjá öllum almenningi. Um hver áramót skrifa þúsundir manna á landinu undir það drengskaparheit, að það framtal, sem þeir geri, sé rétt í öllum atriðum, og næstum jafnmargar þúsundir vita, að það drengskaparheit, sem þeir undirrita, er ekki rétt. Og ef þetta er viðurkennt, ætti það eitt að nægja til þess að afnema l., vegna þess að slíkt er til að brjóta niður siðferðisþrek þjóðarinnar. Meðal almennings er það ekki lengur talinn neinn ljóður á ráði manna, þótt þeir dragi undan skatti í framtölum sínum. Það liggja að vísu við því ákveðnar sektir eða viðurlög, ef upp kemst, sem heldur ekki hefur verið beitt eftir því sem l. ákveða, og mun ég víkja nánar að því síðar.

Menn, sem hafa engar aðrar tekjur en launatekjur, eiga að sjálfsögðu erfiðast með að skjóta sér undan skattskyldum og telja ranglega fram, en þetta stafar af því, að það eru aðrir aðilar, sem hafa eftirlit með tekjum þeirra og gefa þær upp til skatts. En ef á að fylgja stranglega fram ákvæðum skattal., þá kemur meira til að telja fram heldur en nákvæmlega launatekjurnar. Hér koma einnig til greina ýmiss konar arður, arfur og ýmsar gjafir, sem menn eiga að telja fram, þó að það sé að vísu smávægilegt atriði, en samt sem áður undandráttur frá fyrirmælum skattal., ef ekki er talið fram. Ég hygg, að erfitt muni vera að finna nokkurn mann í þessu landi, sem út í yztu æsar hefur framfylgt fyrirmælum skattal. í sambandi við framtöl. En einmitt fyrir það, að sumir menn hafa svo strangt eftirlit í sambandi við sín skattaframtöl, en framtöl annarra ekki að sama skapi jafntraust, kemur fram svo bersýnilegt ranglæti í skattal., vegna þess að þessir sérstöku aðilar hafa ekki tækifæri til að draga úr sínum tekjum við framtal, svo að neinu verulegu nemi, og bera því þunga skattabyrðanna, en aðrir þegnar, sem meiri tekjur hafa og meiri eignir eiga, geta komið sér undan að telja þær fram, af því að ekki er hægt að sanna skatttekjur þeirra. Þetta er svo stórt atriði í sambandi við skattalöggjöfina, að það verður ekki lengur þolað, að þessari stefnu verði haldið áfram, þar sem skattabyrðinni er skipt svo ójafnt niður á þegnana. Það hefur verið reynt að finna ýmsar leiðir til þess að koma á réttlæti í þessum efnum, en þær leiðir hafa allar lokazt. Það verður að viðurkennast, að allt, sem hefur verið reynt til úrbóta í þessum málum, hefur ekki verið virt, og þau viðurlög, sem sett hafa verið, hafa verið sniðgengin, því meir sem þau hafa verið þyngri. Skattþegnarnir hafa fundið upp nýjar og nýjar leiðir til að skjóta sér undan að greiða hina lögákveðnu skattaupphæð, og ríkisvaldið hefur jafnan reynt að setja undir lekann, en reynslan hefur orðið sú, að þeir, sem geta komið því við, draga undan tekjum sínum, hafa meira eða minna sloppið undan skattabyrðinni og ekki borið sinn þunga af henni eins og aðrir, sem hafa orðið að telja rétt fram. Þetta hefur náð því takmarki, að hér á Alþ. er raunverulega viðurkennt, að ríkissjóður hafi beðið lægri hlut í þeirri viðureign. — Langstórfelldasta áfallið fyrir skattakerfið eins og það er nú var samþ. með l. um eignakönnunina frá 1947, þar sem lögboðið var, að skattsvikarar skuli fá syndakvittun fyrir lögbrot sin. Þar er ákveðið, að ef menn telji nú rétt fram, geti þeir sloppið við allar skattsektir og þurfi aðeins að kaupa af ríkissjóði ákveðin ríkisskuldabréf með 1% vöxtum til 25 ára fyrir þann hluta, sem undan skatti kann að hafa verið dreginn. Það er einnig ákveðið í 17. gr. l., að fyrstu 25 þús. kr. skuli vera skattfrjálsar, og þótt ekki séu keypt skuldabréf, þá eru mjög vægir skattar af því, sem eftir er. Þessi viðurkenning frá Alþ. er stórfelldasta áfallið fyrir skattakerfið eins og það er nú og nægði eitt til þess að fella l. úr gildi. Með þessu er viðurkennt, að sú stefna, sem skattsvikarar hafa rekið hér í fjöldamörg ár eða frá því l. voru samþ. árið 1921, sé ekki jafnskaðleg þjóðinni eins og ætla mætti, þar sem lögbrjótar eigi ekki að sæta jafnþungri refsingu eins og ákveðið hefur verið í l. og það fyrir miklu mergjaðri brot heldur en hafði verið gert ráð fyrir í skattal. Nú þegar svona er komið, er því full ástæða til að afnema l. og finna upp annað og heilbrigðara skattakerfi fyrir þjóðfélagið. Það spor, sem Alþ. steig með eignakönnunarl. 1947, hlaut að sjálfsögðu að skapa fullkomið virðingarleysi fyrir refsiákvæðum skattal. Það var engan veginn skilið af þegnunum á annan hátt en þann, að það væri ekki ætlazt til þess, að þessum ákvæðum yrði beitt og að það væri því ekki siðferðislegt brot að sniðganga skattal. og reyna að skjóta sér undan sköttum.

En svo er önnur þýðingarmikil ástæða fyrir því, að sjálfsagt er að fella l. úr gildi. Hún er sú, að hvert það fyrirtæki í landinu, sem er áhættufyrirtæki og starfar undir gildandi skattalögum, ber bókstaflega dauðann í sér og á sér enga von um undankomu nema með því að fremja skattsvik. Það er einmitt þessi staðreynd, sem Alþ. hefur viðurkennt með eignakönnunarl. og þeirri syndakvittun, sem þar var gefin. Alþ. hefur viðurkennt þessa staðreynd í sambandi við skattal., og þess vegna mega þau ekki lengur vera í gildi. Þessi staðreynd hefur verið viðurkennd víðar en með afgreiðslu eignakönnunarl., m. a. í sambandi við það, að þegar meiri hl. Alþ. álítur eitthvert stórfyrirtæki vera til meiri þjóðþrifa en önnur, þá er slíku fyrirtæki gefið skattfrelsi. Hver er ástæðan? Af því að það er meiri trygging fyrir því, að fyrirtækið geti starfað áfram á fjárhagslega sterkum grundvelli og þjóðinni til blessunar. Hér er önnur viðurkenning á því, að skattalöggjöfin sé röng. Langskýrasta dæmið í sambandi við þetta atriði er skattfrelsi Eimskipafélags Íslands, sem hefur verið samþ. þing eftir þing, síðan félagið var stofnað, og hefur orðið þess valdandi, að það fyrirtæki er eitt fjársterkasta fyrirtæki landsins, sem m. a. af þessum ástæðum hefur megnað að leysa eitt hið allra mesta vandamál þjóðarinnar í friði og ófriði, að halda uppi ferðum og flutningum til landsins og frá því, þannig að þjóðin hefur ekki soltið, þótt ófriður hafi geisað, heldur getað haldið áfram að lifa sínu menningarlífi, en þetta hefði ekki verið mögulegt, ef félagið hefði orðið að starfa undir skattal., eins og þau eru nú. Annars hefði það borið dauðann í sér eins og sérhvert annað fyrirtæki, sem starfar undir skattal. En þjóðin bar gæfu til að sjá, að þannig mátti ekki fara um Eimskipafélagið, og þess vegna var því gefið skattfrelsi og hefur getað innt það hlutverk fullkomlega af hendi, sem því var falið að gera. [Frh.]