15.01.1951
Efri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (3003)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. (GJ) endaði svo snögglega ræðu sína, að ég var varla tilbúinn til þess að fara að byrja á minni ræðu. Þar sem hér er um að ræða mál upp á 3–4 tugi milljóna á ári, þá hefði mér fundizt, að hann hefði gjarnan getað varið til þess nokkru lengri tíma en hann hefur nú gert, samanborið við önnur mál, sem hann hefur rætt um og ekki hafa verið nærri eins þýðingarmikil, og skal ég ekki lasta það, því að hann er ekki sá þm., sem hvarflar mikið frá efninu, en þar sem hér er um jafnstórkostlega þýðingarmikið mál að ræða, hefði mér fundizt hann vel geta eytt í það meiri tíma en hann gerði. — Jæja, en hverfum nú frá því. En þetta mál er svo mikils virði, að það þarf fullrar athugunar við, og ég vil segja það, að þótt ég í raun og veru hafi kannske ekki verið undir það búinn að fylgja þessum brtt. hv. þm., þá finnst mér það mjög æskilegt fyrir okkur, hina skattpíndu menn, ef létt væri þessum klyfjum af okkur, og gæti maður kannske, þegar til kæmi, fagnað því að geta losað sig við þessar byrðar, helzt að öllu leyti. Mér finnast því út af fyrir sig till. hv. þm. Barð. svo mikilvægar í þessu máli, að það fullkomlega réttlæti út af fyrir sig dagskrá þá, sem ég hef flutt í málinu, að málið sé þá athugað á þessum grundvelli einnig. Ég segi fyrir mig, að ef ég verð þess megnugur og verð hér á næsta þingi, þegar um þetta mál verður rætt, mun ég athuga þetta atriði rækilega, hvort hægt væri að einhverju leyti eða að öllu leyti að hverfa frá þessum skatti eða ekki.

Ég vil segja það um frv. sjálft, að ég treysti mér ekki til að fylgja því, þó að ég geri það ekki að neinu kappsmáli, því að í frv. er ekki um að ræða neinar stórkostlegar breyt., en með brtt. hv. þm. S-Þ. er það þó skýrara en það var í upphafi, því að framkvæmd frv. hefði orðið ómöguleg eða mjög erfið, ef það næði fram að ganga eins og það var í upphafi.

Ég vil benda á eitt atriði í þessu máli, og það er, að þótt þetta frv. verði að l. á þessu þingi, þá verða skattframteljendur í kaupstöðum búnir, áður en það gengur í gildi sem l., að ljúka við skattaframtöl sín og ganga frá þeim, svo að það yrði að taka framtölin upp að nýju og reikna á annan veg en áður hefur verið. Þess vegna finnst mér það út af fyrir sig mæla með því að hinkra nú við í þetta skipti, þangað til þing kemur saman næst, og býst ég við, að flestir séu á þeirri skoðun, enda er skattanefnd búin að starfa það lengi, að hún ætti að geta skilað af sér till. sínum í frumvarpsformi fyrir næsta Alþ., og mætti ganga frá þeim málum alveg í einu. Ég álít því rétt að samþ. hina rökstuddu dagskrá mína, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem gera verður ráð fyrir, að milliþinganefnd sú, er nú starfar að endurskoðun tekju- og eignarskattslaganna, leggi tillögur sínar um breytingu á þeim fyrir næsta þing, en breyting sú, er frv. þetta vill gera á þeim lögum, virðist ekki mjög aðkallandi, telur deildin rétt að fresta afgreiðslu málsins efnislega á þessu þingi og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta finnst mér í rauninni alveg rétt afstaða, að fresta þessu núna, með tilliti til þess, sem ég hef sagt, og einnig með tilliti til þeirra sjónarmiða og brtt., sem komið hafa frá einstökum þm. í sambandi við þetta mál, og væri heppilegra að samræma þetta allt, þegar endurskoðun á sér stað. Ég hygg einmitt, að mitt sjónarmið sé það aðgengilegasta, þ. e. að athuga um það, hvort sú mþn., sem nú er í þann veginn að skila af sér sínum till. um skattamál, geti ekki samræmt þetta allt saman, og að beðið verði með þetta mál til næsta þings, því að það hefur enga praktiska þýðingu að samþ. það núna á þessu þingi, þar sem það mundi verða mjög erfitt að framkvæma þessar breyt. núna. Ég hef því talið og tel enn rétt að fresta þessu máli og tel, að runnið hafi rök undir það enn þá að gera það vegna þess, hvað nú er orðið liðið á skattframtalsfrestinn. Ég er nú raunar ekki Reykvíkingur og veit ekki, hvenær hann er útrunninn. (HG: 1. febr.) Já, 1. febr. verður einmitt að vera búið að skila skattframtölum, og það tel ég, að hafi mjög mikið að segja í sambandi við þetta mál, þar sem einmitt þess vegna mundi verða mjög erfitt um framkvæmdir, jafnvel þótt frv. yrði samþ. Þess vegna er ég ákveðinn í að halda við mína skoðun í þessu máli, þ. e. að málinu verði frestað til næsta þings, og þá er hægt þegar í upphafi að byrja á því og halda því áfram með hraða og láta það þá koma til framkvæmda við næsta framtal, ef ekki verður eitthvað annað komið í staðinn. Það ætti því ekki að vera neinn skaði skeður, þó að þetta verði allt látið bíða núna, heldur yrði það aðeins til þess, að þær breytingar og þau sjónarmið geti komið fram, sem liggja nú í loftinu, hvort sem mþn. verður búin að skila sínum till. á næsta þingi eða ekki.