15.01.1951
Efri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (3004)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þá fyrst samkv. niðurlagsorðum hv. þm. Dal. inna hann eftir því, þar sem ráðherrastólarnir eru tómir, hvort þess er að vænta, að ríkisstj. leggi fram frv. það, sem nú er tilbúið um endurskoðun og breyt. á tekju- og eignarskattsl., eða ef hún fellir sig ekki við efni þess, þá geri eitthvað í þess stað.

Nál. á þskj. 297 greinir frá því, að n. hafi tekið fyrir það frv., sem hér er til umræðu, á þskj. 55, en jafnframt hafi hún rætt frv. á þskj. 208, sem einnig er um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt. Niðurstaða n. hefur orðið sú, — eins og þar segir: „Nefndin klofnaði. Meiri hlutinn (BSt, KK og KA) er fylgjandi frv. þessu á þskj. 55. Einn maður úr meiri hl. (KA) kysi þó heldur að fylgja frumvarpinu á þskj. 208 og flytur brtt., sem ganga í þá átt.“ Mér virðist þessi afgreiðsla í sjálfu sér harla óvenjuleg, að n. tók sameiginlega fyrir tvö frv., afgr. annað, að vísu þríklofin, og einn nm., sem fylgir meiri hl., segist heldur hafa kosið að fylgja hinu frv., en gerir þó engar till. um, að það verði samþ., heldur flytur brtt. við frv., sem hann er ekki ánægður með. Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvort hann ætli ekki að taka fyrir frv. á þskj. 208.. (Forseti: Það er ekki venjulegt að taka fyrir frv. til 2. umr., sem n. afgreiðir ekki með sérstöku nál., enda liggur hérna fyrir meginefnið í því frv.) Ég vil beina því til hæstv. forseta, að hvernig sem fer um þetta frv., þá skilst mér, að d. eigi að fá tækifæri til þess að greiða atkv. um frv. á þskj. 208, því að þótt munurinn á þessum tveimur frv. virðist kannske í fljótu bragði ekki vera mikill, er hann það þó. Samkv. þessu frv. á þskj. 55 er gert ráð fyrir, að ef kona vinnur utan heimilis, skuli hún eða maður hennar eiga rétt á því, að ráðskonukaup sé dregið frá kaupinu, áður en skattur er á lagður, en frv. á þskj. 208 gerir ráð fyrir, að ef kona vinnur utan heimilis og hjá öðrum en manni sínum eða fyrirtæki, sem hann er meðeigandi að, skuli skattur lagður á tekjur hvors hjónanna fyrir sig. Það er augljóst, hvaða munur er í framkvæmd á l., eftir því, hvort frv. yrði samþ. Þau hjón ein, sem leyfa sér þann munað að hafa ráðskonu, — ég veit ekki, hvort það þýðir annað en vinnukona eða húshjálp, en býst þó við, að það eigi að tákna fullgilda ráðskonu, — fá leyfi til að draga frá skattskyldum tekjum hennar kaup. Aftur á móti kona, sem leggur á sig að vinna utan heimilis og passar jafnframt sitt heimili, hún fær enga slíka hjálp. Það segir sig sjálft, að í þessum tilfellum verða það einmitt fátækustu konurnar, sem verða harðast úti, þær fá enga hjálp, heldur hinar, sem geta leyft sér það að halda ráðskonu. Ég álít, að þetta atriði út af fyrir sig nægi til þess að sýna, að að þessu frv. er lítil bót, — bót í einstöku tilfellum, en ekki almennt fyrir þá, sem helzt þyrfti að búa öryggi í þessum efnum. — Auk þess er gert ráð fyrir því í frv. á þskj. 55, að það sé sama, hvar konan vinnur, en úr því er bætt með brtt. á þskj. 475, þar sem þetta er bundið við það, að konan vinni ekki við fyrirtæki manns síns. — Ég mundi telja, að sú eðlilegasta lausn á þessu margumrædda hjónaskattamáli væri sú, að felld væru niður ákvæðin um samsköttun hjóna, en þau yrðu skattlögð hvort í sínu lagi, ef konan hefur sérstakar tekjur. Ef heimilið er af tiltekinni stærð, ef eðlilegt er að álykta, að vinna konunnar gangi öll til þess að halda heimilinu við, þá er eðlilegt að ætla henni ákveðinn hluta af tekjum mannsins, sem verði svo skattlagðar. Hitt er ekki réttlátt, að leyfa frádrátt þeim konum einum, sem vinna úti og hafa ráðskonu, ef aðrar konur, sem vinna úti og ekki sjá sér fært að fá ráðskonu, njóta ekki slíkra hlunninda.

Ég vil enn á ný beina því til hæstv. forseta að athuga, hvort ekki sé unnt samkv. ósk eins eða fleiri dm. að láta frv. á þskj. 208 koma til atkvæða, þó að ekki liggi fyrir till. frá n. á annan hátt en í nál. segir.

Ég hefði haft nokkra tilhneigingu til þess að ræða við hv. þm. Barð., sem flytur stórfelldar brtt. við frv., en verð að láta það niður falla að mestu leyti. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast aðeins á yfirlit það, sem fylgir nál. hans á þskj. 318, þar sem gerð er grein fyrir hundraðshluta ríkisteknanna af tekju- og eignarskatti frá 1921 til 1949. Ef tekið er tímabilið frá 1921–40, mun láta nærri, að hundraðshluti ríkisteknanna af tekju- og eignarskatti hafi numið um 10%. En taki maður árin 1940–49, mun láta nærri, að þessi hundraðshluti nemi um 20%. Nú segir þetta í sjálfu sér ekki mjög mikið um það, hvað tekjuöflunin hefur numið miklu hjá ríkissjóði, því að þess verður að gæta, að fjárgreiðslur ríkissjóðs hafa margfaldazt á þessu árabili, eins og hv. þm. manna bezt er kunnugt um, þannig að þótt tekju- og eignarskatturinn hafi verið hækkaður og þyngdur, þá er ekkert óeðlilegt, þó að prósenthækkunin sé ekki meiri, þegar þess er gætt, að samtímis hafa aðrir skattar og tollar verið stórkostlega hækkaðir líka, þannig að þetta þarf ekki að vera svo mikill mælikvarði.

Þegar rætt er um tekjuskatt til ríkissjóðs, má ekki gleyma því, að bæjar- og sveitarfélög innheimta meginhlutann af sínum tekjum með beinum skatti, tekju- og eignarskatti. Nú mun það vera svo, að útsvarið hafi numið hér um bil þrefaldri upphæð tekju- og eignarskatts ríkissjóðs. Þetta er nokkuð breytilegt frá ári til árs, en venjulega er tekju- og eignarskatturinn hér um bil 1:3 miðað við útsvarstekjurnar. Hann er nú áætlaður 36 eða 37 millj. kr., en sú áætlun er of lág, og má gera ráð fyrir, að hann nemi um 40 millj. kr., en útsvör verða um l00 millj., svo að hlutfallið er þannig nokkru lægra nú en 1:3. — Það segir sig nú sjálft, að þó að tekju- og eignarskatturinn yrði afnuminn, þá væri ekki þar með komið í veg fyrir skattsvik. Eftir sem áður gætu þeir, sem það stunda, lagt sig í framkróka um að svíkjast undan lögmætum útsvarsgreiðslum. Og ef hv. þm. Barð. hefði átt að vera sjálfum sér samkvæmur, þá hefði hann átt að taka útsvörin með í till. sinni, þar sem verkanir þeirra eru hinar sömu. Þá þykir mér enn fremur líklegt, að með þeirri fjárþörf, sem bæjar- og sveitarfélögin hafa, þá yrði niðurfelling ríkisskattanna til þess, að útsvör hækkuðu að miklum mun.

Ég held því, að það væri hið mesta óráð að fallast á till. hv. þm. Hins vegar skal það fullkomlega játað, að rík ástæða er til, að sýnd verði meiri einbeitni og röggsemi við innheimtu skattsins en gert hefur verið, og þau störf skattheimtuyfirvaldanna mætti auðvelda með breyttri löggjöf. Og það hafði ég einmitt í huga, er ég gerði fyrirspurn mína til hæstv. ríkisstj. um það, hvað endurskoðun skattalaganna liði. Enn fremur tel ég, að fyllsta ástæða væri til þess að athuga, hvort ekki þætti rétt að setja lög um eina allsherjar álagningu beinna skatta, þar sem svo væri kveðið á um, hve mikill hluti skyldi renna til ríkissjóðs og hve mikið til sveitarfélaganna. Þetta fyrirkomulag væri að minni hyggju einfaldara og eðlilegra fyrir báða aðila, kostnaður við skattheimtuna mundi minnka stórlega og hún yrði þó jafnframt árangursríkari og siður af handahófi framkvæmd. Að þessu tel ég, að fremur bæri að huga en að fella skattana niður.

Annað atriði væri svo það að hætta að seilast til skatts í svo lágar tekjur sem nú er gert. Það er alveg þýðingarlaust að vera að innheimta skatt, sem ekki nemur meiru en 15 kr., og sjálfsagt að byrja ekki fyrr en tekjurnar eru orðnar verulegar. Ég gæti t. d. hugsað mér, að 100 kr. væri lægsti skattur, sem innheimtur yrði. Annað svarar beinlínis ekki kostnaði. Og til að jafna metin má þá leggja nokkru meira á hærri tekjurnar, en láta smátekjurnar eiga sig. — Þetta væri nær að athuga heldur en að nema lögin úr gildi á þeim forsendum m. a., að þau hafi verið brotin. Ef þau rök væru yfirleitt tekin alvarlega, þá er ég hræddur um, að það kynni að ganga nokkuð mikið á lagastofninn á næstu árum.

Hv. þm. Barð. telur, að kostnaðurinn við innheimtu tekju- og eignarskattsins, eða 36 milljóna, sé 6 millj. Ég veit ekki, hvar þessi tala er fundin, og skal ekkert segja um, hvort hún sé rétt eða röng; en mér þykir þó ólíklegt, að hún sé rétt. Skattheimtumenn eru yfirleitt jafnframt embættismenn eða dómarar, og laun þeirra, sem að þessu vinna víða um land, eru mjög smávægileg. En jafnvel þótt svo ólíklega færi, að þessi tala kynni að reynast rétt, og álagningar- og innheimtukostnaður næmi þannig 15% af skattinum sjálfum, þá væri það þó ekki hálft á við það, sem kostnaðurinn yrði við sambærilegar tolltekjur. Ef þessara tekna væri aflað með tollum, þá kæmi til álagning heildsala og smásala á vörurnar að viðbættum tollunum, og frádráttur af sömu upphæð mundi nema allt að 16%.

Þá sagði hv. þm. enn fremur, að hæglega mætti afla 36 eða 40 milljóna í ríkissjóðinn með öðrum hætti. T. d. mætti leggja söluskatt á þær vörur, sem ríka fólkið keypti. Bretar legðu t. d. skatt á slíkar vörur allt upp í 200%. Einhvern veginn er það nú samt svo, að þó þeir leggi á slíkan söluskatt, þá er tekjuskatturinn ekki lægri þar en hér. Þar eru 19/20 partar tekna yfir visst mark goldnar í ríkissjóð, eða 19 shillingar af hverjum 20. Og til tekjujöfnunar hafa þeir ekki fundið aðra leið sanngjarnari en tekjuskattinn. Væri hann felldur niður, mundi það koma í ljós, að torvelt væri að fá með söluskatti tekjur, sem honum svöruðu. Við höfum verið að leggja slíkan skatt á óþarfavörur. Og við höfum lagt 6–10% söluskatt á allar vörur, jafnt óþarfavörur sem nauðsynjavörur, sem þannig hefur bitnað jafnt á fátækum sem ríkum. Hefur það verið gert af mannvonzku? Alls ekki, heldur fyrst og fremst af því, að álagning á lúxusvörurnar hefur reynzt svo lítill skattstofn. — Ég veit ekki, hvað hv. þm. vill kalla skattinn á tóbak og brennivín, en hann er meiri en 200% og nær því að vera 900%. Kostnaður ríkisins er varla meiri en 1/10 af útsöluverði á áfenginu. Og af hverjum 9–10 kr., sem menn borga fyrir 20 stk. af sígarettum, fær ríkissjóður víst ekki minna en 8–9 kr. — Hvað snertir skartgripi, gimsteina o. þ. h. varning, þá fengjust aldrei miklar tekjur þar í hækkuðum skatti, enda munu nokkur brögð vera að því, að slíkum varningi sé smyglað inn í landið.

Ég skal annars ekki fara að ræða þetta í alvöru; ég vildi aðeins benda á, að því fer fjarri, að þetta mál sé eins vaxið og hv. þm. vill láta lita út fyrir. Hins vegar er ég sammála því, að nauðsyn beri til að endurskoða þá löggjöf, sem um þessi efni fjallar, t. d. að hætta að leggja skatt á lægri tekjur en svo, að hann nemi a. m. k. 100 kr.; leiðrétta ranglát ákvæði um skattaálagninguna gagnvart hjónum, og loks að athuga, hvort ekki væri rétt að innheimta í einu lagi skattinn til ríkissjóðs og sveitarfélaganna.