15.01.1951
Efri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (3005)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka meiri hl. nefndarinnar fyrir afgreiðslu þessa máls, um leið og ég get þess, að ég er þakklát fyrir þá breyt., sem hún leggur til að gerð verði á frv. og kom fram hjá hv. þm. S-Þ. Breyting sú er án efa til bóta. Út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. um það, að þetta frv. væri ekki nein lokaráðstöfun í þessum málum, vil ég segja þetta: Eins og kemur fram á þskj. 55, þá tel ég æskilegra, að sérsköttun hjóna komist á en að fara þá leið, sem hér er valin. En vegna þess að mér er vel kunnugt um, að meiri hl. Alþ. hefur ekki þá skoðun á málinu, en líkur til að þessar úrbætur nái samþykki, þá hef ég valið þann kostinn að fara þessa leið. Ég hef nokkuð reynt, einkum síðan ég kom á þing, að kynna mér þessi skattamál og þá sérstaklega með tilliti til skattaálagningar á hjón, og komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir, sem vinna við framkvæmd skattamálanna og þá sérstaklega innheimtuna, telja, að í sambandi við sérsköttun hjóna muni verða ýmsir framkvæmdarerfiðleikar. Og það er áreiðanlegt og skal fúslega játað, að þegar ætti að fara að ræða það mál í alvöru, kæmi undireins til samanburðar á þeim konum, sem vinna utan og innan heimilisins, og einnig á störfum húsmóðurinnar sjálfrar og þeirrar konu, sem vinnur á búinu. Þetta hefur komið skýrt fram, er þessi skattamál hafa verið til umræðu, og á síðasta fundi Kvenréttindafélags Íslands varð ekki samkomulag um þetta atriði í sérsköttun hjóna, heldur yrði að finna betri leið til algerrar sérsköttunar. Nú veit ég, að hv. þdm. þurfa ekki að láta segja sér það, að afnám samsköttunarinnar mundi þýða algera breytingu á skattakerfinu og það frá grunni, því að ríkisheildin vill hafa sitt, og þyrfti þá að afla þeirra tekna annars staðar, sem dragast mundu frá vegna skiptingarinnar. Að þessu athuguðu hallaðist ég að því að flytja þetta frv. og vegna þess, að mér er kunnugt um, að mörg heimili mundu hafa gagn af, ef það næði fram að ganga. Hv. 4. þm. Reykv. vildi gera lítið úr frv. vegna þess, að það kæmi ekki til hagsbóta nema fyrir þá, sem hefðu háar tekjur. Þetta er ekki rétt í öllum tilfellum, þó að það komi auðvitað mjög að gagni mörgum þeim, sem eru nú hátt í skattstiganum. En þó þekki ég mörg dæmi, þar sem ekki er um háar tekjur að ræða, en konan kýs heldur að vinna utan heimilisins og verður þá að hafa aðra konu til að vinna innan þess, og á þeim stöðum er það tilfinnanlegt að fá ekki nema lítinn frádrátt.

Út af rökum þeim, sem hv. 11. landsk. studdi sína rökst. dagskrá með, þá vil ég benda honum á það, að þetta mál hefur þegar dregizt í 2–3 ár, og ég veit ekki betur en að milliþinganefnd sú, sem hafði skattamálin til meðferðar, sé þegar búin að skila af sér til ríkisstj., og gæti þetta mál þá dregizt í 2–3 ár enn, og óvíst þá, hvort það fengi greiðari afgreiðslu en nú. Ég get því ekki séð, að það sé hægt að skjóta sér á bak við þetta, ef menn halda á annað borð, að þessi breyting sé til bóta. — Önnur rök, sem hann færði fyrir rökstuddu dagskránni, voru þau, að tíminn sé mjög naumur til að koma þessum ákvæðum í framkvæmd, þar sem svo stutt sé til framtals. En ætli gæti þá ekki farið svo líka, ef málinu yrði frestað, að það drægist fram á árið '52 og yrði þá ekki síður seint fyrir? Ég geri því ekki neitt úr þeim rökum, sem hv. þm. færði til stuðnings sinni dagskrá, og vænti þess, að hv. þdm, greiði atkv. á móti henni.