16.01.1951
Efri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (3008)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál í gær og mun því ekki ræða lengi um þetta núna. Eins og ég hef getið um áður, finnst mér þetta mál vera á eftir tímanum. Og frv. er svo seint á ferðinni, að till. getur varla komið til framkvæmda á árinu, þó svo hún verði samþ. Ef dagskrá sú, sem ég hef borið fram, verður felld, ber ég fram brtt. við 3. umr., að ákvæðið verði ekki eingöngu látið ná til vinnukvenna í fjártekjum þeirra, heldur komi það fram í fjártekjum barna, sem telja fram til skatts með foreldrum. Það er algengt, að börn eigi hlut í hlutafélagi foreldra sinna, svo nefndum svefnherbergishlutafélögum, og er þá sjálfsagt, að ákvæðið nái til þessa fólks. Ýmislegt fleira þarf að athuga áður en gengið verður frá þessu. Ég vænti þess, að þetta frv. komi ekki til framkvæmda sem lög, fyrr en það hefur verið athugað rækilega og gætilega, sem sagt athugað í heild eins og mörg sjónarmið hafa komið fram. Þó að þessi dagskrá verði felld, getur komið fram önnur við 3. umr. þessa máls. Ég ætla að geyma rétt minn þangað til þá, að tala um þetta mál, en trúi lítt á gagn þessa máls og tel rétt að athuga það betur. Enda hefur gengið á misvíxl hjá þessum þingkonum og þær hafa vafið hvor fyrir annarri, en sú, sem hér situr, hefur þó orðið hlutskörpust.