16.01.1951
Efri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (3012)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að fara nokkrum orðum um frv. á þskj. 55, frá hv. 8. þm. Reykv. — Innihald þess er það, að ef kona framteljanda vinnur utan heimilisins, þá má frádráttarbær kostnaður vegna heimilisstjórnar nema þeim launum, sem ráðskonu sannanlega eru greidd, en þó ekki hærri upphæð en konan vinnur sér inn. — Ég tel, að þetta sé þýðingarlítil breyting á skattalöggjöfinni, sem mundi aðeins ná til nokkurra tuga fjölskyldna í landinu, þ. e. hálaunaðra embættisfjölskyldna. En þó er þetta smávæglleg réttarbót, en hún mundi þó ekki koma í veg fyrir fjölgun óskilgetinna barna í landinu né gefa tilefni til annars erindis um þau efni! — Mér finnst það ekki rétt, að þetta félag — heimilið — sé straffað með því að setja tekjur mannsins í hærri stiga, ef verkakona vinnur þjóðnýt störf utan heimilisins. Því að það eru fleiri konur en þessar embættismannakonur, sem vinna þjóðnýt og gagnleg störf í þjóðfélaginu, t. d. verkakonurnar í landinu og þær, sem við heimilið vinna. Það ættu því að koma sams konar fríðindi fyrir verkakonurnar, sem vinna utan heimilisins, af því að tekjur mannsins hrökkva ekki til að sjá um þetta félag. En í öllum þess konar tilfellum, þar sem svo er ástatt, að heimilið hefur ekki efni á því að kaupa ráðskonu, ætti það ekki að vera sett að skilyrði fyrir þessum fríðindum, að heimilið hefði ráðskonu. Öll þau þúsund alþýðuheimili, sem hér um ræðir, geta ekki notið þessara fríðinda, heldur aðeins örfá embættismannaheimili, þar sem svo er ástatt, að menn hafa efni á því að fá sér ráðskonu. Ég held því, að hér hafi hv. flm. skjátlazt hrapallega. Því að það stefnir alveg í öfuga átt að gera þannig upp á milli hátekju- og lágtekjufólksins, þar sem konan neyðist til þess að vinna utan heimilisins, en fær svo ekkert upp úr því annað en það, að heimilinu er straffað. Ég mun þó ekki greiða atkv. gegn þessu frv., til þess að standa ekki í veginum fyrir þeirri litlu réttarbót, sem í því feist, og mun því sitja hjá. En ég get ekki lokað augunum fyrir því ranglæti, sem þúsundir verkakvenna verða fyrir og kemur skýrar fram með samþykkt þessa frv. Þvi að hér er hvorki gripið á rót meinsins né tekið fyrir það.

Mér var þetta mjög vel ljóst, af því að ég var í niðurjöfnunarnefnd Ísafjarðarkaupstaðar s. l. vetur, og þar var gengið inn á þá braut að leggja ekki tekjur konunnar við tekjur mannsins og voru útsvörin sett bæði í lægri skattstiga og lögð síðan saman á eftir. (KK: Hvernig var gert upp á milli hjónanna?) Þetta var gert á þann hátt, að ef maðurinn hafði t. d. 20 þús. kr. tekjur og konan 10 þús. kr. tekjur, þá var lagt á hvort um sig og útsvarið síðan lagt saman.

Þá kemur brtt. við frv. 8. þm. Reykv. á þskj. 299, sem fellir niður skilyrðið fyrir því, að ráðskona sé fengin, og lætur fríðindin ná til allra giftra kvenna, sem sérstaklega telja fram til skatts. Þarna er kominn nokkur hluti af innihaldi frv. þess, sem varaþm. hv. 4. þm. Reykv. bar hér fram, en hefur ekki fengið afgr. í nefnd. Þessi till. mundi gera það að verkum, að þessi skattafríðindi, sem að er stefnt með till. 8. þm. Reykv., yrðu víðtækari, og ef þessi till. yrði samþ., yrði það réttarbót, en ég tel ekkert viðunandi í þessum málum nema sérframtal hjóna, hvort sem tekjurnar eru settar í tvo hluta, en það hefði agnúa, sérstaklega ef um hátekjufólk er að ræða, eða lagt á hjón hvort um sig. Ég tel ekkert annað rétt í þessu en að lögfesta, að menn og konur séu sjálfstæðir aðilar. En þessu er ekki fyrir að fara hér. og ef að því kemur, að till. á þskj. 299 verði felld, mun ég grípa í það hálmstrá að greiða atkv. með hinni rökst. dagskrá.

En það er ekki hægt að tala um þetta mál án þess að koma inn á brtt. hv. þm. Barð. við þetta frv. Það er rétt, að þessi till. er stórmál, hvort sem það er skemmtileg fjarstæða eða ekki. En stórmál er það nú samt. Ég ætla ekki að vera fjölorður um þessa till., en vil segja, að þegar sjálfur form. fjvn. — maður, sem er jafnkunnugur fjármálum ríkisins og bann er, — telur sér fært að kippa fótunum undan 35–40 millj. kr. tekjupósti, þá bendir það til þess, að hann haldi, að tekjulindir fjárlagafrv. muni gefa 35–40 millj. kr. tekjuafgang, og ég sagði við afgreiðslu fjárlfrv., að tekjulindir fjárlfrv. væru svo knappt reiknaðar, að þær væru áætlaðar 35–40 millj. kr. lægri en þær mundu verða. Ég hef gaman af því, að þetta viðhorf skuli koma fram hjá hv. þm. Barð. En þetta er þó aukaatriði. Aðalatriðið er, hvort fært sé að fara inn á þessi princip hans. Það hafa ávallt verið principátök um það, hvort afla skuli ríkissjóði tekna með tollum eða með beinum, stighækkandi sköttum, og að hve miklu leyti. Það kom mér ekki á óvart, að hv. þm. Barð. skuli fylgja þeirri stefnu að afla allra tekna ríkissjóðs með tollum, en ekki beinum sköttum, enda koma þeir hlutfallslega þyngst niður á hátekjumönnum, en það eru nú einmitt þeirra hagsmunir, sem þessi hv. þm. og hans flokksmenn bera einkum fyrir brjósti. Rökin fyrir því, að þetta sé réttlátt, eru fremur hæpin, því að hver sopi og hver biti, sem ofan í okkur fer, — já, öll vara í landinu er þræltolluð, og það er nú svo, að tollarnir leggjast langþyngst á hin fjölmennu, fátæku alþýðuheimili í landinu, og kemur margfalt meira í ríkissjóð frá þessu alþýðufólki en hinum stórefnuðu einstaklingum. Og er þetta engan veginn réttlætanlegt. Ekki eru allir sammála þm. Barð., að rétt sé að afla ríkissjóði tekna með tollum, en þeir koma léttar niður á hátekjumönnum en stighækkandi skattar. Með því að afla ríkissjóði tekna með stighækkandi tekju- og eignarsköttum, þá er skattaþunginn lagður á herðar hinna vel efnuðu, sem bera úr býtum meira en vinnulaunin og neyta þannig þjóðfélagslegrar aðstöðu sinnar, sem vissulega ber að skattleggja. Þegar einstaklingur hefur fengið t. d. 200 þús. kr. á ári, — ekki vegna þess að hann sé tíu sinnum duglegri en sá, sem fær 20 þús. kr. árstekjur, heldur vegna hinnar þjóðfélagslegu aðstöðu sinnar, — þá á þjóðfélagið að taka það með stighækkandi sköttum. Og þótt 100 þús. kr. séu teknar til þjóðfélagsins aftur, þá er aðstaða hans stórlega miklu betri en þess, sem fær 20 þús. kr. og fær 2 þús. kr. í skatta þar af. En þarna voru engar 100 þús. kr. hægt að taka með tollum. — Beinir stighækkandi skattar eru réttmætir, af því að þeir eru nokkur hluti af þeim tekjum, sem nokkrir einstaklingar hafa fengið vegna þjóðfélagslegrar aðstöðu sinnar og engum ber að njóta nema þjóðfélaginu í heild sinni.

Ég get vel fallizt á, að tekjulind ríkissjóðs sé svo rúm, að það megi skerða hana um 35 millj. kr., án þess að það yrði ríkissjóði ofviða, ef góðri fjármálastjórn væri fyrir að fara. En það er víst, að tekjulindirnar gefa 35–40 millj. kr. meira en áætlað er á fjárlfrv.

Ég er einnig sammála hv. þm., að skattleggja megi margan óþarfavarning. En þeim auknu tekjum væri miklu betur varið með því að bæta upp í annað skarð en það, sem myndaðist, ef tekju- og eignarskatturinn væri afnuminn. Hins vegar skil ég vel, að hátekjumönnum þyki leitt að missa þetta úr greipum sér. Þeir líta á þetta fé sem ávöxt dugnaðar síns. En auðvitað er það þjóðfélagsaðstaða þeirra, sem veitir þeim þessar stórtekjur.

Ég tel rétt, að meiri hluti tekna ríkisins aflist með stighækkandi sköttum, og er það skref í öfuga átt við það, sem hv. þm. Barð. vill fara. Og ég tel sérstaka ástæðu til þess á slíkum tímum sem nú, að ríkisstj. beiti sér fyrir niðurfellingu tolla á nauðsynlegar neyzluvörur og helztu rekstrarvörur þeirra atvinnuvega, sem verst eru á vegi staddir, og í þessum tilgangi væri þessum 35 millj. kr. vel varið, og mundi ég fylgja till. frá hv. þm. Barð. og hvaða þm. sem væri í þá átt. Sömuleiðis mundi ég fúslega fylgja till. um hækkun tekju- og eignarskatta til hjálpar atvinnuvegunum í landinu.

Ég hef reynt að færa rök fyrir því, hvers vegna ég tel réttlátara að afla meiri hluta tekna ríkissjóðs með beinum stighækkandi sköttum samkv. skattal., en hv. þm. Barð. hefur á hinn bóginn reynt að færa rök fyrir því, að tekju- og eignarskattsl. séu of dýr í innheimtu og leggist of þungt á einstaklinga og fyrirtæki og þess vegna beri að afnema þau. Hér stangast ólík sjónarmið á og gerólík rök, sem mætast um þetta mál. — Ég þarf raunar ekki að taka fram, að ég mun greiða atkv. móti þessum stóru brtt. hv. þm. Barð. við hið litla mál, sem hér liggur fyrir, og hef þó vel opin augu fyrir því, að þarna eru fluttar till., sem eru principmál Sjálfstfl. og því ekkert einkamál hv. þm. Barð. Ég skil vel það sjónarmið, sem liggur á bak við þessar till., þar sem það er hreinskilnislega túlkað af fylgismönnum þeirra, að þeir vilja losa stóreigna- og hátekjumenn við stighækkandi skatta og vilja aðallega afla ríkissjóði tekna með tollum, sem þá kæmu þyngst niður á alþýðunni í landinu, og það er það, sem þeir fyrst og fremst vilja.