22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (3029)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt allýtarlega hér í hv. deild og kom fram till. til rökst. dagskrár frá hv. 11 landsk. Ég gat eigi fylgt þeirri till., þar eð mín till. hafði þá eigi verið borin undir atkv. Það hefur komið fram í sambandi við þessar umr. allmikil óánægja með skattalögin í heild, og menn hafa viðurkennt mikið af þeim rökum, sem ég flutti til stuðnings því, að nema bæri þau úr gildi, enda þótt menn ekki vildu samþ. hana. En hins vegar hafa margir hv. þm. talið nauðsynlegt, að endurskoðun fari fram á skattalögunum á þessu ári. Ég hef því á þskj. 512 borið fram svo hljóðandi till. til rökst. dagskrár:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin feli milliþinganefnd þeirri, sem nú starfar að endurskoðun tekju- og eignarskattslaganna, að athuga gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt að fella niður allan tekjuskatt, eða ef það þykir ekki gerlegt, þá að fella niður a. m. k. allan skatt af lágtekjum, allt að 20 þús. kr., og allan skatt af tekjum þeirra fyrirtækja, sem reka áhættusaman atvinnurekstur, svo að þeim sé unnt að safna öruggum varasjóðum í góðærum, sem tryggja áframhaldandi rekstur þeirra, þegar verr árar, og enn fremur að lækka allverulega núgildandi skattstiga, enda verði þessari athugun lokið svo fljótt sem verða má og frv. til breyt. á lögunum lagt fyrir næsta Alþingi, byggt á niðurstöðu þeirra rannsókna, sem nefndin kann að komast að, — tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ef þessi dagskrártill. er samþ., þá eru það fyrirmæli frá hv. Ed. til ríkisstj. um að láta fram fara gaumgæfilega athugun á skattalögunum, eins og þau nú eru, og taka þá til athugunar öll þessi atriði, sem í dagskrártill. eru nefnd. Því að allar þessar aths. hafa komið fram í umr. í sambandi við skattal. Frá mér hafa komið fram beinar till. um að fella skattal. úr gildi, þ. e. a. s. að hætta að taka tekjur í ríkissjóð af tekjum manna. Ég hef einnig bent á, að þau fyrirtæki, sem reka áhættusaman atvinnurekstur, eru dauðadæmd með ákvæðum þeirra skattalaga, sem nú eru í gildi. Þetta hefur verið viðurkennt á Alþ., og það hvað eftir annað. Þess vegna vil ég, að athugað verði, hvort þessi fyrirtæki ættu ekki að vera skattfrjáls í framtíðinni. Hins vegar hef ég líka tekið upp sjónarmið þeirra, sem ekki hafa viljað fallast á mitt sjónarmið um að skattfrelsa allar tekjur, heldur vilja skattfrelsa lágtekjur manna. Allt þetta hef ég tekið upp í mína dagskrártill. og ég vænti, að þeir, sem hafa verið með hinum mismunandi sjónarmiðum í þessum efnum, sjái sér fært að samþ. dagskrártill. eins og hún liggur fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar nú, — það hefur verið þrautrætt hér á fundum, — en ég legg til, að mín rökst. dagskrá á þskj. 512, sem ég nú hef lýst, verði samþ.