22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (3030)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að fá tvennar upplýsingar. Ég sé, að þessu frv. hefur verið breytt eftir till. hv. þm. S-Þ. og hv. þm. Eyf., þannig að sett hefur verið inn í frv.: „þó ekki við fyrirtæki hans“, þ. e. manns síns. Nú skulum við taka tvö dæmi. Við skulum taka til dæmis konu, sem er einn af stjórnendum hlutafélags, sem maður hennar er í, og fær fyrir að sitja í stjórn fyrirtækisins 10 þús. kr. á ári, fyrir það að mæta á tveimur eða þremur stjórnarfundum yfir árið. Það er ekki vafi á því, að þetta er vinna utan heimilis. Er þetta fyrirtæki manns hennar, þó að þau séu bæði hluthafar í fyrirtækinu? Á að telja þetta til tekna hjá manninum, eða á að telja þetta sérstaklega til tekna hjá konunni, þannig að hún eigi eftir ákvæðum frv., eins og það nú er, að fá vinnukonufrádrátt fyrir að sitja á stjórnarfundum í þessu fyrirtæki, tveimur eða þremur á ári? Þetta er fyrri spurningin. — Í öðru lagi eru þau dæmi til, að maðurinn er hluthafi, og í einu tilfelli stór hluthafi, í fyrirtæki, sem konan vinnur við, en hann veitir fyrirtækinu ekki forstöðu. Er það hans fyrirtæki eða ekki, þó að hann eigi meiri hl. af hlutafénu? Það er haldin ráðskona á heimili þessara hjóna, sem gefur heimild til frádráttar, eins og lög nú mæla fyrir um. Er þetta fyrirtæki, sem ég síðar nefndi, fyrirtæki mannsins eða ekki? — Um þetta vildi ég fá upplýsingar £rá þeim, sem samið hafa till., sem samþ. hefur verið við frv. og ég minntist á.

Ég sé, að tveir hv. þm. hafa komið með till. til rökst. dagskrár í þessu máli, hv. 11. landsk. þm. á þskj. 319, sem er nú að vísu, að mér skilst, felld, og nú hefur hv. þm. Barð. komið með till. um það sama. Og báðir eru þessir hv. þm. í till. sínum að tala um nefnd, sem sé að vinna að endurskoðun skattaláganna. Ég held, að þessi n. hafi verið skipuð fyrir fimm árum og hafi skilað af sér fyrir tveimur árum og sé ekki lengur til. Ég man ekki betur en hv. 6. landsk. þm., sem varamaður fyrir þm., sem nú situr við hliðina á mér, hafi sagt, að n. hafi skilað af sér. Þá útskýringu hef ég fengið hér á Alþ. fyrir meira en ári. Hún er því búin að skila af sér niðurstöðum sínum og hætt og er ekki lengur til. Þess vegna skilst mér, að það sé nú ekki gott að vísa máli frá með þeim rökstuðningi að ætla n., sem ekki er til, að taka málið til athugunar. Það verður þá að setja nýja n. til þess að athuga málið, því að hin fyrri n. er búin að skila af sér og hætt störfum og búin að fá sín laun að fullu greidd. — Ég held því, að hv. þm. Barð. verði að breyta sinni rökst. dagskrá í það form að fela ríkisstj. að láta endurskoða það, sem hann vill, en ekki segja í till., að nefnd skuli gera það, sem búið er að leggja niður.