23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (3044)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það eru búnar að vera langar og strangar umr. um þetta mál, og skal ég ekki lengja þær mikið úr þessu. Hv. þm. S-Þ. sagði, að nú væri hann búinn að finna lykilinn að öllu saman og fullkomið réttlæti í þessum efnum komið á, ef brtt. hans yrði samþ. Ég get ekki séð, að hann hafi komizt nokkru nær réttri lausn, heldur þvert á móti, að hann hafi stigið spor aftur á bak, eins og staður hestur. Ég sé ekki betur en að þarna sé gerður greinarmunur, þannig að sú kona, sem leggur á sig að vinna heima hjá sér, eftir að hún er búin að starfa á daginn utan síns heimilis, fái engan frádrátt, en hin, sem gefur sig minna við húsmóðurstörfunum, fái þessa húshjálp eða það, sem hún kostar, dregið frá.

En ég vildi spyrja hv. þm. S-Þ. að einu: Hvað er húshjálp? Á ekki að kalla það húshjálp, þegar maður fær fólk til hreingerninga á vorin og haustin við að fægja og þurrka íbúðir? Er það húshjálp að kynda miðstöðvar fyrir hús, sem er kannske greitt sérstaklega? Svona má lengi telja. — Ég held, satt að segja, að við séum komnir þarna út á dálítið teygjanlega braut, því margt má kalla húshjálp, ef það orðalag er haft í l. Það getur vel verið, að hægt sé að framkvæma þetta ákvæði, ef í l. er tekið, sem hér er lagt til um húshjálpina. En ég vildi þá meina, að hv. þm., sem er fyrri flm. þessarar brtt., þar sem lagt er til, að þetta orð verði sett hér inn, þyrfti að skýra, hvað átt er við með orðinu húshjálp þarna, svo að skattanefndir viti gjörla, hvað átt er við með því. En mér eru alls ekki ljós takmörkin fyrir því, hvað telja bæri, að heyrði undir þetta orð, húshjálp. Og ég býst við, að ýmsar merkingar yrðu kannske lagðar í það orð og þær yrðu þá ekki alltaf eins.

Ég endurtek það, að þá mundi ég fella mig við dagskrártill. hv. 4. þm. Reykv., ef hana ber fyrr að, með þeirri aths., sem ég var búinn að taka fram áður, að ég treysti því, að þau atriði, sem hv. þm. Barð. getur um í sinni dagskrártill., kæmu einnig fram til athugunar, um leið og lagt er fram þetta álit eða till um breyt. á skattal. yfirleitt, sem getið hefur verið hér.