23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (3048)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af till. hv. þm. Vestm. vil ég lýsa yfir, að ég get vel fellt mig við þá afgreiðslu á málinu, sem hann lagði til, ef annar hvor þeirra ráðh., sem hér eru inni nú, vildu lýsa yfir, að málið yrði tekið til athugunar og öll þau atriði yrðu tekin til athugunar, sem hér hafa komið fram í sambandi við rökst. dagskrárnar. En meðan ekkert heyrist um það frá hæstv. ríkisstj., sem ég man ekki að hafa heyrt — og hæstv. fjmrh. hefur ekki haft tíma til þess að vera viðstaddur þessar umr. hér, en það eina, sem ég minnist að hafa heyrt frá hæstv. ríkisstj. um málið, er, að einn ráðh. hefur óskað eftir, að ein till. í málinu, sem borin hefur verið fram, væri úrskurðuð að vera ekki samkvæm þingsköpum, — þá get ég ekki fellt mig við að samþ. þá till. að vísa málinu til ríkisstj., a. m. k. ekki fyrr en ég veit eitthvað um hennar hug til málsins. Ef mín dagskrártill. er samþ., þá er það bein ósk hv. Ed. um, að þessi mál séu athuguð. Og ég vil, að a. m. k. þeir menn, sem geta fylgt því, að þessi mál verði athuguð, fylgi minni dagskrártill. — og sérstaklega, að hv. 11. landsk. þm. fylgi henni, þar sem hann segist geta fylgt dagskrártill. hv. 4. þm. Reykv. með þeirri munnlegu viðbót, að teknar yrðu úr minni till. óskir um það, á hvern hátt eða hvað athuga beri, auk þess sem í hinni dagskrártill. er fram tekið. Ég býst við, að hæstv. forseti beri fyrst upp dagskrártill. á þskj. 512, með þeirri brtt., sem komin er fram frá mér, því það er eðlilegast í málinu. Og þá vænti ég a. m. k., að hv. 11. landsk. þm. fylgi henni, eftir því sem hann hefur talað hér. Því að þeir, sem vilja vísa málinu til stj., geta vissulega vísað því til hennar á þann hátt. — Við höfum verið sakaðir um það hér í hv. d. og annars staðar, ég og hv. 11. landsk. þm., að vilja vísa þessu máli til n., sem ekki væri til. Ég hef gert fyrirspurn í stjórnarráðinu um tilveru þessarar n. og fengið það svar frá einhverjum fulltrúa þar, að að svo miklu leyti sem honum væri kunnugt um, væri sú n. starfandi. Og fer okkur þá að vera nokkur vorkunn hér í hv. Ed., þó við höldum þetta, ef fulltrúi í stjórnarráðinu heldur, að þessi nefndarstörf séu nú á þessum tíma í höndum ákveðinna manna.

Vil ég svo leiðrétta það, sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv. Þrátt fyrir það þó hann skrifaði upp orð úr minni ræðu, fór hann ekki rétt með í því sambandi, og það veit hann vel. Því að hann sagði, að aðalrökin í minni ræðu fyrir till. minni um að fella niður tekjuskattinn hefðu verið þau, að ég hefði talið, að með því gengi jafnt yfir alla. Hann sagði og, að ég hefði haldið fram, að Alþýðublaðið væri vont blað. Það er ekki rétt. Ég sagði það ekki, heldur að það væri ákaflega ómerkilegt blað og að ég vildi, að hv. 4. þm. Reykv. færi ekki að líkja eftir Alþýðublaðinu, og að ef ég læsi það blað, læsi ég það með fyrirlitningu.