23.01.1951
Efri deild: 54. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (3056)

38. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Ég er nú vanur að hlíta úrskurði forseta, en vil þó, í sambandi við rökstuðning hans, segja þetta:

Það er rétt, að það er enginn sérstakur formáli í þingsköpum um, hvernig fara skuli með brtt. við dagskrártill. Af því dreg ég þá ályktun, að með þær brtt. skuli fara sem aðrar, enda játaði forseti sjálfur, að fordæmi væri fyrir því, að slíkar brtt. hefðu verið bornar undir atkvæði.

Hins vegar telur hæstv. forseti, að efnismunur brtt. á þskj. 540 og aðaltill. á þskj. 512 sé svo mikill, og mér skilst aðallega hvað rökstuðning snertir, að ástæða sé til að skoða hana sem sjálfstæða till. Þetta fæ ég með engu móti skilið. Efnisatriði beggja till. er, að fresta skuli afgreiðslu málsins og taka fyrir næsta mál á dagskrá. Það er þetta, sem greidd eru atkv. um. Þó að rökstuðningurinn sé nokkuð annar, þá fjalla báðar till. um sama efnisatriðið. Því finnst mér, að bera eigi till. á þskj. 540 upp á venjulegan hátt sem brtt.