08.02.1951
Efri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (3084)

70. mál, lyfsölulög

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að svo lítur út fyrir sem þetta mál sé komið í sjálfheldu í þessari d. Ég get vel fallizt á, að nokkrar líkur eru til, að málið verði leyst með því að kljúfa efni frv. í tvennt. Ég vil gjarnan mega beina athygli hæstv. forsrh. að tveim greinum og fleiri atriðum í sambandi við samningu þessa frv. — Eitt af því, sem vitað er og viðurkennt af öllum, sem þekkja til lyfjaverzlunar hér á landi, er það, að það er örðugt að semja svo gjaldskrá fyrir lyf, að hún sé við hæfi allra aðila. Þær lyfjabúðir, sem hafa minnsta umsetningu, geta trauðla komizt af með sömu álagningu og hinar, sem hafa margfalda umsetningu á við þær. Þetta hefur hvarvetna verið viðfangsefni þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað í nágrannalöndum okkar, og þar hefur sú leið verið farin að jafna þann mismun með eins konar jöfnunargjaldi, sem lagt er á lyfjabúðirnar sjálfar eða þá, sem reka þær. Ég held, að lyfjaverð, sem er við hæfi hinna smærri lyfjabúða okkar, sé allt of hátt fyrir hinar stærri, t. d. hér í Reykjavík, og það er óhjákvæmilegt að taka tillit til þessa.

Annað atriði hefur mjög verið deilt um í sambandi við þessa lagasetningu, en það er, hvort halda eigi þeim gamla hætti að veita þeim einum lyfsöluleyfi, sem lokið hafa prófi sem lyfjafræðingar, eða hvort hafa skuli regluna um slíkar lyfjaveitingar rýmri, svo að aðrir en lyfjafræðingar geti fengið lyfsöluleyfi, ef þeir setja næga tryggingu fyrir því, að lyfjafræðingar og sérfræðingar sjái um allan rekstur og uppfyllt séu önnur skilyrði, sem sett yrðu. Ég ætla að taka fram, að ég tel ekkert því til fyrirstöðu, að farin sé rýmri leiðin og leyfin ekki bundin við sérfræðinga.

Þriðja ágreiningsatriðið, sem drepið hefur verið á af hæstv. ráðh. og hv. þm. Barð., er, hvernig haga skuli innflutningi lyfjanna, hvort innflutningurinn skuli vera í höndum eins aðila eða í höndum allra lyfjabúðanna. Í sambandi við þetta er eitt veigamikið atriði, sem ég vil vekja athygli hæstvirts ráðherra á, en það er blöndun og tilbúningur lyfjanna. Með mörgum og smáum lyfjabúðum, sem hver um sig annast þessa blöndun, verður hún dýrari og sennilega ekki eins örugg og ef hún væri gerð við betri skilyrði og í stærri stíl en hægt er að gera hjá hverri einstakri lyfjabúð. Þess vegna finnst mér það koma til álita, hver sem skipun lyfjabúðanna verður, hvort ekki er hægt að blanda lyf ódýrar og öruggar en nú með því að láta gera það á einum stað. Þetta er bending, sem ég vildi koma til hæstv. ráðh. til athugunar.