21.11.1950
Neðri deild: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í C-deild Alþingistíðinda. (3094)

99. mál, verkstjóranámskeið

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem iðnn. hefur leyft sér að flytja á þskj. 174, er ekki nýtt hér í hv. d., því að það var flutt á síðasta þingi og afgr. héðan úr þessari hv. d., en náði þá ekki afgreiðslu í hv. Ed. Það er nú flutt nákvæmlega eins og hv. Nd. skildi við það á síðasta þingi. Þá voru gerðar á því smábreyt., og þær voru teknar upp í þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Eins og ég sagði, er þetta ekki stórt frv., og þó er það að mínu viti allmerkilegt. Eins og hv. þm. er kunnugt, starfar nú á vegum þess opinbera og víðar fjöldi verkstjóra, sem hafa með höndum verk, sem kosta svo milljónum og tugum millj. kr. skiptir. Verkstjórarnir eru oft þeir einu menn, sem geta haft eftirlit með gangi starfa þessara, þar sem aðrir, bæði verkfræðingar og aðrir, sem um þetta eiga að sjá, geta ekki komizt yfir það að geta haft daglegt eftirlit þessara verka með höndum. Það er því ákaflega nauðsynlegt, að verkstjórar hafi þá menntun og kunnáttu til að bera, sem gerir þá hæfa til að standa svo í stöðu sinni sem með þarf.

Frv. fer ekki fram á annað en að ríkisstj. sjái um, að haldin séu árlega námskeið fyrir þessa verkstjóra, þar sem þeim sé kennt ýmislegt, sem starfi þeirra tilheyrir, eins og stærðfræði, mælingar, teikningar, skýrslugerðir, vinnubókhald, kostnaðaráætlanir, svo og um byggingarefni, steinsteypu og sprengingar, vegagerð, jarðvegsfræði, framræslu, hirðingu véla og verkfæra og ýmislegt þess háttar.

Í nágrannalöndum okkar, bæði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, eru slík verkstjóranámskeið haldin árlega og hafa gefizt vel.

Kostnaður við þessi námskeið er gert ráð fyrir að þurfi ekki að vera mikill. Það er í grg., sem fylgir frv., talið, að árlegur kostnaður við þau mundi ekki þurfa að nema meiru en kringum 30 þús. kr., og þar af mætti fá um helming endurgreiddan í skólagjöldum nemenda, þannig að kostnaðurinn, sem ríkið tæki á sig vegna þessara námskeiða, mundi nema innan við 20 þús. kr.

Þetta frv. hefur verið samið af Geir Zoëga vegamálastjóra, Helga H. Eiríkssyni skólastjóra iðnskólans í Reykjavík og Jóhanni Hjörleifssyni formanni Verkstjórasambands Íslands. En þeir voru á sínum tíma skipaðir í nefnd til þess að athuga þessi mál. Þeir eru manna kunnugastir öllu, sem hér að lýtur. Vegamálastjóri hefur með höndum umfangsmikla starfsemi og þarf á verkstjórum að halda. Jóhann Hjörleifsson er með í ráðum fyrir hönd verkstjóranna. Og Helgi H. Eiríksson skólastjóri iðnskólans í Reykjavík hefur verið með í samningu þessa frv. vegna þess, að gert er ráð fyrir, að iðnskólanum í Reykjavík verði falin framkvæmd málsins.

Við, sem erum í iðnn. þessarar hv. d., höfum flutt þetta frv. Að vísu var það skýrt fram tekið, að einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til þess að bera fram brtt. við frv., og jafnvel áskilur a. m. k. einn nefndarmaður sér rétt til að hafa óbundið atkv. um afgreiðslu þess.

Þar sem þetta frv. er flutt af nefnd, sé ég ekki ástæðu til að leggja til, að því verði beinlínis vísað til n., heldur mun n., ef henni finnst ástæða til, athuga frv. eitthvað á milli funda.

Ég segi það af persónulegri reynslu minni, að ég tel, að hér sé um merkilegt mál að ræða, sem afgr. megi með tiltölulega litlum kostnaði, en hins vegar geti sparað mikil verðmæti, og hæstv. Alþ. ætti því nú að afgr. þetta mál, þannig að þessum námskeiðum yrði komið á sem fyrst. Ef þetta mál yrði afgr. nú brátt, væri ekki útilokað, að það mætti koma á einu slíku námskeiði þegar á þessum vetri.

Það er eitt atriði enn, sem ég vildi aðeins minnast á, sem nefnt er í frumvarpinu, viðkomandi kennslunni, og það er, að þau einu réttindi, sem verkstjórum, sem á slíkum námskeiðum hafa verið, eru fengin, eru, að jafnhliða starfandi eldri verkstjórum eiga þeir að ganga fyrir öðrum í opinberri vinnu í þeim greinum; sem þeir hafa notið fræðslu í á námskeiðunum. M. ö. o., ef það opinbera á kost á manni í verkstjórastöðu með próf frá slíku námskeiði eða eldri starfandi verkstjóra í þeirri grein, þá skulu þeir ganga fyrir, er um ráðningu verkstjóra er að ræða í þeirri starfsgrein, en hinir ekki vera ráðnir.