13.02.1951
Efri deild: 71. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (3109)

99. mál, verkstjóranámskeið

Fram. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Iðnn. hefur orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði afgr. með rökst. dagskrá.

Þetta frv. er komið hingað frá hv. Nd. og er gamalkunnugt frv.

Það hefur verið komið á námskeiðum hjá Verkstjórafélaginu, sem hafa verið studd að nokkru leyti af vegamálastjóra og vitamálastjóra, til undirbúnings fyrir verkstjóra undir sitt starf.

Þessi námskeið hafa verið haldin við og við. Þau hafa verið misjafnlega sótt, og ekki hafa allir, sem þar hafa verið, farið í verkstjórastarf að námi loknu. — Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er hugsað að mynda sérstakan skóla, sem samkv. 6. gr. er ætlað að starfa í sambandi við iðnskólann í Reykjavík, en upp kom í umr. um málið við form. Verkstjórafélagsins, Jóhann Hjörleifsson, að hugsað væri yfirleitt að hafa svona námskeið í sambandi við iðnskólana úti á landi einnig, þar sem þeir væru. Það kom yfirleitt í ljós, þegar maður talaði við skólastjóra iðnskólans annars vegar og hins vegar við form. Verkstjórafélagsins, að þeir voru engan veginn búnir að hugsa sér það, hvernig þetta námskeið eða þessi námskeið ættu að vera, og voru alls ekki sammála um það, sem í frv. stóð.

Öll hv. iðnn. var sammála um það, að það væri ákaflega mikils virði fyrir það opinbera, bæði bæjarfélög og þó sérstaklega ríkið, sem þarf á fjölda verkstjóra að halda, að verkstjórarnir væru vel menntaðir. En við það að athuga í grg. þessa frv., hvað hugsað er að kenna þessum verkstjórum eða a. m. k. hvað hefur verið kennt á þessum námskeiðum — og frv. leggur ekki til neinar breyt. á því —, þá er sjáanlegt, að það eru ekki neinar aðrar námsgreinar en kenndar eru flestar í öllum skólum landsins. Og þess vegna er ekki beint þörf á því að fara að setja upp sérstök verkstjóranámskeið til þess að kenna þær námsgreinar, eins og t. d. reikning, íslenzku o. s. frv. Hins vegar telur iðnn., að það, sem verkstjórana sérstaklega vanti, sé æfing og kunnátta í þeim verkum, sem þeir þurfa að stjórna, og sérstaklega nú, með aukinni vélatækni og meiri vinnu með vélum en þeir höfðu áður átt við að búa. Á þessu ræður frv. enga bót. Það er einungis bóklegt, sem ætlazt er til eftir frv. að kennt verði á þessum námskeiðum, sem hér er um að ræða. Það er látið hér í veðri vaka, að það muni vera ódýrt — og kann vel að vera, að það yrði — að kenna verkstjórum eins og hér er hugsað að gera það. En það kemur þá að tiltölulega litlum notum fyrir verkstjóra, með tilliti til þeirrar sérkunnáttu, sem þeir óhjákvæmilega þurfa að hafa í sínu starfi.

Nú líta sumir nm. í hv. iðnn. svo á, að það opinbera, og sérstaklega vegagerðin og rafmagnsveiturnar og vitamálastjórnin, geti alla vega komið fyrir námi handa sínum verkstjórum. Aðrir hv. nm. líta aftur þannig á, að þörf sé á að koma upp sérstökum námskeiðum fyrir verkstjóra, sem séu meir sniðin við lífið sjálft og þau verk, sem þeim er ætlað að stjórna, heldur en gert er hér í þessu frv. Öllum bar saman um það, sem við töluðum við um þetta mál, að þörf væri á mismunandi þekkingu fyrir verkstjórana eftir því, í hverri starfsgrein þeim væri ætlað að vinna. Það væri þörf t. d. á öðruvísi þekkingu fyrir verkstjóra, sem ætluðu að vera verkstjórar yfir háspennulínulögnum úti um landið, heldur en fyrir þá, sem ættu að stjórna vinnu við hafnargerðir, vegagerðir eða götulagningar í bæjum. Sú tilbreytni, sem þarf að vera til staðar í undirbúningi verkstjóra með kennslu undir sín störf, er ekki til staðar í þessu frv., eins og það er, enda þótt vikið sé að því í grg. þess og viðurkennt, að mismunandi þekkingu þurfi verkstjórarnir að fá eftir því, hvað þeir eiga að vinna við. En það er ekki gert ráð fyrir þessari mismunandi kennslu í frv. Og það telur hv. n. eitt með öðru orsök til þess, að álykta verði, að málið sé ekki það undirbúið og það hugsað, þó að það sé komið hér fram í frv.-formi, að það sé rétt af hv. d. að samþ. frv. Hins vegar er n. öll sammála um, að það sé nauðsynlegt að reyna að finna leiðir til þess að afla verkstjórum sérstakrar þekkingar í samræmi við þau störf, sem þeim er ætlað að framkvæma. Hvort þá á að fara þá leið að heimila t. d. þeim, sem fer með vegamálin, vegamálastjóra, að offra einhverju fé til að veita nauðsynlega sérþekkingu þeim verkstjóraefnum, sem hann er búinn að fá og eru að mörgu leyti vel hæfir starfsmenn og reyndir að stjórnsemi, og að heimila fleirum, sem þurfa að ráða til sín góða verkstjóra til að vinna fyrir það opinbera, að gera það sama, og þá m. a. með því að láta þessa menn vinna undir stjórn verkstjóra þeim fremri, sem vinna með fullkominni tækni, eða hins vegar, hvort þá leið á að fara, að koma upp skóla, sem sé meira eða minna verklegur skóli í þeim störfum, sem þessir verkstjórar eiga að vinna við, og meir verklegur skóli en gert er ráð fyrir í þessu frv., þá leggur n. til, að þessu frv. verði nú vísað frá með rökst. dagskrá að þessu sinni, — ekki til þess að svæfa málið, heldur til þess að ríkisstj. athugi, ásamt forstjórum starfsgreina hins opinbera, svo sem vegamálastjóra, vitamálastjóra, raforkumálastjóra, á hvern hátt verði heppilegast fundin leið til þess að afla verkstjórum sem beztrar menntunar, sem sé miðuð í hverju tilfelli við þeirra starf, til þess að gera þá sem bezt hæfa í sinu starfi. Og ég treysti því ákveðið, ef þessi rökst. dagskrá verður samþ., að ríkisstj. athugi þetta gaumgæfilega milli þinga, því að nú líður nokkur tími á milli þinga, og fínni lausn á þessu máli, því að það er viðurkennt af öllum, að í þeim stóra hópi af verkstjórum, sem ríkið þarf á að halda og í eru líklega eitthvað yfir 200 manns á ári, þá séu menn, sem ekki hafi þá þekkingu á sínu starfi, sem nauðsynleg verði að teljast, til þess að þeir geti verið reglulega góðir verkstjórar. Úr þessu þarf sem fyrst að bæta. Og við treystum því ákveðið, nm. allir í iðnn., — líka þeir, sem ekki telja sig beint stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., — að hæstv. ríkisstj. láti málið ekki sofna, et því verður vísað til hennar með þessari rökst. dagskrá, heldur reyni að finna lausn á því, sem geti leitt til þess, að við fáum betri og hagsýnni verkstjóra en við höfum haft og með því betur framkvæmd verk fyrir það opinbera en við höfum haft, því að það er hægt að tilfæra mýgrút af dæmum úr hinu praktíska lífi um mistök í stjórn verklegra framkvæmda fyrir ríkið, sem hafa kostað ríkissjóð þúsundir og hundruð þús. kr. og hafa orðið fyrir ekki nógu góða verkstjórn. En að engu leyti yrði úr þessu bætt eða komið í veg fyrir slíkt, þó að verkstjórar færu á sérstök námskeið til að læra að skrifa og reikna, eins og til er ætlazt með þessu frv. — Iðnn. leggur því til, að málið verði afgr. með því að samþ. rökst. dagskrána á þskj. 658.