24.11.1950
Neðri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (3130)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég tel að vísu, að tilgangslítið sé fyrir okkur hv. þm. V-Húnv. að karpa um þetta, einkum þar sem d. er langt frá því að vera ályktunarfær, en ég get þó ekki stillt mig um að segja nokkur orð út af síðustu ræðu hv. þm. V-Húnv., en skal vera stuttorður. Fyrst eru það þá skrifstofurnar og verzlanirnar, hvort þær eigi að heyra undir lögin. Hv. þm. V-Húnv. verður að viðurkenna, að í mörgum tilfellum koma slíkar stofnanir hér til greina, t. d. verzlunarhús með lyftu. Lyftan og lyftubúnaðurinn verða að vera háð eftirliti, eins og önnur tæki. Það er ekki óeðlilegt, að þetta sé skoðað, eins og önnur tæki, sem varða öryggi manna. — Um hlífðarfötin og húsrýmið þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Það er gengið út frá því, að þar sem í frv. er talað um, að vinnuveitandi þurfi að skaffa vinnandi mönnum sérstök hlífðarföt, þá sé um önnur en venjuleg vinnuföt að ræða, og þar sem oft er erfitt fyrir verkamenn að afla þeirra, þá er eðlilegt, að vinnuveitendur sjái um að útvega þau. Ég veit ekki, hvort hv. þm. V-Húnv. vill lögleiða það, að konur og karlar sofi saman í vinnuskálum, en hann virtist vera á móti þessum aðskilnaði, en ef hann vill innleiða þann sið, að konur og karlar sofi þarna saman, þá get ég ekki heldur fylgt honum í því, en aðalatriðið er það, að ég taldi, að þar sem verkamenn eru hýstir, verði að takmarka það, hvað mörgum má hrúga saman í svo og svo lélegar kytrur. Þess vegna eru í frv. ákvæði um lágmarksloftrúm í svefnherbergjum verkamanna, en það er ekki í brtt. hv. þm. Það má náttúrlega diskútera um það, hve loftrúmið á að vera mikið, en ég tei óheppilegt að hafa engin ákvæði um það í frumvarpinu.

Þá er aðeins eftir öryggisráðið og hvíldartíminn. Ég skýrði frá því, að slík öryggisráð hefðu gefizt vel á Norðurlöndum. Hv. þm. taldi, að það kæmi okkur raunar ekki við, þar sem við byggjum við aðrar aðstæður, en ég held, að við höfum oft gott af því að líta til nágrannanna, og í þessu tilfelli gætum við lært af reynslu þeirra að meta, hvaða gagn slíkt öryggisráð getur gert. Þá sagði hv. þm., að meðlímir öryggisráðsins mundu einnig gegna öðrum störfum og vanrækja eftirlitið þess vegna, en í þessu ráði eiga að vera menn, sem við þessi tæki, sem líta á eftir, búa og vita því, hvar skórinn kreppir að. Þá eiga þeir einnig að líta eftir starfrækslu öryggismálastjóra, að hún verði eins vel af hendi leyst og hægt er. Ákvæðin um öryggisráðið eiga því að vera í frv., en ekki falla burt.

Um hvíldartímann segir hv. þm. V-Húnv., að sér þyki undarlegt, að við, sem höfum barizt fyrir 12 tíma hvíld og talað um 16 tíma þrældóm, skulum vilja lögfesta 8 stunda hvíld, og hann telur, að þetta eigi að vera samningsatriði. Hér er ég honum alveg ósammála. Það eiga að vera til lagaákvæði um hvíldartíma handa öllum, sem ekki er leyfilegt að brjóta. Ég veit ekki til þess, að þegar samið er, þá sé mönnum bannað að vinna t. d. einn sólarhring í striklotu, það eru aðeins ákvæði um það, hvað skuli vera dagvinna, hvað eftirvinna o. s. frv., en menn mega vinna eins lengi og þeir vilja, en þetta á að banna með lögum, því að frumskilyrðið til að tryggja heilbrigt eftirlit og öryggisráðstafanir er það, að allir hafi lágmarkshvíldartíma og alveg sérstaklega þeir, sem gæta vandasamra véla, svo sem bílstjórar. Þó að 12 stunda vinna sé sett sem hámark, þá er ekki þar með sagt, að menn þurfi að vinna svo lengi. Samningar milli vinnuveitenda og verkamanna verða bara að vera innan þessara takmarka, og ekki þarf endilega að fara upp að hámarki. Hv. þm. V-Húnv. veit, að menn stjórna ekki bifreið á 12. eða 13. tímanum eins vel og á 1. tímanum, og eftir því sem bifreiðarstjórinn ekur lengur, þá dregur úr öryggi hans og þeirra, sem eiga líf og limi undir stjórn hans. Þetta á því að vera löggjafaratriði, það á að lögbjóða 12 stundir sem lágmarkshvíld, en svo geta vinnuveitendur og verkamenn samið þrengra.

Ég mun svo ekki pexa meira um þetta við hv. þm. V-Húnv. Við höldum líklega hvor sinu, og þar sem ekki eru fleiri hér í hv. d., þá er tilgangslítið að deila um þetta frekar.