15.02.1951
Efri deild: 72. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (3155)

26. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var fyrst lagt fram sem stjfrv. á Alþ. 1948. Það hafði verið undirbúið af milliþinganefnd til að endurskoða lög um eftirlit með verksmiðjum og vélum í landinu og lagt fram með mörgum og miklum fylgiskjölum, sem m. a. sýna það mikla verk, sem bak við það liggur. Það er vitað mál, að þetta verk kostaði 60 þús. kr., enda mikið mál að efni til, eins og fylgiskjölin sýna, þótt 30 síður af þeim séu vita gagnslausar skýrslur í sambandi við þetta mál, en sýna þó á yfirborðinu, að mikið verk hefur verið sett í þetta frv. En þessar ónauðsynlegu skýrslur eru nöfn yfir fyrirtæki o. þ. l., sem skoðuð hafa verið af vélaeftirlitinu og koma þessu máli ekkert við. Þegar litið er á það, að þetta mál hefur ekki náð fram að ganga á s. l. 2 þingum, og það muni ekki breyta miklu um öryggi þessara mála í landinu — og þó sérstaklega ekki eftir að ákvæðin um öryggisráð voru felld úr frv. í Nd., þá hygg ég, að ekki sé neinn skaði skeður, þótt frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi.

Ég ætla að leyfa mér að skýra stuttlega frá hinum nýju fyrirmælum, sem í frv. eru, eins og það er borið fram nú.

Í I. kafla frv. er aðeins um það að ræða, að gildissvið laganna er gert víðtækara en það er nú, svo sem eftirlit með skrifstofum og öðrum slíkum stofnunum, sem vinna skyld störf. Hér eru smærri atriði tekin til greina, og hygg ég, að allir séu sammála um það, að þetta eru ekki aðkallandi atriði. Þar segir m. a., „að lögin skulu ná til sérhverrar starfsemi, þar sem einn verkamaður eða fleiri vinna, eða notuð er orka, sem er eitt hestafl eða meira.“ En þó skulu undanþegin þessum lögum siglingar, fiskveiðar og aðrar veiðar, þar með talin aðgerð á veiðinni á skipsfjöl, enda sé ekki um sérstök verksmiðjuskip að ræða, loftferðir, vinna í einkaíbúð vinnuveitanda, enda sé um algeng heimilisstörf að ræða, og að síðustu, allur almennur búskapur.

Samræmið í þessu er ekki meira en það, að undanþegin eru öll skip nema verksmiðjuskip, eins og t. d. Hæringur. En þó sýnist það vera einkennilegt, að jafnskjótt og þessi skip eru komin úr höfn, þá heyri þau undir eftirlit skipaskoðunarinnar, en undir eftirlit vélaeftirlitsins, á meðan þau eru bundin í höfn.

Þá er ekki hugsað eftirlit með loftferðum, í einkaíbúðum eða við landbúnaðarstörf. Þó er það vitað mál, að í sambandi við stórlandbúnað er eins mikill vélakostur og þar, sem vinna ekki nema tveir menn í iðnaði.

Ef hugsað væri að setja aftur í frv. ákvæðin um öryggisráð, eins og krafizt var af þeirri nefnd, sem undirbjó þetta frv., þá er það sýnilegt, að athuga þarf, hvort öryggismálastjóri eigi ekki að hafa stærra gildissvið. Mín skoðun er sú, að sameina eigi skipaskoðunina og eftirlitið með vélum, og ef setja ætti upp embætti öryggismálastjóra og öryggisráð, þá er óverjandi að sameina ekki þessar stofnanir. Ég hef fengið upplýsingar um það, að við skipaskoðunina starfi 10 fastir menn, og þar af 5 fjórðungsmenn. Þetta er skv. fyrirmælum laga um skipaskoðun, en auk þess starfa 76 menn við þetta víðs vegar um landið, sem fá laun fyrir þá skoðun, sem þeir framkvæma, svo að við þetta starfa ekki færri en 86 menn. Við þessa stofnun, sem hér um ræðir, starfa hins vegar 3 fastir menn og 4 lausir skoðunarmenn úti á landi. Þessi stofnun er því aðeins brot af öryggisstofnun ríkisins, og væri það engum vandkvæðum bundið að setja hana undir skipaskoðunina, og setja síðan öryggismálastjóra og öryggisráð yfir þessar stofnanir í einu lagi, og einnig kæmi til mála að leggja undir stofnunina eftirlit með loftferðum. Ég sé því enga frambærilega ástæðu fyrir því að setja öryggismálastjóra aðeins yfir þessa stofnun, sem hér um ræðir og hefur aðeins 3 fasta og 4 lausa starfsmenn, en láta vera með að setja hann yfir Skipaskoðun ríkisins, sem hefur 86 mönnum á að skipa, eins og ég gat um áðan.

Þessar upplýsingar gera það m. a. að verkum, að iðnn. vildi ekki leggja til, að málið yrði afgr. nú á þessu þingi, eins og það liggur hér fyrir. — En auk þess kom til nefndarinnar Jón Vestdal verkfræðingur, sem var form. milliþinganefndarinnar, og með honum Þórður Runólfsson, sem nú er fyrir vélaeftirlitinu, og lögðu fram til n. ýtarlega greinargerð fyrir því, að þeir óskuðu eftir því, að tillagan, sem felld var í Nd., yrði tekin upp aftur, og lögðu mikla áherzlu á, að ákvæðið um öryggisráð yrði tekið í frumvarpið. Þeir þóttust ekki geta sætt sig við það, að frv. færi út úr hv. Alþingi í þeirri mynd, sem það nú er í, og lögðu að mér að hafa fund með nefndinni, sem undirbjó þetta mál, áður en áliti væri skilað frá iðnn., svo framarlega sem n. vildi, að þetta næði fram að ganga. Nefndin hefur ekki haldið fund með þessum mönnum, vegna þess að hún óskaði ekki eftir því, að málið væri samþ. á þessu þingi, af því að samkomulag náðist ekki við þá aðila, sem undirbjuggu málið, um t. d. jafnveigamikið atriði og ákvæðið um öryggisráð.

Ég hef aflað mér upplýsinga um, hver kostnaðurinn við vélaeftirlitið yrði, ef frv. yrði samþ., og býst ég við, að kostnaðurinn mundi nema launum tveggja embættismanna, en auk þess væru svo 5 menn í öryggisráðinu, og ef þeim væru áætluð laun samsvarandi þeim, sem meðlimir raforkuráðs hafa, þá má gera ráð fyrir að sú upphæð næmi 15 þús. kr. En mér skilst, að svo mikill áhugi sé ríkjandi hjá iðnaðarmönnum um þetta, að þeir væru fúsir að sitja í ráðinu án launa. Ég hygg því, að ráðið mundi ekki kosta mikið fé, og ef frv. yrði samþ., má búast við því, að það hefði 70–80 þús. kr. kostnað í för með sér. En ég sé enga ástæðu til að bæta við 2 mönnum auk 5 manna ráðs, á meðan verksviðið er ekki meira en hér er ætlazt til og þar sem ekki er hægt að sjá, að það mundi neitt auka á eftirlitið í landinu. En ef ég sæi hins vegar, að þetta hefði í för með sér aukið öryggi og eftirlit, þá mundi ég ekki verá á móti þessu ráði. En ef þessar tvær stofnanir væru sameinaðar, þá mætti spara starfskrafta, sem störfuðu að eftirlitinu með vélum, þ. e. a. s. þessa 3 föstu menn og 4 lausu menn úti á landi, en á móti kæmi öryggismálastjóri og öryggisráð. Og það er enginn aukakostnaður við það að sameina þessar stofnanir og ná jafnframt hinu tilætlaða öryggi. Enda segir það sig sjálft, að það eru engin frambærileg rök fyrir því að taka aðeins þá stofnun til greina, sem aðeins hefur 7 mönnum á að skipa, en ætla ekki að gera neitt til öryggis þeirri stofnun, sem hefur 86 menn í þjónustu sinni. Og það er alveg óskiljanlegt mönnum, sem þekkja nokkuð til tæknimálanna, hvers vegna það þarf að heyra til tveim stofnunum að líta eftir sams konar vél í landi og á sjó, gufukötlum á landi og sams konar gufukötlum á sjó o. s. frv.

Einnig er það óskiljanlegt, hvers vegna þarf sérstakan mann til að líta eftir verbúðum og íbúðum í landi, en annan til þess að hafa eftirlit með íbúðum sjómanna í skipum. Það er því sýnilegt, að hér þarf að gera breytingu á og sameina þessar stofnanir til þess að fá samfelldari heild í eftirlitið og gera það ódýrara. Bæði eftirlit með skipum og vélum þurfa að hafa sérfræðinga á ýmsum sviðum, t. d. hvað smíði skipa snertir, trésmíði og vélasamsetningu o. fl. Og í flestum tilfellum geta þessar stofnanir notazt við einn og hinn sama mann á sama sviðinn, svo að það er alger óþarfi að hafa sinn starfsmanninn hjá hvorri stofnuninni, sem báðir vinna hið sama verk. Mér finnst því eðlilegast, að þessar stofnanir yrðu sameinaðar og starfssvið öryggismálastjóra og öryggisráðs víkkað út, svo að þau hefðu einnig eftirlit með flugvélum og jafnvel bílum. Þá yrði um meira samstarf að ræða og þar af leiðandi meiri árangur í því að koma meira öryggi á heldur en verða mundi, ef þessar stofnanir væru sín í hvoru lagi.

Ég talaði um það hér í upphafi, að ég teldi ekki mörg nýmæli í þessu frv. En nýmæli er það t. d. að setja ákvæði um öryggismálastjóra (sem ég hugsa þó, að verði sami maður, sem hefur haft umsjón með vélaeftirlitinu). Hins vegar eru tekin upp í lagabálkinn — í 3. kafla — fyrirmæli og reglugerðir, sem nú eru í gildi og ég tel, að eigi ekki að vera í lögunum.

Hér er farið út í smáatriði, m. a. hvernig lofthæð, loftrúm, gólf, þak, veggir, loft, lýsing, salerni o. fl. o. fl. eigi að vera. En það er auðvitað atriði, sem eiga að vera í reglugerð, en ekki í lögum, til þess að það þurfi ekki alltaf að vera að fara í gegnum Alþingi. Annars er þetta líka allt háð áhrifum frá atvinnulífinu og þróuninni á hverjum tíma.

Einnig er nýmæli í þessu frv., sem mikill ágreiningur er um og ég tel ekki koma þessu máli við, en það eru fyrirmælin um vinnutíma hverrar einstakrar stéttar í landinu. Nefndin hefur því ekki getað lagt til, að frv. verði að lögum á þessu þingi, og leggur til, að því verði vísað frá með svo hljóðandi rökst. dagskrá, sem er á þingskjali 651:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti athuga frv. á ný og m. a., hvort ekki sé hagkvæmt og eðlilegt að sameina Skipaskoðun ríkisins og verksmiðjueftirlit undir eina öryggismálastofnun og hve mikið það kynni að spara í útgjöldum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil taka það fram, að það er ekki stungið upp á þessari afgreiðslu málsins til þess að drepa það, þótt ég sé þeirrar skoðunar, að það breyti ekki miklu, þótt það verði samþ., því að meginhluti ákvæða þess er í gildandi lögum. En í hinni rökst. dagskrá felst það eitt, að nefndin sé á þeirri skoðun, að gera eigi allt til þess að koma í veg fyrir slysahættuna og beina því til ríkisstj., að hún láti rannsaka þetta mál gaumgæfilega.

Hv. 4. landsk. skrifaði undir nál. með fyrirvara. Hann vildi, að frv. yrði samþ. á þessu þingi, en þar sem augljóst er, að það er ekki hægt, þá vill hann heldur, að það verði afgr. þannig en að það sofnaði í nefnd. Og auk þess er öllum ljóst, að ef málið ætti að fá efnislega afgreiðslu á þessu þingi, þá var útilokað að afgreiða það málefnalega. En nefndin gat ekki orðið sammála um þetta.

Að síðustu legg ég til, að hin rökst. dagskrá á þskj. 651 verði samþ.