28.11.1950
Efri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

106. mál, hegningarlög

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur haft mál þetta til meðferðar og leggur til, að frv., eins og það er á þskj. 193, verði samþ. með þeirri breyt., að í staðinn fyrir upphæðina, sem í frv. er tilgreind, 500 kr., komi 1000 kr. Þetta leggur nefndin til sökum þess, að það er nú orðið svo með hlutina í okkar landi, að það getur verið um smávægilega yfirsjón að ræða, þó verðgildi þess munar, sem um er að ræða, geti komizt upp í 1000 kr., og einnig vegna þess, að kostnaður við málarekstur er svo mikill, að hvert opinbert mál kostar þetta og meira, og enn fremur með tilliti til þess, að það eru settir aðrir varnaglar í 256. gr. l., eins og hún er og verður, þar sem gert er ráð fyrir, að þetta sé því aðeins, að engin sérstök atvik auki saknæmi brots og að sökunautur hafi ekki áður reynzt sekur um auðgunarbrot. — Sem sagt, n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem n. ber fram á þskj. 218.