24.11.1950
Efri deild: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (3163)

109. mál, erfðalög

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 109 leyft mér að bera fram frv. til l. um breyt. á erfðal., nr. 42 23. maí 1949. — Eins og hv. þd. er kunnugt, þá voru erfðal. umsamin hér á Alþ. árið 1949, og urðu um þann lagabálk, sem eðlilegt var, allmiklar umr. Kom ég þá fram með m. a. að meginefni til þær till. til breyt. á erfðal., sem ég ber nú fram hér í sérstöku frv., en voru felldar á þinginu 1949. Erfðal. var breytt þá á þann hátt, að mjög var dregið úr því að láta erfðafé renna til útarfa, en á engan hátt nægilega langt gengið í því að mínu áliti. Og þess vegna er þetta frv. borið hér fram.

1. gr. frv. er um það, að 3. málsl. 1. gr. laganna falli niður. Og vegna þess að það er í raun og veru meginatriðið í frv., eru hinar gr. frv. meira afleiðingar af breyt., sem felst í þessari 1. gr. þess. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þann lið í l., sem ég vil fella niður. Hann er svona: „Nú er barnsbarn einnig andað á undan arfleifanda, en börn þess lifa, þá koma þau í stað barnsbarnsins og svo framvegis meðan nokkur niðji er til.“ Þetta er sú stefna, sem mörkuð hefur verið í erfðal., að láta erfðaréttinn ganga í beinan lið til niðjanna, svo langt aftur í tímann. Ég hef hins vegar viljað marka stefnuna í þessu þannig í erfðal., að erfðarétturinn gangi ekki nema frá foreldri til barns og barnabarns annars vegar og frá barni til foreldra og afa og ömmu hins vegar, en að allur annar arfur falli til Tryggingastofnunar ríkisins, eins og ég skal nánar gera grein fyrir.

Til forna og allt þangað til langt fram á vora tíma fór það tvennt saman, framfærsluskyldan annars vegar og erfðarétturinn hins vegar. En með breyttri og bættri félagsmálalöggjöf hefur þessu gersamlega verið breytt. Viðhorfið til þessara mála er því orðið allt annað en það var áður. Nú er m. a. ekki skylt jafnvel sterkefnuðum aðilum að framfleyta systkinum sínum, þó að þau eigi hvorki fé né heilsu til að sjá fyrir sér sjálf. Maður, sem kann að hafa miklar tekjur, er ekki lagalega skyldur til þess að láta af hendi neitt fé til systkina sinna, sem kunna að hafa litlar eða engar tekjur og vesöld við að búa og verða að sækja lífsframfæri sitt til Tryggingastofnunarinnar. Hann er ekki heldur skyldur til að sjá um foreldra, þó að það sé kannske talið fremur siðferðislega skylt en hið fyrra atriði, sem ég nefndi. En segjum, að það væru tvö systkini, annað væri stórefnað, en hitt fátækt og jafnvel fengi örorkustyrk eða sjúkrastyrk til að lifa af frá Tryggingastofnuninni, og að skyndilega tæmdist þessum tveim systkinum arfur, þá mundi arfinum vera skipt jafnt á milli þessara tveggja systkina eftir núgildandi l., og það alveg eins fyrir því, þótt arfurinn væri ekki nógu stór til þess að bera uppi hið fátækara systkini, meðan það væri á lífi. Það er því sjáanlegt, að þarna er óeðlilegt misræmi á milli erfðaréttarins annars vegar og framfærsluskyldunnar hins vegar, sem er ekki hafandi og verður ekki lengur þolað. Og af þessu ber ég fram þetta frv. um breyt. á erfðal., þar sem ætlazt er til, að erfðaréttur haldist viðkomandi þessum ættliðum, sem ég gat um, foreldrum og barnabörnum, en síðan renni arfur beint til Tryggingastofnunar ríkisins, þar sem um fjarskyldari ættingja er að ræða.

Ég hef lagt til í 2. gr. frv., að 3. gr. l. orðist svo: „Ef hinn látni á engin börn eða barnabörn á lífi, en faðir og móðir hans lifandi, erfa þau hann að jöfnu. Kjörbörn og börn þeirra teljast hér sem börn og barnabörn arftaka.“ Þetta er afleiðing þeirrar stefnu, sem mörkuð er með 1. gr. þessa lagafrv. Í 3. gr. l. nú er þetta svo: „Ef hinn látni á engan niðja á lífi, kjörbarn eða niðja þess, en faðir og móðir hans lifandi, erfa þau hann að jöfnu.“ — 3. gr. frv., umorðun á 5. gr. l., er sömuleiðis til samræmingar við 1. gr. frv., ef hún verður samþ.

4. gr. frv. er um, að 6. gr. l. orðist um og verði svo: „Ef enginn arftaki er á lífi, sbr. 1.–5. gr., fellur arfurinn allur til Tryggingastofnunar ríkisins.“ Þetta er kjarni þessa frv. Í 6. gr. laganna nú er ætlazt til þess, að þetta gangi til niðjanna, fjarskyldra, ef ekki eru til náskyldir, eins og ég gat um áðan. En mín hugsun er, að þetta gangi ekki í erfðir lengra út til niðjanna en ég hef greint, en falli síðan til Tryggingastofnunarinnar.

5. gr. frv. er um að orða um 7. gr. l., en hún er svo í l.: „Það hjóna, sem lengur lifir, erfir einn fjórða af eignum maka síns, ef arfleifandi á niðja, kjörbarn eða niðja þess á lífi. Séu hvorugir á lífi, en lifandi lögerfingjar samkvæmt 2.–6. gr., erfir makinn helming eignanna, en allar eignirnar, ef enginn framantaldra erfingja er á lífi.“ Ég legg til, að gr. orðist svo: „Það hjóna, sem lengur lifir, erfir einn fjórða af eignum maka síns, ef hann á börn eða barnabörn á lífi, annars erfir það allar eignir hans.“ Mér þykir eðlilegt, að hvort hjónanna sem lengur lifir erfi hliðstætt því, sem er í gildandi l., ef ekki eru aðrir erfingjar, þannig að féð gangi ekki í þessu tilfelli til Tryggingastofnunar ríkisins að neinu leyti, fyrr en bæði hjónin eru látin. Þess vegna er þessi gr. þannig orðuð um.

6. gr. frv. er um, að 8. gr. l. falli niður. En 8. gr. laganna er um það, að þegar það hjóna, sem lengur lifir, andast, án þess að hafa gifzt aftur og ef það á ekki erfingja á lífi, sem séu niðjar eða kjörniðjar, og hafi það ekki ráðstafað eignum sínum, þá skuli eftirlátnar eigur þess skiptast milli lögmæltra erfingja. Þetta ætlast ég til að falli niður samkv. því, sem ég hef tekið fram áður.

9. gr. frv. er um, að 20. gr. l. orðist um. Í 20. gr. segir nú: „Nú á arfleifandi niðja á lífi, og er honum ekki heimilt að ráðstafa með erfðaskrá meiru en einum fjórða hluta eigna sinna. Ef enginn niðja er á lífi, en maki lifandi, er honum heimilt að ráðstafa helming eigna sinna.“ Ég ætlast til þess, að þessi gr. verði svo: „Arfleifanda er ekki heimilt að ráðstafa með erfðaskrá meiru en einum fjórða hluta eigna sinna.“ Með þessari umorðun á gr. ætlast ég til, að ef erfingjar eru ekki á lífi, sem til greina koma eftir frv. þessu, eins og ég legg til að l. verði höfð, en ráðstafað er eignum með erfðaskrá, renni þrír fjórðu hlutar eignanna til Tryggingastofnunar ríkisins.

11. gr. frv. er svo leiðrétting samkv. stefnu frv. í heild, að í staðinn fyrir orðið „ríkissjóður“ komi: Tryggingastofnun ríkisins.

Og að síðustu er svo 12. gr. frv. svo hljóðandi: „Fé því, sem fellur til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum þessum, skal varið til þess að koma á fót og starfrækja öryrkjastofnun, samkvæmt reglugerð, er tryggingaráð semur og ráðherra staðfestir.“

Þetta er þá meginhugsun frv., annars vegar að takmarka, að erfðaféð gangi ekki til annarra erfingja en frá foreldrum til barna og barnabarna og frá börnum til foreldra, afa og ömmu, en allt annað erfðafé gangi beint til Tryggingastofnunar ríkisins og því fé verði varið til þess að koma upp og starfrækja öryrkjastofnun.

Eftir upplýsingum, sem ég hef fengið, munu vera um 3000 öryrkjar í Reykjavíkurbæ einum. Það er talið, eftir rannsókn, sem gerð hefur verið af Oddi lækni í Reykjalundi, sem er einn þeirra manna, sem bezt vita um þessi mál nú, að það mundi vera hægt að koma öllum þessum mönnum til starfa, ef svo væri búið um, að þeir hefðu einhvern stað til þess að halda sér að, þannig að skipulögð væri fyrir þá vinna, á líkan hátt og gert er í Reykjalundi fyrir það fólk, sem þar starfar. En í Reykjalundi er það svo, að hver vistmaður, sem getur unnið tvo klukkutíma á dag, getur með því unnið fyrir hælisvistinni. Og verstu erfiðleikarnir í Reykjalundi eru ekki það að láta reksturinn standa undir kostnaði og ekki heldur í því fólgnir, að ekki sé hægt að fá nægilega marga öryrkja inn á hælið, heldur er hitt verstu erfiðleikarnir, að fá fólkið til þess að hverfa þaðan aftur, þegar það að áliti lækna er fært um að fara út í lífið til þess að bjarga sér sjálft. En ég tel, að ekkert þurfi að óttast þá hættu. Ég sé ekki, hvers vegna Reykjalundur getur ekki haft tveggja, fjögurra eða jafnvel upp í tíu þús. manna þorp í kringum sig, sem gefi því fólki möguleika til þess, sem þarfnast þess, að halda áfram að starfa í samræmi við sínar ástæður heilsufarslega, þó að það sé orðið það fært, að það þurfi ekki að vera undir umsjá læknis. Þetta er aðeins skipulagsatriði.

Örorkustyrkur er nú svo lágur, að hann getur ekki dugað til þess að fleyta fram lífi öryrkja, nema hann geti unnið jafnframt. Öryrkja er heldur ekki hollt að hætta alveg vinnu, ef hægt er að búa svo um, að hann geti haft eitthvað að vinna, sem væri þá eftir læknisráði. Og það mundi skapa honum miklu meiri lífsgleði, ef hægt væri að búa svo um fyrir hann, að hann gæti starfað, þótt af veikum mætti væri. Eftir að ég hef heimsótt heilsuhæli, m. a. á Vífilsstöðum, hef ég kynnzt því, að það er að verða hið mesta vandræðamál heilsuhælanna að geta ekki skapað nógu góð vinnuskilyrði fyrir það fólk, sem getur unnið svo sem tvo tíma á dag. Það er sorglegt að sjá það á Vífilsstöðum, að enn skuli ekki hafa verið komið upp nægilega góðum og stórum vinnustöðum, til þess að tveir þriðju af því fólki, sem þar er í dag, gæti innt þar af hendi nægilega mikla vinnu til þess að borga sína hælisvist, sem það gæti, ef aðstæður væru til þess. Þar verða þeir menn, sem hraustastir eru, að kúldrast niðri í kjallara, sem lánaður hefur verið af læknunum, til þess að hnýta þar botnvörpur, af því að annað herbergi er ekki til, og má geta nærri, hversu heilsusamlegt það muni vera. Aðrir vinnustaðir á þessum stað eru hanabjálkaloft eða skúr fyrir utan hælið. Er ekki æskilegt, að þetta ástand þurfi að haldast.

Ég sé ekki, að þessar till. mínar í frv. skapi ríkissjóði nein útgjöld. Ég hygg, að þó að þetta frv. verði samþ., eins og það liggur fyrir hér, þá takmarki það ekki erfðafjárskattinn til ríkisins, sem nú er ákveðinn og tekinn er á fjárlagafrv. með 300–400 þús. kr. Hann yrði að greiða, nema l. yrði breytt sérstaklega að því leyti. En hér er ekki um annað að ræða í frv. en að láta arf ekki ganga til útarfa, samkv. því, sem ég hef greint. Virðist það ekki að neinu leyti óeðlilegt. Stundum hefur orðið misklíð út af arfi, sem gengið hefur til útarfa, og málaferli út af, svo sem eitt sinn var, er of miklu þótti varið til þess að jarða heiðursmanninn, sem arf lét eftir sig. Væri í slíkum tilfellum féð miklu betur komið hjá þeirri stofnun, sem ég legg til að fái það til ráðstöfunar.

Ég vil vænta þess, að hv. alþm. meti svo mjög þá viðleitni, sem hér er gerð, og skilji þá þörf, sem liggur hér fyrir, svo vel, að þeir hiki ekki við að samþ. þetta frv., til þess að fá leyst sem skjótast það mál, sem er mjög aðkallandi hjá þjóðinni og ákvæðum þessa frv. er ætlað að leysa. Og svo framarlega að hægt væri að koma upp slíkri stofnun sem ég hef talað hér um, þá yrði það ekki aðeins til þess að létta stórkostlega gjöldum af Tryggingastofnuninni, — og þá um leið á allri þjóðinni, því að Tryggingastofnunin hefur ekki annars staðar frá tekjur en frá einstaklingunum í landinu, beint eða óbeint, — heldur yrði þetta jafnframt til þess að auka stórkostlega afköst í landinu, því að það eru sannarlega ekki lítil afköst, sem hægt væri að hugsa sér hjá 3000 manna hópi, ef hann gæti unnið, þótt ekki væri nema brot úr fullri vinnu. Í Reykjalundi munu afköstin nú skipta milljónum hjá þessum litla hópi, sem þar er. Og það út af fyrir sig er ekki neitt lítið atriði.

Erfðalagafrv. var í allshn., þegar l. var síðast breytt. Með tilvísun til 12. gr. í mínu frv., þar sem gert er ráð fyrir, að þetta fé gangi til ákveðinnar stofnunar, þá hygg ég, að þetta frv. ætti að fara til heilbr.- og félmn. Það getur líka verið, að eðlilegt hefði verið, að það hefði farið til fjhn. til athugunar. En ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn., sem hefur með að gera öll mál í sambandi við Tryggingastofnun ríkisins. Vænti ég, að hæstv. forseti og hv. þd. fallist á þá till.