16.02.1951
Efri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (3185)

109. mál, erfðalög

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég var fjarverandi í gær, er hv. þm. Barð. flutti hér langa ræðu, þar sem ég hef heyrt, að hann hafi talað mikið til mín, og get því ekki svarað neinu af því, enda er hv. frsm. búinn að svara fyrir n. Ég sný mér því beint að þessari ræðu hv. flm. Hann taldi það næstum goðgá, að beðið var svo lengi eftir umsögn Háskóla Íslands um þetta mál, og ætti ekki að láta neinum aðilum líðast að halda svo lengi eftir umsögnum. En hvað var þessi bið svo löng? Hann viðurkenndi, að fram til 10. jan. hefði ekki verið hægt að álasa n. fyrir störf hennar að þessu máli. Það hefur því verið beðið frá 10. jan. til 23. jan. eftir umsögn Háskóla Íslands. Ég skal gjarnan taka það algerlega á mig, að beðið var eftir umsögn hans, og stafaði það af því, að ég vildi alveg sérstaklega fá umsögn háskólans um þetta mál. — Eitt af því, sem tafði fyrir málinu, var það, að eftir áramótin var þing óstarfhæft sökum fjarveru hans sjálfs og ósk um, að málið yrði ekki tekið fyrir að honum fjarverandi. Ég hafði fengið ákveðið loforð frá Háskóla Íslands um, að umsögn hans kæmi og taldi hina mestu ókurteisi að taka málið fyrir, áður en hún kæmi, og ég tel mig ekki hafa sýnt málinu neina hlutdrægni með því að bíða eftir henni. — Ég get svarað því skýrt, að ég hef ekki leitað álits míns flokks á þessu máli og tel þess ekki þörf.

Um afstöðu mína til málsins í heild get ég verið fáorð. Þar mætast tvö sjónarmið, eins og skýrt kom fram, er hv. flm. vildi vísa því til hv. heilbr.- og félmn., en ekki til hv. allshn. Með þeirri afstöðu sinni að vísa málinu ekki til hv. félmn. hafði hv. þingdeild skorið úr um afstöðu sína til þessa máls og hvernig hún liti á þetta mál í eðli sínu. Frá mínu sjónarmiði er ætlað með flutningi þessa frv. að gerbylta lagabálki, sem er einn af grundvallarlögum í íslenzkum rétti, og miðast mín afstaða til málsins við það. Þegar tekið er tillit til þess, að þetta er aðeins annað árið síðan erfðalögunum var breytt, og í rauninni ekki komin nein reynsla á þær breyt., sem þá voru gerðar, þá tel ég afstöðu meiri hl. n. meir en sjálfsagða og ekki koma til nokkurra mála að afgreiða málið á annan hátt. Nú kemur fram það sem var grunntónninn fyrir því hjá hv. flm. að vilja vísa málinu til hv. heilbr.- og félmn., að það er verið að taka íslenzk erfðalög og gerbylta þeim til þess að koma upp öryrkjahæli í landinu. Það mun ekki standa á mér að vinna að framgangi þess máls eftir eðlilegum leiðum, en þessa leið neita ég að fara og tel mjög seilzt um hurð til lokunnar að fara hana og taka lög, sem eru ein af grundvallarlögunum í íslenzkum rétti, og gerbylta þeim til þess að ná öðru — að vísu ákaflega ákjósanlegu takmarki, og þar að auki er það takmark alls ekki greinilega fram sett. Um það, hvort hægt sé að fá umræðu frestað vegna síðustu greina frv., þá vil ég minna á, að brtt. um þetta efni var borin fram í þessari hv. deild í sambandi við breyt. á tryggingalögunum í vetur og var þá felld, en ég vil benda hv. flm. á, að nú liggur fyrir frv. um breyt. á tryggingalögunum, og væri þá einfaldast að bera fram brtt. við það frv., og skyldi ég gjarnan gerast meðflm. að slíkri till., ef í henni væri ekki farið fram á breyt. á erfðalögunum, en við þeim vil ég ekki hreyfa.