16.02.1951
Efri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (3189)

109. mál, erfðalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í umr. um þetta mál, en ég vil benda hér á tvö atriði í sambandi við það. Annað er það, að fyrir nokkrum árum og síðan aftur og aftur kom það fyrir, að lagt var til að ætla ákveðnar tekjur ríkissjóðs tii ákveðinna framkvæmda. Þegar þetta kom fyrst fyrir, þá fordæmdi núv. form. fjárhagsráðs þetta harðlega, en hann átti þá sæti hér á Alþ., og sagði, að ríkisstj. ætti að ákveða slíka skiptingu fjárins, en ekki ætti að setja ákveðnar tekjur í ákveðnar skúffur, og fordæmdi þetta mjög hart. Síðan hefur slíkt komið oftar fyrir, og þá hefur það verið fordæmt af hv. form. fjvn., sem nú vill þó láta ákveðnar tekjur fara í ákveðnar framkvæmdir. Ég, sem barðist fyrir sérstökum benzínskatti til að fá fjármagn til brúabygginga, gleðst yfir þessu. En ég held, að Alþ. sé enn þeirrar skoðunar, sem það hefur verið, að ráðstafa tekjum ríkissjóðs þangað, sem mest er þörfin á hverjum tíma, en ákveða ekki, að ákveðnir tekjustofnar skuli ganga til ákveðinna verkefna. Hitt atriðið er það, að ég tel það fjarstæðu, að fé það, sem gengur til ríkissjóðs, fari í eyðslu, því að það er aðeins hluti af því, sem þannig er varið, en mestur hlutinn fer í ýmsar framkvæmdir og rekstur, og það skiptir þá engu máli, hvort þetta fé fer í eyðslu eða eitthvert annað fé, því að það fé, sem annars færi þá í eyðslu, gengur þá til skóla, hæla og annarrar slíkrar starfsemi, og það er fjarstæða að ætla að vinna málinu fylgi með slíkum rökum, því að það er röng málfærsla. En ég held, að svo lítil reynsla sé enn komin á erfðalögin, að ástæðulaust sé að breyta þeim nú, en hitt er svo annað mál, hvort ekki sé nauðsynlegt að hyggja öryrkjahæli og hvort ekki sé rétt að leggja fé til þess, en hv. þm. Barð. kærir sig víst ekki um auknar tekjur í ríkissjóð, því að hann lagði til að fella niður tekju- og eignarskatt.