16.02.1951
Efri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (3190)

109. mál, erfðalög

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 1. þm. N-M. Mér skilst, að hann sé nú á móti því, að ákveðnum tekjum sé varið til ákveðinna framkvæmda, af því að þegar hann var áður með slíkri ráðstöfun fjárins í ákveðnu augnamiði, þá hafi tveir þm. verið á móti því. Er slíkt vægast sagt veik röksemd. Hvað um skatta, sem lagðir voru á í sambandi við eignakönnunina, brúaskattinn o. fl.? Ég gæti talið mörg dæmi, þar sem ákveðnum tekjum hefur verið varið til ákveðinna verkefna, en hér er um að ræða ráðstöfun erfðafjár, og þó að einhver hluti þess kunni að fara til skóla og annars slíks, þá verður þessu fé vart varið á heppilegri hátt.