16.02.1951
Efri deild: 73. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (3191)

109. mál, erfðalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er þá fyrst örstutt athugasemd út af ummælum hv. 1. þm. N-M. hér áðan. Hann sagði, að ég hefði verið á móti því, að fé ríkissjóðs væri sett í sérstakar skúffur, en hann blandar hér saman málum. Ég er á móti því að taka 1 millj. kr. til símamála og binda þannig hluta af tekjum ríkissjóðs í 10 ár, og sama máli gilti, þegar annar hv. þm. vildi láta verja 1 millj. kr. af fé ríkissjóðs í öðru skyni næstu 10 árin. Hér gegnir öðru máli, hér er aðeins verið að taka af ríkissjóði tekjustofn, sem óvist er, hve mikill verður, og verið að taka fé af útörfum til að byggja fyrir það hæli, og mun ég ekki ræða það atriði frekar.

Út af orðum hv. form. allshn. verð ég að harma afstöðu hans til þessa máls. Ég minnist þess ekki í nokkru máli síðan ég kom á þing, að þegar frsm. í máli hefur lýst sig fúsan til að taka málið aftur fyrir og reyna að ná samkomulagi um það, þá hafi form. n. staðið upp og lýst sig andvígan slíku. Ég get ekki séð, hvernig hægt er að sýna nokkru máli meiri óvináttu. Hv. form. n. leyfir sér að lýsa því yfir, að hann sé fylgjandi því, að meginkjarni frv. komist fram, en er samt fullur úlfúðar og fjandskapar við málið.