19.02.1951
Efri deild: 74. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (3203)

109. mál, erfðalög

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Ég er sammála hv. þm. Barð. um það, að sú dagskrártill., sem hér hefur verið lögð fram, er í raun og veru engin afgreiðsla á þessu frv., eins og till. er orðuð nú. Ég er hins vegar sammála hv. 1. þm. Eyf. um það, að dagskrártill. er vel hugsanleg í þessu máli, en ekki með þeim orðum, sem hann hefur valið. Því verður ekki neitað, að eftir breyt. á frv. við 2. umr. er ekki um breyt. á erfðal. að ræða, heldur um ráðstöfun fjár, sem áður hefur runnið til ríkissjóðs, og hvernig eigi að verja því, eins og frv. segir, en að því er á engan hátt víkið í dagskrártill. hv. 1. þm. Eyf., en þetta er meginatriði málsins. Auk þess vil ég benda hv. þm. á, að frv. það, sem hv. þm. S-Þ. flutti á þessu þingi um stofnun öryrkjahælis, sem sveitarfélög landsins áttu að standa að, var þannig hugsað samkv. grg. og ræðu hv. flm., að það var fyrst og fremst hugsað fyrir ákveðna tegund öryrkja, sem sé ofdrykkjumenn, vandræðafólk og vangefið fólk, en ekki fyrir fólk almennt með skerta vinnugetu, eins og þetta frv. miðar við eða eins og vinnuhæli Sambands ísl. berklasjúklinga. Þetta hæli er ætlað fyrir öryrkja, en ekki fyrir menn með siðferðisbresti eða gáfnaskort. Dagskrártill. hv. 1. þm. Eyf. víkur ekki að því, til hvers hér sé ætlað, og er stjórnin því á sama vegi stödd. Ég gæti hugsað mér að fallast á till., ef stofna á hæli fyrir öryrkja og menn með skerta starfsgetu. Ég vænti þess, að hæstv. forseti geti fallizt á þetta.