26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (3249)

96. mál, fjárhagsráð

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég sé mér ekki annað fært en að styðja þá málaleitun, sem hv. 1. landsk. ber fram við hæstv. forseta varðandi 7. dagskrármálið, úr því sem komið er. Það er að vísu svo, að það hefur verið mælzt til þess fyrir nokkuð löngu af hæstv. ríkisstj., að þetta mál yrði ekki afgr. — það eru liðnar 2 vikur síðan, og það var ákveðinn tími, sem til var tekinn, og ég sé ekki, að við séum að eilífu bundnir við þá ósk, heyrandi ekkert og sjáandi ekkert, hvað ríkisstj. hyggst fyrir í þessu máli.

Þess vegna vil ég styðja málaleitun hv. þm. og benda á það, að hér er nú ekki lengra komið en það, að málið er til frh. 2. umr., og er þá ekki svo sem það sé krafa að gera það að lögum í dag, og er því óhætt að láta það halda áfram til 3. umr. og prófa þann vilja, sem fyrir er í d., og hvort hún er sama sinnis til að greiða fyrir þessum byggingum og hv. Nd. var. Ég held, að það sé óverjandi, að ekki sé sýnt fram á, hver vilji þessarar hv. d. er í þessu máli.