26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (3252)

96. mál, fjárhagsráð

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af ræðu hv. þm. S-Þ. Vildi ég gera grein fyrir, að ég er andvígur fyrri brtt. á þskj. 525 og svo er einnig um meiri hl. fjhn. Hvað snertir seinni brtt., um að þyngja refsiákvæði og að brot geti jafnvel varðað fangelsi, þá tel ég hana orka tvímælis. Það kemur til greina, hvaða skoðun menn hafa á fjárhagsráði. Hv. þm. S-Þ. sagði, að þrátt fyrir allt hefði fjárhagsráð gert gagn. Ég er þeirrar skoðunar, að það hafi valdið ómetanlegu tjóni. Samkvæmt lögum er aðalverkefni fjárhagsráðs að vinna að því, að næg atvinna sé í landinu. Í reyndinni hefur starf þess gengið markvisst í þá átt að skipuleggja atvinnuleysi. En aðalatriðið er, að brtt. eins og þessi mun áreiðanlega koma í veg fyrir, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og er ég því á móti öllum brtt. Ég lít svo á, að þegar komið er með brtt. svona seinustu daga þingsins, sé ekki hægt að skilja það öðruvísi en sem beina tilraun til að koma málinu fyrir kattarnef.

Eftir þessari brtt. á að takmarka þessa heimild við þá, sem enga íbúð eiga eftir vottorði skattanefndar eða þá ónothæfa íbúð að dómi læknis. Ég er þessu andvígur. Ég hef hér bréf frá borgarstjóra, sem ég hygg að allir þm. hafi fengið, og ætla ég að lesa það, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar þannig:

„Á fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur í gær var svo hljóðandi ályktun samþykkt: Bæjarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi að létta af hvers konar hömlum á byggingu hóflegra íbúða, og skorar bæjarstjórn sérstaklega á þingmenn Reykjavíkur að fylgja þessu máli fast eftir.

Gunnar Thoroddsen.“

Þetta bréf er dagsett 16. febr. — Sem fulltrúi Reykvíkinga er ég sammála um, að það beri að stuðla að því eftir mætti, að hvers konar hömlur á byggingarefni verði afnumdar. Ef takmarka ætti þessa rýmkun eftir því, sem flm. brtt. á þskj. 525 vilja, er ég hræddur um, að hún verði gagnslítil. T. d. geta bæjarfélögin þá ekki byggt slíkar íbúðir, aðeins einstaklingar. Ég álít það ekki óhóf, þótt hverjum sem er sé leyft að byggja hagkvæmar smáíbúðir. Er ég hræddur um, að þá kæmi til önnur takmörkun, þ. e. getan til að byggja. Af þessum ástæðum legg ég eindregið á móti brtt. efnislega, og í öðru lagi vegna þess, að hún kæmi í veg fyrir, að frv. næði fram að ganga, og hlýtur að skoðast sem tilraun til, að það nái ekki fram að ganga.