05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (3257)

96. mál, fjárhagsráð

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Það var viðvíkjandi brtt., sem var flutt á þskj. 525, nr. 2, að ég ætla að segja nokkur orð. Ég hef heyrt, að hv. 1. landsk. þm. hafi mælt gegn brtt. af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að hann áleit — ég held hann hafi sagt, að fjárhagsráð væri ógagnlegt. Ég vil gera grein fyrir, hver ætlunin er með þessari brtt. Þannig er, að þegar samþ. voru lög um verðlag, voru hliðstæð ákvæði um refsingu sett í þau lög. Eftir stendur í fjárhagsráðslögum kafli um gjaldeyriseftirlit, en gjaldeyrisbrot og verðlagsbrot eru svo hliðstæð, að erfitt er að hugsa sér, að um það gildi ekki sömu ákvæði. Mætti telja eðlilegt, að hv. deild liti einnig svo á um þann kafla, sem er í fjárhagsráðslögunum. Þetta er aðallega framkvæmdaratriði í sambandi við réttvísina, sem orðin er með þessum refsiákvæðum, sem eftir eru, þannig samkvæmt stjórnarskrá, að ekki er hægt að beita gæzlu- eða stofufangelsi. Þetta hefur torveldað rannsókn gjaldeyrismála, því að menn hafa komið málum sínum þannig fyrir, að ekki hefur verið hægt að hafa hendur í hári þeirra. — Vænti ég þess, að deildin skilji, hver ætlunin er með þessari till., og reki málið á þann veg, sem kemur fram í till.