05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (3258)

96. mál, fjárhagsráð

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Eins og ég gat um hér fyrr í framsöguræðu, hafði fjhn. komið sér saman um, að frv. yrði samþ., en einstakir nm. áskildu sér rétt til að bera fram brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Síðan kom brtt. á þskj. 525 frá tveimur þm. úr fjhn., og er till. í tveimur liðum. Hefur 1. flm. mælt með þessari brtt. Meðal annars segir, að fyrri hluti 5. gr. orðist svo:

„Til húsbygginga og annarra mannvirkja þarf leyfi fjárhagsráðs. Þó skal þeim einstaklingum, sem enga íbúð eiga samkv. vottorði skattanefndar eða ónothæfa íbúð að dómi læknis, heimilt að byggja hagkvæmar smáíbúðir til eigin nota án fjárfestingarleyfis.“

Ef þessi till. er samþ., þá er miðað við þá eingöngu, sem enga íbúð eiga. Þá fá t. d. allir bændur, sem búa á leigujörð, að byggja, en þeir, sem eiga jarðirnar, fá engin leyfi. (PZ: Ef íbúðin er ónothæf.) Ég tel þetta til hins lakara. — Þess utan er í 2. gr. breyting á viðurlögum. Ef þessi grein er samþ. í sambandi við þessi lög, þykir ekki nema sjálfsagt að þyngja viðurlög vegna brota á lögum, sem nú er verið að breyta. Það er talandi tákn, að því óvinsælli sem lögin eru, því þyngri eru refsingarnar við brotum á þeim. Fyrst eru lögin sett þannig, að þau vekja andúð, og síðan eru viðurlög þyngd, ef einhver reynir að komast undan þessum lögum.

Ég mun ekki geta fylgt þessari brtt. Vil ég leyfa mér að benda á, hvernig 5. gr. fjárhagsráðslaganna frá 1947 er. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til hvers konar fjárfestingar einstaklinga, félaga og opinberra aðila, hvort sem er til stofnunar nýs atvinnurekstrar, til aukningar á þeim, sem fyrir er, húsbygginga eða annarra mannvirkja, þarf leyfi fjárhagsráðs, og gildir þetta einnig um framhald þeirra framkvæmda, sem þegar eru hafnar. Þó skal ákveðið í reglugerð, að tilteknar minni háttar framkvæmdir séu heimilar án fjárfestingarleyfis.

Nánari ákvæði um fjárfestingarleyfi séu sett í reglugerð.“

Var hugsað þannig, þegar þessi lög voru sett, að þau væru framkvæmd þannig, að hægt væri að byggja minni háttar íbúðir og verbúðir og ráðast í aðrar minni háttar framkvæmdir án fjárfestingarleyfis. Er þessi till., sem fram er komin, aðeins borin fram sem mótmæli við framkvæmd 5. gr. laganna, og kemur skýrt fram, að gengið er lengra en hugsað var í upphafi með 5. gr. Með því að ríkisstj. hefur talið, að það stríði á móti fjárfestingarframkvæmdum á þessu ári, ef frv. verður samþ. eins og það er nú — og engu síður þótt tekin verði í það till. á þskj. 525, þá virðist heppilegt að framkvæma 5. gr. á þann hátt, sem lögin herma, og láta ríkisstj. hafa um þetta frjálsar hendur.

Ég hef leitað samkomulags og fengið samþykki meiri hl. fjhn. um, að borin væri upp svo hljóðandi till. til rökst. dagskrár, með leyfi forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um, að leyfi til fjárfestingar til bygginga almennt verði rýmkað eftir því sem þörf er á og tiltækilegt þykir og að framkvæmd 5. gr. laga nr. 70 5. júní 1947 verði nú þegar með þeim hætti, að leyfðar verði hindrunarlaust byggingar hagkvæmra smáíbúða og aðrar minni háttar byggingar, svo sem útihús í sveitum, verbúðir o. fl., tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi till. er borin fram í trausti þess, að ríkisstj. láti framkvæma 5. gr. laganna eins og til var ætlazt í upphafi og láti rýmka fjárfestingarleyfin til bygginga í landinu, eftir því sem afkoman í sambandi við gjaldeyrismálin batnar og fjárfestingin þolir. Það er vitað, að á þessu ári er mjög mikil fjárfesting til virkjunar Sogsins og Laxár. Hefur verið um það rætt, að þeir aðilar, sem njóta góðs af þessari fjárfestingu, verði að skilja, að önnur mál þeirra verða að víkja á meðan og fjárfesting til annarra aðila verður að ganga fyrir, þar til séð verður nánar, hvernig hægt verður að veita meiri fjárfestingu en nú er gert. — Í trausti þess, að þessi grein verði ekki numin úr gildi, leyfi ég mér að afhenda forseta þessa rökstuddu dagskrá.