23.11.1950
Neðri deild: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (3284)

103. mál, Áfengis- og tóbakseinkasala ríkisins

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Mig furðar á því, að hv. 3. landsk. þm. skuli koma fram með málaleitun eins og þessa, en kannske er það í pólitískri stefnu þessa hv. þm., að fyrirtæki, sem ríkið á, megi ekki kaupa vörur fyrir milligöngu íslenzkra kaupsýslumanna.

Ég get frætt hv. þm. á því, að það er fjöldi af erlendum firmum og það þau langstærstu, sem selja sína vöru engu ódýrara, þótt hún sé ekki keypt gegnum umboðsmann, og engu dýrara, þótt keypt sé gegnum umboðsmann. Einkasölur eiga að kaupa vörurnar þar, sem þær fást ódýrastar, hvort sem erlendir eða innlendir aðilar bjóða þær fram. Þessi ummæli hv. 3. landsk. þm. eru aðeins til þess ætluð að bægja íslenzkum kaupsýslumönnum frá því að verzla við þau fyrirtæki, sem ríkið rekur.

Ég vil í þessu sambandi benda hv. þm. á, að þegar sett var á stofn ríkiseinkasala á áfengi í Noregi, var það sett inn í l., að erlend firmu hefðu heimtingu á að mega hafa innlenda umboðsmenn í landinu, og það hefur ekki borið á því, að norska áfengisverzlunin hafi keypt vörur sínar með óhagstæðu verði. Það væri þess vegna fráleitt að setja ákvæði um það í l. um Áfengis- og tóbakseinkasölu ríkisins, að hún megi ekki verzla við íslenzka kaupsýslumenn, þótt þeir gætu boðið vörur við hagstæðara verði en einkasalan gæti fengið öðruvísi.