23.11.1950
Neðri deild: 26. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (3287)

103. mál, Áfengis- og tóbakseinkasala ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það var ekki ætlun mín að leggja til, að íslenzkum kaupsýslumönnum væri bægt frá að eiga viðskipti við þau fyrirtæki, sem ríkið rekur. Mér er mætavel kunnugt um alþjóðaverzlunarreglur og hvaða venjur erlend verzlunarfyrirtæki, sem verzla með þessar vörur, hafa í þessum efnum. Mér finnst hins vegar eðlilegt, að ríkisfyrirtæki, sem annast innflutning á þessum vörum, hafi sjálft umboð fyrir þær. Hér er um að ræða innkaup á vörum, sem svo geysilega fjölhreytt vöruframboð er á, að vandalítið ætti að vera fyrir ríkisstofnun að afia sér hagkvæmra umboða fyrir þær vörur, sem hún verzlar með. Ef íslenzkir umboðsmenn leggja hins vegar fram vörutilboð við jafnhagstæðu verði og einkasalan getur útvegað, þá er sjálfsagt að taka tilboð þeirra til athugunar og bera saman við tilboð þau, sem stofnunin hefur aflað sér. Og ef íslenzkir umboðsmenn inna af hendi þá þjónustu, sem venja er, að slíkir menn inni af hendi, og m. a. er fólgin í að auglýsa vöruna, svara fyrirspurnum um hana og hafa fyrirliggjandi sýnishorn, þá er sjálfsagt, að þeir fái greidda þóknun fyrir hana af hinum erlendu seljendum. En varðandi einkasöluvörur getur ekki verið um mikla slíka þjónustu að ræða. Hér er t. d. bannað að auglýsa áfengi, svo að hérlendir umboðsmenn fyrir erlendar áfengissölur geta ekki innt af hendi neina þjónustu fyrir þær, sem þeir eigi rétt á verulegri þóknun fyrir. — Öðru máli gegnir um tóbak, því að það má auglýsa, og þarf að taka það mál til sérstakrar athugunar.