26.02.1951
Sameinað þing: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það vakti nokkra undrun, að Alþfl. hefur leyst út tvo af gæðingum sínum, sem svo lengi hafa staðið bundnir inni, þá hv. 3. landsk. þm., Gylfa Þ. Gíslason, og hv. 6. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson. Þeim hefur nú verið lofað að viðra sig. Þeir höfðu nú nokkuð um sig eins og gengur við slík tækifæri. Þetta verður nú víst ekki misskilið af neinum. Og þegar þarf, verða þessir gæðingar handsamaðir á ný og bundnir á stallinn sinn, og þar verða þeir að dúsa, verður varla hleypt í vatn, þangað til óhætt er að láta þá viðra sig á ný, og svona gengur þetta í Alþfl.

Það væri ástæða til að minnast á nokkur atriði í ræðum þeirra hv. Alþfl.-manna, sem hér hafa talað, en tími minn mun nú ekki leyfa það að sinni. Þó get ég ekki látið hjá líða að svara tveimur eða þremur atriðum í ræðum þeirra, þar sem tíminn mun leyfa það.

Hv. þm. Hannibal Valdimarsson minntist á ummæli Framsfl. í húsnæðismálunum fyrir kosningar og aðgerðir þeirra eftir þær. Það var gott, að hv. þm. minntist einmitt á þetta mál. Það gefur sannarlega tilefni til að bera saman aðgerðir Framsfl. í þessum málum og aðgerðaleysi Alþfl. í þeim. Það voru framsóknarmenn, sem með þátttöku sinni í ríkisstj. komu því til leiðar, að 7 millj. af þeim gjaldeyrishagnaði, sem varð við gengisbreytinguna, var varið til byggingarsjóðs verkamannabústaða og til bæjarbygginga. Þetta var gert eftir að framsóknarmenn komu í ríkisstj. En meðan Alþfl. var í stjórn og fór með þessi mál, þá var þessum málum svo stjórnað, að þessir byggingarsjóðir voru algerlega þrotnir og ekkert var hægt að byggja. Þetta voru framkvæmdir Alþfl. í þessum málum. Þeir bókstaflega gengu af þessum byggingarsjóðum alþýðunnar dauðum. Svo koma þessir menn hér og þykjast hafa einhvern óskapa áhuga á því, að það sé byggt yfir alþýðu manna. Jú, þeir sýndu áhugann meðan þeir sátu í ríkisstj.

Þá minntist hv. þm. á verzlunarmálin og það, hvernig Framsfl. hefði gengið á bak orða sinna og væri nú að skapa tækifæri fyrir einstaka menn til að safna óhæfilegum verzlunargróða. Jú, Framsfl. þorir vel að bera saman afskipti sín af þeim málum, þar sem menn eiga þó að geta keypt vöruna á frjálsum markaði, við pólitík hinna tómu búða, sem Alþfl. beitti sér fyrir meðan hann sat í ríkisstj. og beitir sér enn fyrir.

Þá minntist hann á gróða heildsalanna. Hvað gerði Alþfl. til þess að koma í veg fyrir hann? Jú, hann gerði bókstaflega ekki neitt. Þeir sátu saman í ríkisstj., og það var Framsfl., sem sleit því stjórnarsamstarfi til þess að reyna að koma í veg fyrir þennan gróða, en það var Alþfl., sem vildi halda honum áfram. Þá þótti Alþfl. gott að vera í stjórn með þessum sömu heildsölum og vildi ekki úr þeirri stjórn fara.

Það væri ástæða til að minnast á margt fleira í ræðum þessara hv. þm., en tími minn leyfir það ekki.

Framsfl. þorir að mæta Alþfl. hvar sem er. Honum hefur tekizt með þessu stjórnarsamstarfi að koma á heilbrigðari fjármálapólitík en áður var. Honum hefur tekizt að koma því til leiðar, að nú geta menn fljótlega fengið keyptar lífsnauðsynjar sínar á frjálsum markaði. En meðan Alþfl. var í ríkisstj. gerði hann bókstaflega ekki neitt, og síðan hann komst í stjórnarandstöðu, hleypur hann í kapp um ábyrgðarleysi við þann flokk, sem er svo ábyrgðarlaus, að allir telja hann óhæfan til samstarfs.

Langtímum saman hafa Íslendingar búið við hið mesta öngþveiti í fjárhags- og viðskiptamálum. Menn hafa fengið að kynnast vöruskorti og svartamarkaðinum, sem honum fylgir sem skugginn. Menn hafa orðið að þola stórkostlegt misrétti í dreifingu nauðsynjavara, sem gengið hefur furðu langt á undanförnum árum og bakað mönnum margvíslegt tjón. Sífelldar kauphækkanir, ýmist útmældar eftir vísitölu framfærslukostnaðar eða knúðar fram með framleiðslustöðvunum, hafa að minnsta kosti upp á síðkastið ekki megnað að bæta kjör launþega, þar sem þjóðartekjurnar hafa farið minnkandi. Við slíkar aðstæður er álíka líklegt, að almennar kauphækkanir bæti kjör manna og að takast mætti að auka næringarefni mjólkur með því að hella í hana vatni. Framleiðslan hefur verið ofhlaðin byrðum. Afleiðing þess hefur orðið minnkandi framleiðsla. Á hinn bóginn er eina raunhæfa leiðin út úr erfiðleikunum sú, að unna framleiðslunni góðrar afkomu, til þess að hún verði aðlaðandi starf og aukist í sem flestum greinum. Er það örlagadómur yfir Íslendingum kveðinn, að þeir skuli þess engan kost eiga að rífa sig upp úr feninu? Auðvitað ekki. Þetta er landsmönnum alveg í sjálfsvald sett. Þegar þar við bætist, að enginn hagnast á því í raun og veru að viðhalda vandræðaástandinu, en allir tapa sameiginlega vegna minni framleiðslu og þjóðartekna en ella, þá ætti ekki að skorta áhuga fyrir því að grafa fyrir rætur meinsins.

Hverjar eru þá rætur meinsins? Rætur meinsins eru þær, að sífellt er í umferð meðal landsmanna meira peningamagn en hægt er að mæta með þeim vörum, sem þjóðin getur keypt fyrir framleiðslu sína og fyrir það fé, sem hún hefur fengið af gjafaframlögum á undanförnum árum. Það eru í raun réttri sífellt gefnar út ávísanir á meiri verðmæti en fyrir hendi eru til skiptanna, gefnar út falskar ávísanir, sem enga raunverulega kaupgetu skapa, sem engum verður gagn að, en viðheldur dýrtíð og verðbólgu, vöruskorti, svörtum markaði og hvers konar misrétti, háum framleiðslukostnaði og framleiðslustöðvunum vegna misheppnaðra tilrauna til þess að flýja undan hækkuðum framfærslukostnaði. Þessar fölsku ávísanir, falska kaupgeta, verður því ekki neinum að gagni né til kjarabóta, en hún verður til þess að draga úr framleiðslunni og rýra lífskjör almennings.

Menn eru fyrir löngu orðnir dauðþreyttir á þessu ástandi og öllu því fargani banna og þýðingarlítils eftirlits, sem af því hefur leitt. Á hinn bóginn er alveg vonlaust, að komið verði á nauðsynlegum endurbótum í þessum efnum, nema menn almennt, þorri manna, geri sér ljóst, af hverju þetta öngþveiti stafar, þorri manna gerist reiðubúinn til þess að vinna að því að skera fyrir rætur meinsins og taka á sig þau óþægindi, sem því kunna að vera samfara í bili.

Undanfarið hefur margt orðið til þess að koma málefnum landsmanna í óvænt efni: mikill halli á ríkisbúskapnum, óeðlileg útlánaþensla bankanna, of ör fjárfesting og óheppileg og röng stefna í launa- og kaupgjaldsmálum, þar sem almennar kauphækkanir hafa verið framkvæmdar, án þess að þær hafi verið teknar af gróða á atvinnurekstri eða byggzt á framleiðsluaukningu. Menn verða að gera sér það ljóst, að út úr þessum ógöngum er ekki til nema ein leið. Sú, að koma á auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem beztu samræmi á milli þess peningamagns, sem í umferð er, og framleiðsluverðmætisins og á hverjum tíma leggja þannig grundvöll að aukningu framleiðslunnar á öllum sviðum og bættum lífskjörum almennings, sem þá er hægt að ná með kauphækkunum, sem byggjast á hinni auknu framleiðslu. Fyrir síðustu alþingiskosningar lagði Framsfl. höfuðáherzlu á þetta sjónarmið. Þátttaka Framsfl. í núverandi stjórnarsamstarfi er ekki sízt miðuð við að vinna að framgangi þessarar stefnu.

Fyrsta skrefið, sem stigið hefur verið til aukins jafnvægis og aukinnar framleiðslu, var gengislækkunin. Án hennar var engin viðreisn hugsanleg, eins og komið var, þar sem þjóðinni var að blæða út fjárhagslega vegna ósamræmis, sem orðið var á milli verðlags hér og annars staðar og á milli framleiðslukostnaðar og afurðaverðs. Eina úrræðið, sem gat komið til greina í staðinn fyrir gengislækkun, var allsherjarniðurfærsla eða öllu heldur niðurskurður, en allir, sem það mál athuguðu ofan í kjölinn, töldu hana enn erfiðari í framkvæmd en gengislækkun og raunar óframkvæmanlega. — Næsta skrefið var að gera ráðstafanir til að rétta við hallann á ríkisbúskapnum. Fjárl. fyrir árið 1950 voru afgreidd með það fyrir augum, að því takmarki gæti orðið náð þegar á árinu 1950.

Þjóðin varð fyrir óvæntum áföllum á síðastliðnu ári, og þau hafa einnig sett sitt mark á rekstur ríkisins á þann veg, að einn höfuðtekjustofn ríkissjóðs brást verulega. Voru menn um hríð uggandi um, að þetta yrði til þess, að settu marki í þessu efni yrði ekki náð á þessu fyrsta starfsári ríkisstj. Betur hefur þó rætzt úr en á horfðist um tíma. Gjaldahlið fjárl. reyndist yfirleitt hafa verið varlega samin, og samtök tókust góð í ríkisstj. og meðal starfsmanna um framkvæmd þeirra. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri um afkomu ríkisins, sem flutt hefur verið á Alþ., reyndust tekjur á rekstrarreikningi um 297 millj., en voru áætlaðar 298 millj., og gjöld reyndust 263 millj., en voru áætluð 262 millj. Rekstrarafgangur reyndist 34 millj., en var áætlaður 36 millj. Niðurstaða inn- og útborgana á sjóðsreikningi var þannig, að greiðslujöfnuður náðist á árinu og skuldir þær, sem ríkissjóður stendur sjálfur straum af, lækkuðu um tæpar 13 millj. kr. Umframgreiðslur urðu litlar, og nokkrir fjárlagaliðir reyndust það varlega áætlaðir, að afgangur á þeim mætti þeim umframgreiðslum, sem urðu annars staðar. Þannig stóðust fjárl., þótt tekjur ríkissjóðs næðu tæplega áætlun.

Fjárlögin fyrir árið 1951 voru afgreidd nú á þessu þingi, og er það von þeirra, sem að afgreiðslunni stóðu, að greiðslujöfnuður náist einnig á þessu ári, enda er slíkt höfuðnauðsyn og frumskilyrði þess, að aðrar fjármálaráðstafanir sem unnið er að, komi að gagni. Vænta menn, að tekjur séu svo varlega áætlaðar, að eigi bregðist, og ætlunin er að kappkosta, að útgjöld fari sem minnst fram úr áætlun. Ætlunin var sú að ná fullum greiðslujöfnuði án þess að leggja á nokkra tolla eða skatta til viðbótar þeim, sem fyrir voru, en sökum þess, hve viðskipti höfðu dregizt saman á árinu 1950 og reynslan þá bágborin um tollatekjurnar (verðtollinn), þótti ekki annað fært en að samþykkja á þessu þingi 9 millj. kr. tekjuauka til handa ríkissjóði, um leið og ákveðið var að greiða opinberum starfsmönnum launauppbætur á næsta ári miðað við vísitölu 123 stig. Þessi tekjuauki er þó ekki nema um 3% hækkun á tekjum ríkissjóðs, og þrátt fyrir hann eru tekjur ríkissjóðs á þessu ári áætlaðar sem næst hinar sömu og þær reyndust árið 1950. Þess ber að geta hér, að verðtollsviðaukinn var lækkaður í fyrra úr 65% í 45% og skattar lækkaðir á lágtekjum. Þegar á heildina er litið, hafa skattar til ríkissjóðs því ekki hækkað frá því að núv. ríkisstj. tók við. Greiðslujöfnuður hefur því náðst án nýrra skattahækkana, og kemur þar ýmislegt til. Ríkissjóður hefur losnað við stórfelldar greiðslur, sem áður hvíldu á honum, og er það vegna stefnu ríkisstj. í atvinnu- og fjárhagsmálum, gengisfellingarinnar og ráðstafana í sambandi við hana og í framhaldi af henni. Komið hefur verið í framkvæmd nokkrum sparnaði í rekstri ríkisins í kaupgjaldi og mannahaldi og með því að leggja niður taprekstur. Stjórnarflokkarnir hafa staðið fast saman um að bæta ekki nýjum útgjöldum á fjárl., nema í brýnustu nauðsyn, og þá ekki nema því aðeins, að sýnt þætti, að tekjur ríkissjóðs gætu staðið undir þeim. öflug samtök hafa verið mynduð um fjárlagaafgreiðsluna og framkvæmd fjárl.

Samhliða þessum framkvæmdum varðandi fjárhag ríkisins voru á síðastliðnu ári gerðar ráðstafanir til þess að draga nokkuð úr heildarfjárfestingunni og færa hana til samræmis við það, sem þjóðin leggur til hliðar, sparar, af tekjum sínum árlega, en við það verður hún að miðast, að viðbættu því erlenda fjármagni, sem inn í landið flyzt. Samhliða þessu hafa bankarnir tekið upp varlegri útlánastefnu en áður, og er það enn eitt frumskilyrði þess, að úr rætist vandræðaástandi viðskipta- og fjárhagslífs, að bankarnir myndi ekki verðbólgu með lánveitingum sínum.

Við Íslendingar höfum fengið mikið Marshallfé, og gerði ég grein fyrir því, hvernig þau mál stóðu, þegar fjárl. voru lögð fram í vetur. Svo sem vera ber, hefur mótvirði gjafafjárins verið lagt upp í Landsbankanum í mótvirðissjóð, og eru nú í þeim sjóði um 127 millj. kr.

Allar þessar ráðstafanir miða að sama marki: að koma á auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum, gera kleift að losa um höft í viðskiptum, gera mögulegan innflutning nauðsynjavara, bæta þannig lífskjör almennings með bættri verzlun og þeirri örvun og aukningu framleiðslunnar, sem áreiðanlega siglir í kjölfar umbótanna í fjárhags- og viðskiptamálum. Árangur þessara ráðstafana hefur verið að koma í ljós nú upp á síðkastið og þó seinna en ella mundi vegna margvíslegra óhappa á síðastliðnu ári. Gjaldeyrisástandið hefur farið batnandi og ríkisstj. setti nokkrar helztu nauðsynjavörur á frílista á síðastliðnu ári, og hafa þær verið fluttar inn eftir þörfum síðan. Rétt fyrir jólin sá ríkisstj. sér fært að bæta á frílistann nokkrum nauðsynlegustu vefnaðarvörutegundum, einmitt þeim tegundum, sem sárast hefur skort og bagalegast undanfarið, mönnum til sárrar gremju og stórtjóns. Munu vörur þessar nú fara að koma til landsins á næstunni, og er ætlunin, að þær verði á boðstólum eftir þörfum. Þetta eru fyrstu merki þess, sem koma skal og komið getur, ef mönnum auðnast að fara skynsamlega að ráði sínu og stilla sig um að gera ráðstafanir, sem koma á aftur því ástandi, sem hér hefur ríkt, þar sem vinnandi menn gátu ekki árum saman fengið föt til þess að klæðast við starfið né skó á fætur sér, né húsmæður þýðingarmestu flíkur handa sér og börnum sínum, svo að dæmi séu nefnd um það, sem þjóðin hefur lengi búið við.

Ég hef reynt að lýsa með örfáum orðum því, sem hefur verið að gerast í fjárhags- og viðskiptalífi landsmanna síðan núv. ríkisstj. tók við, og aðeins drepið á, hvernig ástatt var. En áður en ég vík að þeim þýðingarmiklu viðbótarráðstöfunum, sem ríkisstj. í fullu samráði við þingmeirihluta þann, sem hún styðst við, er nú að framkvæma í fjárhags- og viðskiptamálum, mun ég fara nokkrum orðum um vandamál bátaútvegsins, sem mjög blandast inn í þessi mál og hafa nú verið leyst í sambandi við þau.

Vandamál bátaútvegsins, segja stjórnarandstæðingar, eru þau nú til enn þá? Átti ekki gengislækkunin að leysa þau? Er það ekki vottur þess, að hún hafi mistekizt, að hún hafi ekki náð tilgangi sínum, að eitthvað er til enn þá, sem heitir vandamál bátaútvegsins? Stjórnarandstæðingum er að vísu ekki of gott að stunda slíka orðaleiki og glettingar, ef þeim er það til einhverrar fróunar. Á hinn bóginn sýnir vandamál bátaútvegsins, eins og það liggur fyrir nú, ekki það, að gengislækkun hafi verið áþörf eða hægt hafi verið að komast hjá henni, þótt einhverjum sé sennilega ætlað að draga þær ályktanir af þessu skrafi. Hitt er sönnu nær, að vandamál bátaútvegsins er nokkuð örðugt viðfangs núna, en hefði orðið óleysanlegt með öllu fyrir nokkru, ef gengisbreyting hefði ekki átt sér stað.

Hvert er svo vandamál bátaútvegsins? Fiskverðið hefur haldizt það sama innanlands og það var fyrir gengislækkunina þangað til nú, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa beitt sér fyrir nýjum úrræðum. Ástæðan er sú, að fiskverð erlendis hefur lækkað á þýðingarmestu tegundum á þýðingarmestu mörkuðunum. Þess vegna bjuggu útvegsmenn og fiskimenn við 75 aura verð á hausuðum og slægðum fiski, eða með öðrum orðum hið sama verð og fyrir gengislækkun, og höfðu þó áður haft þau hlunnindi, að vátryggingargjöld voru greidd úr ríkissjóði. Raunverulegt verð til bátanna var því 85 aurar fyrir gengislækkunina, en 75 aurar nú, áður en nokkrar nýjar ráðstafanir voru gerðar. Sumir halda kannske, að dregið sé fé til bátaútgerðarinnar ófyrirsynju, og er það eins og gengur og gerist, að ýmsir hyggja auð í annars garði. Það verða menn hins vegar að skilja, að óhugsandi er, að bátaútvegurinn geti starfað við lægra fiskverð en var fyrir gengislækkun, þegar þess er gætt, að allt kaupgjald hefur hækkað um 23% síðan genginu var breytt og allar aðkeyptar nauðsynjar til útgerðarinnar um 74% að minnsta kosti og þó flestar miklu meira, þar sem verðhækkun hefur yfirleitt orðið erlendis á nauðsynjum til útgerðarinnar, í sumum dæmum stórfelld. Hér varð því að finna viðbótarúrræði til þess að bátaútvegurinn, sú framleiðslugrein, sem mestan erlendan gjaldeyri dregur í þjóðarbúið, gæti starfað af fjöri. Er mönnum hollt að minnast þess, að lítils virði verður sá pappír, sem menn skammta sér í laun og aðra greiðslu, ef framleiðslan gengur ekki.

Hér voru góð ráð dýr. Gengislækkun vildu menn komast hjá, þar sem almennar ástæður gerðu hana ekki knýjandi nauðsyn, og ábyrgð á föstu fiskverði vildu menn umfram allt forðast. Það fyrirkomulag hefur vægast sagt ekki verið hollt þjóðinni. Ýmsum, sem að útgerð standa, gæti ef til vill í fljótu bragði sýnzt, að sú leið væri hentug og færði útveginum nokkurt öryggi. En sé betur að gáð og skoðuð reynslan, þá sést, að sú leið var útveginum hættuleg vegna þeirra áhrifa, sem hún hlaut að hafa á vöruvöndun, sölukeppni, framleiðsluval og ýmis önnur þýðingarmestu atriði framleiðslunnar. Hér var því í rauninni aðeins um tvennt að velja: Annars vegar var styrkjaleiðin — uppbótaleiðin, sem hefði þá verið í því fólgin að afla milljónatuga með nýjum tollum og verja því til að greiða uppbætur á útfluttan fisk, án þess þó að ábyrgð væri tekin á föstu verði. Hefði þá orðið að greiða tiltekna fjárhæð á hvert kg af fiski. Hins vegar var sú leið, sem ríkisstj., í samráði við þann þingmeirihluta, sem hún styðst við, hefur ákveðið að fara, þ. e. að veita bátaútveginum réttindi til þess að kaupa tilteknar vörur fyrir 50% þess gjaldeyris, sem skilað er til bankanna fyrir úfflutningsverðmæti bátaútvegsins, að frádregnum síldarafurðum og þorskalýsi. Það getur nú ekki orðið um það deilt, að aðra hvora þessa leið varð að fara, eða að minnsta kosti hefur í öllum þeim umræðum, sem um þetta mál hafa farið fram, ekki örlað á neinum öðrum uppástungum.

Það er stefna núv. ríkisstj. að komast hjá því að byggja undirstöðuatvinnurekstur landsmanna á styrkjum. Það er álit ríkisstj., að í lengstu lög beri að forðast þá skipun mála, að þeir, sem standa að sjálfri framleiðslunni og sækja verðmætin í djúp hafsins eða skaut jarðar, þurfi að sækja endurgjald þess, sem þeir framleiða, að verulegu leyti í sjóði þá, sem saman eru dregnir með skattgjaldi á borgarana. Slíkt fyrirkomulag er, þegar til lengdar lætur, líklegt til þess að rækta og rótfesta með þjóðinni misskilning, sem getur orðið henni dýrkeyptur, þann stórfellda misskilning, að þeir, sem leggja fram orku sína til þess að framleiða þau verðmæti, sem þjóðin byggir allt framfæri sitt á, séu styrkþegar á kosti hinna, sem hafa tekið að sér að sinna öðrum hlutverkum í þjóðfélaginu.

Eftir því sem þetta mál var krufið meira til mergjar í stjórnarflokkunum, varð sá ásetningur eindregnari að komast hjá því í lengstu lög að fara aftur inn á styrkja- eða uppbótaleiðina, en reyna heldur nýjar leiðir, gera ráðstafanir til þess, að bátaútvegurinn gæti fengið það, sem hann þarf fyrir framleiðslu sína eftir viðskiptaleiðum, veita bátaútveginum rétt til þess að ráðstafa hluta af andvirði þeirrar framleiðslu, sem hann aflar, til kauna á vissum vörutegundum, sem selja mætti frjálst og alveg óþvingað. Það fengi þannig að sýna sig, hvers virði hinum þjóðfélagsþegnunum væri í raun og veru sú framleiðsla, sem bátaflotinn færir á land.

Þá kom fleira til álita í þessu sambandi. Hvor leiðin var heppilegri fyrir alþýðu manna? Hvor aðferðin var líklegri til þess að hafa í för með sér minni verðhækkanir nauðsynja, minni hækkun á kostnaði við að framfleyta sér og sínum? Þótti þá sýnt, að sú leið, sem valin var, mundi einnig heppilegri frá þessu sjónarmiði. Til samanburðar má taka, að fyrir nokkrum árum var valin sú leið að leggja á almennan söluskatt til þess að greiða uppbætur á útfluttan fisk. Sá skattur var lagður á flestar brýnustu nauðsynjar ásamt öðrum vörum. Þá var Alþfl. þátttakandi í ríkisstjórn og átti sinn þátt í þeirri lausn og hafði síður en svo ágreining uppi. Það leikur ekki á tveim tungum, að slíkur söluskattur til uppbótagreiðslna hefði orðið mun þungbærari fyrir almenning en þær ráðstafanir, sem nú verða gerðar. Um þetta verður ekki deilt. Í þessu sambandi er réttast að athuga, hvaða vörur það eru, sem kaupa má fyrir hinn frjálsa gjaldeyri útvegsins. Þessar eru helztar:

I. Matvæli: Ávextir, nýir, þurrkaðir og niðursoðnir. Grænmeti nýtt, þurrkað og niðursoðið. Ávaxtasulta og saft. Sýróp og glykose. Krydd, ýmiss konar. Kornvörur í pökkum.

II. Vefnaðarvara og fatnaður: Tilbúinn ytri fatnaður. Vefnaður úr silki og gervisilki. Sokkar úr nylon, gervisilki o. þ. h. Hattar og húfur. Gólfteppi, dreglar og gólfmottur.

III. Byggingarvörur: Handlaugar, baðker o. þ. h. hreinlætistæki. Olíukyndingartæki. Saumur, skrúfur og boltar. Hurða- og gluggajárn, lásar, skrár, lamir. Gólfkork, vegg- og gólfflísar.

IV. Hreinlætisvörur. Sápur, alls konar. Þvottaduft og sápuspænir. Snyrtivörur, svo sem andlitsduft, smyrsl o. þ. h. Skó- og gólfáburður, fægilögur o. þ. h. vörur. Toiletpappír.

V. Rafmagnstæki: Ljósakrónur, stofulampar, vatnsþéttir lampar og vinnuljós. Alls konar rafmagnsheimilistæki, svo sem þvottavélar, ísskápar, hrærivélar, strauvélar, ryksugur, sem og önnur rafmagnsáhöld. Enn fremur rafmagnseldavélar og ofnar.

VI. Ýmsar vörur. Bifreiða- og flugvélavarahlutir, frostlögur. Reiðhjól og reiðhjólavarahlutir. Barnavagnar. Skrifstofu- og bókhaldsvélar. Vélar til tré- og járnsmiða. Blómlaukar, jólatré, hljóðfæri og músikvörur, úr, klukkur, silfur til smíða, ljósmyndavörur. Spil, peninga- og skjalaskápar.

Þetta eru þá helztu vörutegundirnar, sem um er að ræða og vitanlega hækka í verði vegna þessara ráðstafana. Auðvitað eru ýmsar nauðsynlegar vörur meðal þeirra, sem kaupa má fyrir bátagjaldeyri, en langflestar nauðsynjavörur eru fyrir utan þetta, eins og bezt sést á því, að innflutningur þessara vara er áætlaður 15% af heildarinnflutningi. Engum dylst, að fyrir alþýðu manna er þetta úrræði mun hagfelldara en t. d. álagning söluskatts til uppbótagreiðslna.

Í þessu sambandi er rétt að leggja á það ríka áherzlu, að meðal þeirra vara, sem leyft er að kaupa fyrir bátagjaldeyrinn, er talsvert af vörum, sem að undanförnu hefur verið of lítið af í landinu og því hafa verið seldar á svörtum markaði með háu verði. Þar, sem svo stendur á, verður ekki verðhækkun. Í mörgum dæmum mun það gerast, að gróði sá, sem áður féll svartamarkaðsbraskaranum í skaut, mun nú ganga til þess að hækka fiskverðið. Þannig notast þessi ólöglegi gróði, sem áður var, til þess, sem mest ríður á, að bæta hag framleiðslunnar og örva hana, og þannig er hægt að komast hjá því að tolla nauðsynjarnar vegna erfiðleika útgerðarinnar.

Þá er einnig kostur við þetta úrræði, að þessar vörur eru leystar úr kvótakerfinu og innflutningur þeirra raunverulega gefinn frjáls fyrir útgerðargjaldeyrinn. Er það mikil bót frá því, sem verið hefur, þar sem einstaklingar og jafnvel heil byggðarlög hafa orðið að vera án ýmissa þessara vörutegunda undanfarið, hvað sem í boði hefur verið, vegna þess misréttis, sem ríkt hefur um skiptingu innflutningsins. Niðurstaðan verður því sú, að þessi lausn verður heilbrigðari fyrir útgerðina og léttbærari fyrir almenning.

Það skal greinilega tekið fram, að rétturinn til hins frjálsa gjaldeyris til vörukaupanna er réttur framleiðandans. Enginn getur tekið þann rétt af honum. Hann selur hann með fiskinum í innanlandsviðskiptum, ef honum sýnist og þykir heppilegra, en heldur honum til beinna afnota fyrir sig, ef honum þykir það betur henta sér. Ríkisstj. hefur fengið yfirlýsingu frá verðlagsráði Landssambandsins og stjórn þess um það, að þessar ráðstafanir muni mynda innanlandsverðlag á fiskinum, sem viðunandi sé, og að fiskkaup frystihúsa t. d. séu þegar hafin á þeim grundvelli, sem verðlagsráðið telur fullnægjandi fyrir útgerðina. — Það liggur í þessu fyrirkomulagi, að valdið yfir viðskiptunum er þar, sem valdið er yfir gjaldeyrinum. Það er flutt yfir til framleiðandans með þessum ráðstöfunum.

Stjórnarandstæðingar telja það víst skyldu sína að gera þetta tortryggilegt. Hv. 3. og 6. landsk. þm. Alþfl. voru mjög fullir vandlætingar út af fyrirhuguðu svartamarkaðsbraski, eins og þeir orðuðu það, og háskalegri verðhækkun á varningi til almennings. Þessir þm. hafa ekki, svo að ég muni, haft hátt út af svörtum markaði fyrr en nú, þótt hann hafi blómstrað hér við vit þeirra lengi. Þessir hv. þm. ættu ekki að sofa verr en áður, þegar þeir nú vita, að framvegis mun ólöglegur gróði svartamarkaðsbraskara á þýðingarmiklum varningi verða að löglegum ávinningi til stuðnings einni þýðingarmestu atvinnugrein landsmanna. — Um verðhækkun á nauðsynjum og álag á almenning finnst mér nægja að vísa til þess, sem ég áðan sagði um þessa leið og söluskattinn — leið Alþfl., og biðja hv. þm. að endurskoða ummæli sín í ljósi þess. Munu þeir þá fljótt sannfærast um, að þeim hefur yfirsézt.

Kommúnistar hafa undanfarið alltaf kennt eitt úrræði til bjargar útveginum: gefa gjaldeyrinn frjálsan útvegsmönnum, svo að þeir geti verzlað. Jafnframt hafa þeir sagt: Þetta fæst ekki fyrir ofurvaldi heildsalanna. — En svo þurfti þetta að henda. Útvegsmenn fá hluta af gjaldeyrinum frjálsan. Ja, hver skollinn! Flest kemur nú fyrir. Sjaldan er ein báran stök. Hvernig átti nú að að fara? Þetta var lítið léttara áfall en þegar kommúnistar í stríðinu þurftu að snúast á móti þýzku nazistunum í miðju kafi. af því að þeir réðust á Rússa. En þeir, sem hafa hlaupið á milli herbúða í heimsstyrjöld, láta sig ekki muna um lítið. Og nú höfum við það. Frjáls gjaldeyrir til útvegsins, sem öllu átti að bjarga, meðan þeir héldu, að slíkt kæmi ekki til mála, er nú blátt áfram orðinn til tjóns fyrir útveginn og almenning og eingöngu til þess fallinn að sópa gróða til heildsalanna. Eru kommúnistar svo blindir, að þeir sjái ekki, hvers konar grínleikur afstaða þeirra í þessu máli er nú orðin? Enginn mun hafa orðið var við, að verzlunarstéttin hefði áhuga fyrir þessu fyrirkomulagi, sem nú er upp tekið um innflutningsrétt bátaútvegsins, og er það tæplega láandi.

Ég vék áðan að ráðstöfunum ríkisstj. og þingmeirihlutans í atvinnu-. fjárhags- og viðskiptamálum og áhrifum þeirra, meðal annars þeim, að gjaldeyrisástandið væri betra en áður, ríkisstj. hefði á s. l. ári byrjað að losa um verzlunarhöftin og meira framboð nauðsynja væri nú að verða í landinu. Ríkisstj. hefur ákveðið að gera í framhaldi af þessu nýjar ráðstafanir til þess að auka framboð nauðsynjavara til neyzlu og framleiðslu, annaðhvort með því að gefa út nýjan stóran frílista eða með öðrum ráðstöfunum, sem koma að sama gagni, þannig að kvótakerfið hverfi úr sögunni, að því leyti sem eftirspurninni eftir þessum vörum verði fullnægt og eðlilegar verzlunarbirgðir geti myndazt.

Tvennt er það, sem gerir þessar framkvæmdir mögulegar. Aukið peningalegt jafnvægi í landinu, sem er árangur þeirrar stefnu, sem ríkisstj. hefur framfylgt undanfarið og nokkuð hefur verið lýst hér að framan, efnahagssamvinna þjóðanna í greiðslubandalagi Evrópu og Marshallaðstoðin. Marshallaðstoðin er fyrst og fremst miðuð við, að þjóðirnar geti rétt við fjárhagslega og staðið á eigin fótum, og samvinnan í greiðslubandalagi Evrópu, sem er í raun og veru hluti af Marshallsamstarfinu, á að vera til þess, að hver þjóð styðji aðra til aukins verzlunarfrelsis og aukinna viðskipta innbyrðis. Án stuðnings frá þessu samstarfi væri ekki mögulegt fyrir okkur að gera þær ráðstafanir í verzlunarmálum, sem ákveðnar hafa verið. Ástæðan er sú, að þótt vel miði áfram til peningalegs jafnvægis, þá má gera ráð fyrir, að komi birgðir vara eftir vöruhungur, þá eigi sér stað nokkuð óvenjuleg vörukaup, og þarf þá að hafa aðgang að gjaldeyrisvarasjóði, til þess að mæta þeim. Ríkisstj. hefur unnið að því undanfarið að tryggja sér þetta, í samvinnu við forráðamenn Marshallaðstoðarinnar og greiðslubandalag Evrópu. Er þeim málum nú þannig komið, að Íslendingar fá aukið Marshallframlag frá því, sem áður var fyrirhugað, til stuðnings þessum nýju ráðstöfunum. Jafnframt höfum við fengið vilyrði fyrir nýju byrjunarframlagi, óafturkræfu framlagi frá greiðslubandalagi Evrópu, til stuðnings auknum innflutningi nauðsynja. Loks höfum við rétt til að notfæra yfirdráttarkvóta okkar hjá greiðslubandalagi Evrópu. En það er stefna stjórnarinnar að notfæra sér sem minnst þá leið, þótt til hennar gæti orðið gripið, ef stj. virðist það hyggilegt. Verðlag er yfirleitt hækkandi í heiminum, og því væri engin ástæða til þess að álíta það til tjóns, þótt nokkur yfirdráttarskuld myndaðist vegna nauðsynjainnkaupa, sem síðar yrði greidd með útflutningsvörum.

Nú er einstakt tækifæri til þess að ráða bót á ófremdarástandi því, sem verið hefur í verzlunarmálunum og allir eru orðnir dauðþreyttir á. Við eigum kost á framlögum annars staðar frá, beinum stuðningi, til þess að komast yfir byrjunarerfiðleikana. Það er ætlun ríkisstj., að aukinn innflutningur helztu nauðsynja fullnægi þörfum og eðlilegar birgðir þeirra myndist. Menn geta því gefið sér tóm til þess að athuga vel um innkaup sín. Eitt höfuðskilyrði þess, að vel takist, er einmitt það, að menn festi traust á því, sem verið er að gera, og hagi innkaupum sínum að öllu leyti eðlilega. Aukinn innflutningur nauðsynja mun leysa einstaklinga og raunar heil byggðarlög úr þeirri verzlunaránauð, sem menn hafa búið við undanfarið. Loks munu menn endurheimta langþráðan rétt sinn til þess að kaupa nauðsynjar sínar þar, sem þeir helzt kjósa. Svartamarkaðsbraski með þessar vörur verður komið fyrir kattarnef, og það er ekki hægt með neinu öðru móti. Misréttið, sem menn hafa átt við að búa undanfarið um vöruúthlutun, hverfur. Enginn þarf að knékrjúpa öðrum framar til þess að fá nauðsynjar sínar. Samkeppni myndast um vörugæði og vöruverð, en af því hafa menn haft lítið að segja undanfarið. Þessi samkeppni verður bezta verðlagseftirlitið. Verzlunarsamtök fólksins verða leyst úr fjötrunum, sem á þeim hafa legið undanfarið. Það mun reynast bezta tryggingin og eina tryggingin, sem nokkurs er virði, fyrir heilbrigðum viðskiptum og réttu verði. Þessi ráðstöfun mun í reyndinni verða sú drýgsta kjarabótaráðstöfun fyrir almenning, sem gerð hefur verið um langan tíma.

Jafnframt því, sem leggja ber réttmæta áherzlu á, hve stórfelldur ávinningur getur orðið fyrir almenning af framkvæmd þeirrar stefnu, sem nú hefur verið lýst, verður það aldrei nógsamlega brýnt fyrir mönnum, að því aðeins verður hægt að komast hjá því að lenda á nýjan leik í sams konar öngþveiti verðbólgu og vöruskorts, sem þjóðin hefur svo lengi reynt sér til mæðu og tjóns, að nógu margir hafi nú lært af reynslunni og gert sér grein fyrir því, hvers við þarf, til þess að hægt sé að komast hjá slíku. Í þessu sambandi er skylt að benda á, að þótt fullur greiðslujöfnuður náist á fjárl. ríkisins, þótt komizt verði hjá óeðlilegri lánaútþenslu bankanna, þótt fjárfestingunni verði stillt í hóf, þá mun það allt reynast ófullnægjandi til þess að forðast öngþveitið á ný, ef stefnan í kaupgjaldsmálum er ekki jafnframt miðuð við það að forðast verðbólgu og fjárhagslega upplausn og þær neyðarráðstafanir, sem því ástandi fylgir. Verði sú stefna ofan á í kaupgjaldsmálunum að loka augunum fyrir þessu og þeirri einföldu en þýðingarmiklu staðreynd, að launamenn geta aldrei haft annað en tjón af almennum kauphækkunum, sem ekki eru teknar af auknu framleiðsluverðmæti eða hagnaði á atvinnurekstri, þá leiðir það til þess, að þjóðin verður aftur knúin ofan í það fen, sem hún er að reyna að hefja sig upp úr, hversu skynsamlegar ráðstafanir sem gerðar eru að öðru leyti.

Það, sem Íslendingar þarfnast nú mest af öllu, er aukning framleiðslunnar á öllum sviðum, aukning þjóðarteknanna og aukning hinnar raunverulegu kaungetu, sem getur veitt þjóðinni aukna velmegun. Til þess að þjóðinni megi auðnast að sækja fram til bættra lífskjara, þurfa menn að sameinast um að gefa tóm til þess. að þær ráðstafanir, sem nú er verið að gera, fái að sýna, hvað þær megna. Það fái að koma í ljós hvort þær geta, ef ekki er grínið inn í og eyðilögð áhrif þeirra, orðið sá grundvöllur að viðreisn, sem formælendur þeirra telja öruggt að þær verði, ef þær fá að njóta sín í friði.

Þjóðartekjur Íslendinga hafa minnkað að undanförnu, og þess vegna hlaut nokkur lífskjararýrnun að eiga sér stað, annað var alveg óhugsandi. Fram hjá því var ekki hægt að komast og er ekki hægt að komast nema með aukinni framleiðslu. Höfuðmálið er að koma í veg fyrir atvinnuleysi og tryggja atvinnuna. Menn þurfa því að sameinast um að þola í bili nokkra lífskjaraskerðingu til þess að auka og efla framleiðsluna og forðast atvinnuleysi, undirbúa þannig nýja sókn fyrir bættum lífskjörum, og getur árangur orðið fyrr en margur hyggur, ef hyggilega er nú að farið. Uppbóta- og vísitöluþjóðfélag það, sem við undanfarið höfum lifað í, hefur áreiðanlega ekki orðið okkur góður skóli. Samt sem áður væri það óafsakanlegt, ef við ekki stæðumst þá prófraun, sem við nú göngum undir. Við höfum tækifæri til viðreisnar, sem kannske kemur ekki aftur á næstunni. Við höfum öll skilyrði til þess að koma eðlilegri skipan á viðskipta- og fjárhagsmálin, auka framleiðsluna og bæta þannig hag almennings, en þessu tækifæri glötum við, ef nú hefst feigðarganga vísitöluskrúfu og nýrrar verðbólgu. Ég neita að trúa því, að þetta tækifæri verði eyðilagt og allt að engu gert, sem búið er að gera, til þess að þjóðin gæti átt þennan kost. Hins vegar er það sýnt, að þessu tækifæri glatar þjóðin, ef stjórnarandstæðingar koma fram vilja sínum. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að svo verði.