31.10.1950
Efri deild: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (3300)

52. mál, fræðsla barna

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það er ekki stórbrotið mál, sem ég vildi bera í tal, en atriði, sem rætt hefur verið um og ég tel ekki einskis vert, en það er um það, í hvaða n. málið skuli fara. Þeir hæstv. menntmrh. og hv. þm. Barð. ræddu um, hvort málið skyldi heldur fara í fjhn. eða menntmn. Ég hygg, að menn verði að gera sér vel ljóst, í hvora n. málið eigi að fara. Þau menntamálafrv., sem snerta menninguna sjálfa, eiga að fara í menntmn.; til þess er hún skipuð, að hún sé dómhæf um þau efni og dómbær um, hvort málin stefni til þróunar og séu æskileg fyrir menninguna eða ekki. Þau mál, sem slíkt varðar, eiga heima í menntmn., en þetta er svo eindregið fjárhagsmálefni, að það á að sjálfsögðu heima í fjhn., því að annars kæmi fram grautarhugsun um málið í heild. Í l. sjálfum kemur fram, hve lengi eigi að kenna og hvaða fög og hvaða fögum eigi að sleppa og svo um kostnaðinn, þetta er vitanlega stórt atriði, en í upphafi fjárhagsatriði og er það einkum hér. En það, hvernig bezt sé að manna unglingana, og önnur slík mál, sem nátengd eru menningunni, þau eiga heima í menntmn., en þetta á að vera í fjhn.