05.12.1950
Efri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (3306)

52. mál, fræðsla barna

Frsm. (Finnbogi R. Valdimarsson) :

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 86, um breyt. á fræðslul., ásamt tveim öðrum málum, breyt. á l. um húsmæðrafræðslu (þskj. 87) og breyt. á l. um gagnfræðanám (þskj. 88). Í nál. á þskj. 249 er gerð grein fyrir áliti n. á þessu máli, en n. hefur fjallað um öll þessi mál samtímis, svo að það, sem ég hef að segja um þetta mál, á því við um hin tvö, sem væntanlega verða tekin til umr. siðar á fundinum.

Eftir að hafa fjallað um frv. og leitað upplýsinga hjá hæstv. menntmrh. og fræðslumálastjóra hefur n. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með breyt., sem kann að virðast nokkur, en ef borið er saman við frv. eins og hæstv. menntmrh. flutti það, verður að segja að þessi breyt. sé ekki veruleg.

Ég verð að játa, að mér var í fyrstu ekki ljóst, hver væri tilgangur hæstv. ráðh. og stjórnar með því að flytja þetta frv. Ef litið er á 13. gr. l. nr. 34 29. apríl 1946, er ljóst, að aðeins eitt nýtt ákvæði kemur inn í lögin, einni setningu skotið inn í 1. mgr. gr., sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisframlagið er bundið því skilyrði, að fé hafi verið veitt í fjárlögum til sérhvers skólahúss, áður en hafizt er handa um bygginguna.“ Nú virtist mér liggja nærri að halda, að óheimilt væri að hefjast handa um skólabyggingu, án þess að veitt væri til þess á fjárlögum, en mér virtist fráleitt að banna bæjar- og sveitarfélögum, sem vildu af eigin rammleik byggja skólahús, að gera það, þó að þau hefðu til þess eigið fé eða lánsfé. Ef þetta hefði verið tilgangur frv., hefði ég snúizt gegn því. En á fundi menntmn. lýsti hæstv. ráðherra því yfir, að ekki bæri að skilja frv. svo, og hefði hann ekki á móti breyt. frv. í þá átt, að þetta kæmi betur í ljós. Enn fremur lýsti hæstv. ráðh. því yfir, að hann væri ekki andvígur því, að fyrirkomulag um skiptingu fjár til skólabygginga héldist, og mundi ekki snúast gegn því, að Alþingi breytti frv. á þann veg. Nefndin taldi, að á það fyrirkomulag, sem verið hefur um skiptingu fjárins, hefði ekki verið ráðizt, jafnvel ekki hin síðari árin, þrátt fyrir það að mjög margar skólabyggingar hafa tafizt vegna seinkunar á fjárframlagi. Á meðan það fyrirkomulag, sem verið hefur um úthlutun fjárins, sætir ekki gagnrýni, getur n. ekki fallizt á að taka úthlutunarréttinn úr höndum þeirra aðila, fræðslumálastjórnar og fræðslumálastjóra, sem nú hafa hann, eins og nú er farið um framlög ríkisins, t. d. til vega og hafna. En ef það er nú svo, að nefndin vill ekki breyta fyrirkomulaginu á úthlutun fjárins, og enn fremur, að ekkert hafi komið fram, sem tryggi, að fé sé jafnan veitt, þá mætti spyrja, hvort breyt. á gildandi l. gerði nokkurt gagn. N. telur, að með breyt. séu hin almennu skilyrði samkv. 12. gr. einnig gerð skilyrði fyrir fjárframlagi samkv. 13. gr., og ætti það að koma í veg fyrir, að viðkomandi bæjar- og sveitarfélög geti gert kröfu um fjárframlag eins og nú er.

Hæstv. menntmrh. vék að því í framsöguræðu um þetta frv., að með því ætti að ráða bót á því óviðurkvæmilega ástandi, sem verið hefur í þessum málum undanfarin ár. Í áliti n. er það tekið fram, að það ástand sé mjög óviðunandi til lengdar, en það er, eins og hv. þdm. er kunnugt, fólgið í því, að á undanförnum árum hafa safnazt millj. kr. skuldir ríkisins við bæjar- og sveitarfélög, sem hafa ráðizt í skólabyggingar á undanförnum árum í trausti þess að fá ríkisframlag greitt, ef ekki meðan á byggingu stæði, þá innan skamms tíma. Nú eru margar skólabyggingar stöðvaðar eða verða að fara sér mjög hægt vegna stöðvunar á ríkisframlagi og geta legið undir skemmdum eða að féð komi ekki að fullum notum, en bæjar- og sveitarfélög standa undir þungum skuldum og vaxtabyrðum vegna stöðvunar á ríkisframlagi. Ég verð að játa, að breyt. geti ekki bætt úr því ófremdarástandi, sem ríkir í þessum málum, og úr því verði ekki bætt, nema ráðstafanir verði gerðar til þess, að þær skólabyggingar, sem eiga inni, fái greidd framlög sín eða ríkissjóður útvegi lán til þess að létta á skuldabyrðinni, því að þörfin fyrir þær skólabyggingar, sem þegar er byrjað á, hefur verið viðurkennd af fræðslumálastjórninni með því að leyfa byggingu þeirra. Fræðslumálastjóri lét n. í té upplýsingar um þær skólabyggingar, sem á einhvern hátt hafa átt kröfu á ríkisframlagi s. l. 8 ár, eða á árunum 1943–50. Á þeim sést, að í byggingu eru víðs vegar um landið um 70 skólabyggingar, byggingarkostnaður um 90 millj. og af því nemur framlag ríkissjóðs 56 millj. Áfallinn kostnaður við þessar byggingar er um 65 millj., en upp í framlag sitt hafði ríkissjóður greitt 31 millj. 1. júlí s. 1., og hefur því skuld ríkissjóðs þá numið um 10 millj. kr. Ef byggingu væri haldið áfram þetta og næsta ár með þeim hraða, sem óskað er, mundu bætast við um 11½ millj. kr. og greiðsluþörf ríkissjóðs miðað við árslok 1951 um 17 millj. kr., og þótt tekið sé með í reikninginn framlag ríkissjóðs samkv. fjárl., 3.4 millj., hefði skuldin samt aukizt í árslok 1951 og væri þá rúmar 13 millj. Af þessu er ljóst, að skilyrði þau, sem hér eru sett, geta tafið fyrir því, að ráðizt sé í nýjar skólabyggingar, en eru ekki lausn á því alvarlega vandamáli, sem hér liggur fyrir, og eins og ég gat um áðan er það samhljóða álit n., að það verði að finna lausn þess. Það er mjög alvarlegt, þegar fjölmargar skólabyggingar eru alveg stöðvaðar vegna þess, að ekki er hægt að halda þeim áfram. Langflestar þeirra eru þegar langt komnar; af um 40 eru 30 svo langt komnar, að við liggur, að megi nota þær. En hins vegar eru ýmsar byggingar, sem verið er að byrja á, og má þar til nefna skólabyggingu í Rvík og Keflavík, en núverandi skólahús þar er alveg óviðunandi; og fræðslumálastjóri hefur skýrt frá, að úti um land sé þörf á að byggja skóla, þar sem þeir eru á ýmsum stöðum alveg óviðunandi. Ákveðin ósk hefur komið fram um að koma upp skólahúsum og nauðsyn á þessum skólum er mjög mikil. En nefndin hefur ekki komið með neinar till. um, hvernig bæta eigi úr þessu, og ég játa, að slík till. ætti betur heima í sérstöku frv. en sem breyting á gildandi fræðslulögum. En það breytir ekki því, að einhverja slíka lausn verði að finna, og verður ekki neitað, að raddir hafa heyrzt um það, að skólar séu of margir og of dýrir og þingið hafi reist sér hurðarás um öxl í þessu efni. Enn fremur hafa heyrzt raddir um það, að breyta þurfi framlögum til bygginganna. Sú breyting, sem gerð var með fræðslulögunum frá 1946, jók framlag til skólabygginga í kaupstöðum. Í Rvík er það 20 millj., og þar af er framlag ríkissjóðs 10 millj. kr. Hins vegar munar mest um Laugarvatnsskólann í sveitunum, en það nemur 10 millj., og af því er framlag ríkissjóðs 7½ millj. kr. Telja sumir ýmsa skóla hérna í Rvík of dýra, og verð ég að segja, þótt mér hafi þótt ánægja að koma inn í þá og skoða glæsileik þeirra, að þar sem ríkissjóður treystir sér ekki til þess að leggja fram fé til nauðsynlegra skólabygginga úti um land, þá sé ekki goðgá, þótt sett verði hámark á byggingarkostnað þessara skóla. Nefndin hefur ekki lagt fram till. um þetta, en hún tetur þó, að ástæða sé til að setja slík hámarksákvæði fyrir ríkisframlaginu, auk þess sem bæjar- og sveitarfélögum sé bannað að gera skólabyggingar úr garði eins og þau vilja. En nú er nýbyrjað að reisa skóla hér í Rvík, og getur byggingarkostnaður þeirra orðið mjög hár.

Ég tel ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði og ætla ekki heldur að fara nánar út í brtt. á þskj. 249, en vil þó draga saman aftur það, sem n. telur nauðsyn á, þ. e., að fræðslumálastjórnin hafi samþ. uppdrætti að skólabyggingum, að sveitarfélögin eigi kröfu á ríkissjóð, ef fé hefur verið veitt á fjárlögum, áður en hafizt var handa um bygginguna, og að fræðslumálastjórnin hafi tekið skólann í sína áætlun í framlaginu til skólabygginga, þannig að öll sveitarfélög geri sér ljóst, að þau eiga ekki, ef þessi brtt. yrði samþ., lagalegan rétt á fjárframlagi, fyrr en fræðslumálastjórnin hefur gert áætlun um tekjur til skóla, en hins vegar verði þeim heimilt að hefja byggingarframkvæmdir, ef þau geta gert það upp á eigin spýtur.

Ég hef gert grein fyrir þeirri skoðun, sem kom fram í nefndinni og menntmrh. var kunnugt um, og þótt nefndin hafi ekki gert till. í þessu efni, vænti ég, að ég hafi ekki sagt of mikið um þann vilja nefndarmanna að beina til ríkisstj., að nefndin telji, að bót verði að gera á því ástandi í skólabyggingum, sem nú ríkir, en þetta frv. getur ekki bætt.