05.12.1950
Efri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (3307)

52. mál, fræðsla barna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég undrast afgreiðslu þessa máls í menntmn. Ef sá skilningur er réttur, sem ég legg í greinina og framsöguræðuna, er þetta frv. alveg fráleitt. Það er sýnilegt, að ef eitt sveitarfélag leggur í byggingu skólahúss á eigin spýtur, þá á það ekki rétt á að fá nokkurn styrk hjá ríkinu, jafnvel þótt það hafi lokið við bygginguna. Ég verð að segja það, að ég skil ekki, hvernig menntmn. treystir sér til að leggja til, að slíkt ákvæði sé samþykkt. Það er vitað, að stórkostlegar kvaðir liggja á ríkissjóði í sambandi við hálfbyggðar byggingar. Er þá rétt að setja ákvæði, sem útiloka, að bæjar- eða sveitarfélög geti byrjað að byggja? Telur frsm. það rétt? Hann lýsti yfir, að þetta væri gert til þess, að engin bæjar- eða sveitarfélög gætu byrjað að byggja. Ég er fullviss um það, að fyrsta svar frá þessum aðilum yrði að krefjast þess, að fræðslulöggjöfin yrði afnumin. Það er alveg útilokað, að þau sveitarfélög bíði með að byggja, þangað til allir aðrir eru búnir að því, þar sem varla er til nokkurt skólahús. Eiga þessir menn að kenna í fjárhúsum? Það er víst það, sem menntmn. vill í þessu efni.

Í brtt. frá nefndinni segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisframlagið er bundið því skilyrði, að fræðslumálastjórnin hafi samþykkt uppdrætti, áður en hafizt er handa um byggingu, að skólalóðin sé eign skólahverfisins, eða afnotarétturinn tryggður með óuppsegjanlegum leigusamningi, og að fé sé veitt til skólabygginga í fjárlögum, enda hafi fræðslumálastjórnin ákveðið framlag til viðkomandi skólabyggingar af því fé.“ En hvaða trygging er í því? Fræðslumálastjórnin getur haldið til baka svo sem henni sýnist, svo að viðkomandi aðili geti ekki byrjað. En er þetta ekki til að útiloka framkvæmdir? Vitanlega. Velviljaður fræðslumálastjóri getur veitt 5, 10, 20 kr., en óvinveittur getur haldið fénu og sagt: „Við veitum ekki neitt.“ Enda kom það skýrt fram hjá frsm., að allar skólabyggingar séu stöðvaðar, þangað til lokið hefur verið við þá skóla, sem byrjað hefur verið á.

Sannleikurinn er sá, að það Alþingi, sem viðheldur fræðslulögunum, verður að skaffa fé til skólabygginganna, og ef það er ekki hægt, þá verður Alþingi og menntmn. að endurskoða fræðslulögin, en beita ekki því steinbítstaki að leyfa ekki að byggja skóla. Frsm. sagði, að rætt hefði verið um það að minnka hluta ríkisins sem framlags til bygginganna. En af hverju stöðvaðist það? Vegna þess að það er ranglæti gegn þeim sveitarfélögum, sem ekki hafa byggt. Því verður að endurskoða fræðslulögin. Ef þessari grein verður breytt, koma kröfur frá bæjar- og sveitarfélögum um að afnema þessa löggjöf. Hvaða sanngirni væri í því að leyfa áframhaldandi byggingu eins og á Laugarvatni, en ákveða að banna að byggja barnaskóla að Reykhólum, á meðan verið er að byggja 9–10 millj. kr. skóla á Laugarvatni, og meira að segja veitti hæstv. fyrrv. menntmrh. féð. Þetta sýnir, að ekki má breyta lögunum í þessa átt. Eins og það hafi verið nokkurt vit í því að stöðva ekki byggingu Skógaskóla? Það þarf ekki að segja mér, að ráðherra geti ekki haft áhrif í þá átt, að skóli verði ekki byggður. Viðkomandi ráðherra hefur viljað, að þessi skóli væri byggður, enda hefur verið hrúgað upp héraðsskólum um allt land. Ég segi fyrir mig, að ég get ekki greitt atkv. með þessari till. Kæmi yfirlýsing frá frsm. um, að þetta sé ekki þannig, þá er það allt annað mál. En þá þarf ekki að samþ. þessa till., og ekkert annað verður þolað í framtíðinni en að þessir aðilar fái fulla endurgreiðslu. Þetta mál, sem hér er til umræðu, verður ekki útkljáð á einni kvöldstund, það er of stórt mál.

Ég mun greiða atkv. á móti till. og síðasta málslið í frv. Ég vil svo loks mælast til þess, að nefndin athugi þetta mál á ný, en ef hún ætlast ekki til, að það verði framkvæmt þannig, þá er bezt, að því verði breytt svo.