05.12.1950
Efri deild: 31. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (3313)

52. mál, fræðsla barna

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Mér skilst, að menntmn. og hv. þm. Barð. vilji í rauninni ná sama takmarki, en það er deilt um það, hvort menntmn. hafi tekizt með till. sinni að ná þessu takmarki, sem þessir aðilar stefna að. Hv. þm. Barð. er form. fjvn. og kunnugastur af okkur fjármálum ríkisins. En við höfum fyrir okkur grg. hæstv. ráðh. um þetta, og þar segir, að fræðslulögin frá 1946 muni víða hafa verið skilin svo, að ekki þyrfti að bíða þess, að í fjárl. væri veitt fé úr ríkissjóði til stofnkostnaðar skóla, enn fremur, að fræðslumálastjórnin hefði getað haft hemil á því, að ráðizt yrði of ört í skólabyggingar, en hafi ekki haft hann. Þetta segir í grg., en breyt., sem lögð er til af menntmrh., er fólgin í setningu í 1. gr., sem byrjar svo: „Ríkisframlagið er bundið því skilyrði, að fé hafi verið veitt í fjárlögum til sérhvers skólahúss.“ Þetta er breyt., sem lögð er til frá því, sem nú er. Á þessu hefur menntmn. gert þá breyt., að ríkisframlagið sé bundið því skilyrði, að fræðslumálastjórnin hafi samþykkt uppdrætti. Um þetta er engin deila. Svo kemur þarna: „og að fé sé veitt til skólabygginga í fjárlögum, enda hafi fræðslumálastjórnin ákveðið framlag til viðkomandi skólabyggingar af því fé.“ Þarna er spurningin um það, hvort verið er að bera . fyrir borð rétt þeirra, sem kunna að hafa fjármuni til þess að byggja, án þess að fé hafi verið veitt til þess, það skilst mér að sé punkturinn, sem allt snýst um. — En hér í frv. menntmrh. segir: „Ríkisframlagið er bundið því skilyrði, að fé hafi verið veitt í fjárlögum til sérhvers skólahúss, áður en hafizt er handa um bygginguna.“ Þetta atriði sérstaklega ræddi n. við menntmrh., og hann féllst á, að þetta félli niður, og þetta kemur alls ekki fram í brtt. n. Þess vegna leyfði n. sér að gagnálykta, að af því þetta félli niður úr frv. ráðh., þá öðluðust þær byggingar, sem byrjað er á, þennan rétt. Um það stendur deilan, hvort nógu greinilega er frá þessu gengið. Ég hef ekkert umboð fyrir n. alla, en ég segi fyrir mig, að ef við nánari athugun reynist ekki tryggilega frá þessu gengið, þá mun ég athuga það milli umr. En við teljum öll, að þetta sé réttur skilningur hjá okkur, að við það að fella þetta niður verði náð því, sem fyrir okkur vakti.