08.12.1950
Efri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (3319)

52. mál, fræðsla barna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Till. menntmn. var ekki alveg eins og ég hafði hugsað mér í byrjun. En hvað snertir þessar tvær till., sem hér liggja fyrir, þá sýnist mér heldur lítill munur á till. að öðru leyti en því, að í till. n. er sagt: „enda hafi fræðslumálastjórnin ákveðið framlag til viðkomandi skólabyggingar af því fé.“ Mér sýnist, að þetta sé meginmunurinn á þessum tveimur till., sem hér er um að ræða, þar sem í brtt. hv. þm. Barð. er hins vegar lagt til, að ríkissjóður greiði ákveðinn hluta af stofnkostnaði, þegar fé er veitt til þess í fjárl. Mér virðist eiga að skilja þetta þannig, að það sé veitt í fjárl. og fé lagt til hverrar byggingar í einu. Það í sjálfu sér leysir ekki það, sem hér er aðallega um að ræða, hvenær viðkomandi bygging öðlast rétt til framlagsins. Hún hlýtur að öðlast réttinn eftir skiptinguna, og virðist mér, að n. hafi komið að því í niðurlagi sinnar greinar, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „enda hafi fræðslumálastjórnin ákveðið framlag til viðkomandi skólabyggingar af því fé.“ Hérað, sem hefst handa um byggingu skólahúss, getur annars ekki sannað, að þessi skóli eigi að vera innifalinn. Hins vegar ef tiltekið er, að fræðslumálastjórnin hafi ákveðið framlag til viðkomandi byggingar, mætti skilja það á tvo vegu; í fyrsta lagi, að er fræðslumálastj. hefur ákveðið styrk til ákveðinnar skólabyggingar, eigi hún að fá áframhaldandi framlag, eða í öðru lagi, að skóli hafi ekki rétt til þessa styrks nema í þau skipti, sem hann kemur fram í skiptingu fræðslumálastj. Þetta mætti hártoga, og ég mundi álíta og framkvæma það á þann hátt, að um leið og fræðslumálastj. tekur styrk til skóla inn á sína skrá, þá heldur hún áfram að styðja skólann, þangað til byggingu hans er lokið.

Ef ekki kemst eitthvað fast á í þessu, hlýtur það að halda áfram svipað og nú, að fræðslumálastj. skipti framlaginu helzt til þeirra héraða, sem nauðulega eru stödd. Ég get ekki séð, að öðruvísi væri hægt að framkvæma þetta. Hins vegar lítur nú svo út, að ekki verði hægt að veita fé til nýrra skólabygginga með því framlagi, sem Alþingi hefur lagt til á þessu ári, og því, sem gert er ráð fyrir á fjárlögum næsta árs, því að skuldirnar eru svo miklar, að framlag ríkissjóðs er ekki nema nokkur afborgun af þeim skuldum, sem ríkissjóður er í við sveitirnar. Þess vegna væri ókleift annað, ef gera á ráð fyrir, að ríkissjóður geti ekki lagt fram meira en nú, en finna einhverja leið til að greiða skuldirnar á hverjum tíma og leggja eitthvað fram til nýrra bygginga, því að þörfin er mjög mikil, t. d. að geta hlaupið undir bagga, er skólahús brennur, þótt ekki væri meira. Og ekki er hægt að gera ráð fyrir, að mögulegt sé að loka fyrir það, að framlög fari til annarra bygginga en þeirra, sem nú eru í smiðum. Og ég hygg, að ákveðinn grundvöllur sé fyrir hendi, eins og nefndin hefur gengið frá því í sinum tillögum.