19.10.1950
Efri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gerir tillögu um, að þetta mál fari í fjhn., sem ég á sæti í. Finnst mér því rétt að minnast á eitt atriði, áður en málið fer í nefnd.

Ráðh. sagði, að það hefði ekki verið hægt annað en gefa út bráðabirgðalög þau, sem prentuð eru á þskj. 24. Ég vil benda á, að á síðasta þingi voru samþ. lög um bjargráðasjóð, og í 5. gr. þeirra laga stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Bjargráðastj. skal gæta vel að öllu, er bendir til þess, að yfirvofandi hallærishætta sé fram undan, og skal hún vera ríkisstj. til ráðuneytis um ráðstafanir, sem miða að því að afstýra hallæri.“ Verkefni bjargráðastj. er því að sjá um þetta; í 1. gr. er ákveðið verkefni sjóðsins, í 9. gr. er ákveðið, hvernig tekjum sjóðsins skuli skipt, og í 11. gr. er ákvæði um að veita styrk úr sjóðnum.

Ég sé ekki annað en þessi lög heimili ríkisstj. sömu aðstoð og brbl. gera, því að í 14. gr. segir, að heimilt sé að veita bjargráðasjóði lán, ef hann er í fjárþröng. Mér hefði fundizt eðlilegast, að þetta væri notað og bjargráðasjóður sé notaður, því að honum er ætlað þetta hlutverk. En eðlilegt er, að frv. verði breytt þannig, að 41/2 millj. yrðu látnar renna til bjargráðasjóðs, og hann úthlutaði þeim á þann hátt, sem honum er ætlað.

Bjargráðasjóður er ekki nægilega sterkur til þess að mæta áföllum þessum, en í 14. gr. er sagt, að heimilt sé að styrkja sjóðinn, og eðlilegt er, að þetta fé renni til sjóðsins og stjórn sjóðsins fari svo með málið. Ef bjargráðasjóður hefði féð, þyrfti ríkisstj. ekki að skipta sér af málinu. Hér voru settar ákveðnar reglur á síðasta þingi, og eðlilegt væri, að farið yrði með féð samkv. þeim.