08.12.1950
Efri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (3320)

52. mál, fræðsla barna

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef ekki verið við afgreiðslu þessa máls, þó að ég sé að nafninu til form. nefndarinnar, og hef því ekki fylgzt með fundunum. En nú hef ég séð málið, og finnst mér ágreiningurinn vera sá, hvort fjvn. á að skipta styrkjunum til skólabygginganna og binda þá við hráskinnsleik hér á Alþingi og eyða tíma nefndarinnar, sem telur sig þó áður hafa ærið að starfa við að sjá um, að gjaldþoli ríkisins sé ekki ofboðið og tekið sé fyrir óhóflega eyðslu til skólahúsa.

Eins og menntmrh. sagði, þá er það fræðslumálastj., sem ákveður upphæðina til hvers skóla, ef haldið er síðustu setningu hér í frv., eins og það var samþykkt: „enda hafi fræðslumálastjórnin ákveðið framlag til viðkomandi skólabyggingar af því fé.“ Þegar reist er skólahús, geri ég ráð fyrir, að menn snúi sér til fræðslumálastjóra, og um leið og hann samþ. uppdráttinn, getur hann sagt: „Við getum ekki ákveðið framlagið til skólans á næsta ári.“ En yfirleitt tel ég, að það sé hepppilegast, að þeir, sem kunna mest í þessum hlutum, lifa og hrærast í þessu eins og fræðslumálastjóri og hafa bezta þekkingu til að bera í þessum efnum, sjái um þetta. Og ég sé enga hættu við það, að þeir, sem byrja að byggja í leyfi fræðslumálastj., hefjist handa, þótt þeir fái ekkert í 1–2 ár. Mér finnst stórum heppilegra að halda sér við þetta eins og það var afgr. hér í d., heldur en að fara að breyta því. En þó að ég hafi sagt, að fjvn. sé síður til þess fallin að sjá um þetta mál, þá er það ekki vegna þess, að ég treysti fræðslumálastjóra betur, heldur efast ég um, að nefndin hafi tíma til þess. Svo held ég, að rétt sé að láta frv. róa eins og það er nú.