08.12.1950
Efri deild: 32. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (3326)

52. mál, fræðsla barna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég verð að mótmæla því, sem hv. þm. Barð. deildi á mig fyrir að hafa sagt við 1. umr. málsins. Ég sagði, að þó að sveitarfélag byrjaði á byggingu skóla, missti það ekki réttinn fyrir fullt og allt, ef það væri búið að fá tryggingu, áður en framkvæmdin hófst, en öðlaðist ekki styrkinn, fyrr en féð væri veitt til þess á fjárl. (GJ: Skilur hæstv. ráðh. það svo, að ríkissjóður eigi að bera vaxtabyrðina af vangoldnum framlögum til skólabygginga?) Það hefur aldrei verið rætt um það atriði, og er mjög vafasamt, hvort ríkissjóður ætti ekki að standa skil á afborgunum af vöxtum af þessum framlögum. Hér er um mismunandi skoðanir að ræða, og furðaði ég mig á, er hv. þm. Barð. sagði, að þeir, sem væru á annarri skoðun en hann, séu að koma í veg fyrir, að fátækar sveitir geti komið sér upp skólum, sem fræðslul. leggja þeim þá skyldu á herðar að byggja. Hvernig dettur honum í hug, að fátækar sveitir geti komið upp þessum skólum, nema því aðeins að þau hafi tryggingu fyrir því, að ríkissjóður standi við sitt framlag til þeirra? Það er einmitt mín skoðun, að það verði að ganga vandlega frá því, að fátækum sveitarfélögum verði tryggt framlag til þess að koma skólunum upp. Hv. þm. Barð. vill hins vegar enga tryggingu gefa þeim, heldur láta þau bíða og bíða, eftir því sem ríkissjóði eða Alþ. hentar. Hér fer því nokkuð milli mála og gætir talsverðs misskilnings hjá ýmsum hv. þm. í þessu máli. Hins vegar held ég, að þegar allt kemur til alls, beri ekki eins mikið á milli í þessu máli og sumir vilja vera láta. Þess vegna ætla ég ekki að orðlengja þetta frekar, en ég mundi leggja til, að málið væri athugað betur í n.