12.12.1950
Efri deild: 35. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (3331)

52. mál, fræðsla barna

Frsm. (Finnbogi R. Valdimarsson) :

Herra forseti. Síðast þegar þetta mál var til umr., urðu um það allverulegar umr., og tóku þátt í þeim tveir ráðh. auk hv. þm. Barð., sem hefur látið þetta mál allmikið til sín taka. Það kom fram yfirlýsing frá hæstv. menntmrh. um það, að hann mundi skilja ákvæði frv. svo, að um leið og skólabygging væri tekin inn á framkvæmdaskrá fræðslumálastjórnarinnar, þ. e. ríkisframlag ákveðið til hennar, þá leiddi af sjálfu sér, eins og hæstv. ráðh. komst að orði, að fræðslumálastjórnin mundi telja sér skylt að leita áframhaldandi ríkisframlags til slíkra bygginga, þangað til verkinu er lokið. Enn fremur, að bæjar- og sveitarfélög hafi rétt til ríkisframlags jafnóðum, þó að hins vegar kynni að standa á greiðslum frá ríkissjóði, og þá væntanlega einnig létt á vöxtum að því leyti er snertir ríkisframlagið. Ég sé ástæðu til að undirstrika þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. um skilning á frv. eins og það liggur fyrir að samþykktri till. menntmn., því að ég tel þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh. alveg í samræmi við skilning n. á frv. og brtt. n. Hæstv. dómsmrh. ræddi einnig nokkuð um þetta frv. eins og það liggur fyrir og taldi, að það þyrfti nánari athugunar, einkum vegna þess, að ákvæðin, sem í því eru um þau hlutföll, sem ríkisframlagið greiðist eftir til ýmissa skólabygginga, væru ekki samhljóða, vegna þess að um heimangönguskóla er ákveðið, að framlagið megi nema allt að helmingi, en hins vegar er afdráttarlaust ákveðið um heimavistarskóla og skólastjórabústaði í heimangönguskólum. Það var ekki vegna þess, að n. hafi ekki athugað þann mun, sem er á ákvæðunum að þessu leyti, að hún hefur ekki gert till. um þetta, heldur vegna þess, að þessi ákvæði voru í frv. eins og það kom frá ríkisstj., enda samhljóða þeim ákvæðum, sem eru í fræðslul. frá 1946. Ef hæstv. dómsmrh. álítur, að það þurfi að breyta þessu ákvæði um hlutföllin, þá hefur hann haft ótal tækifæri til þess að koma að skoðun sinni og vilja um það. Menntmn. sá ekki ástæðu til að gera till. um að raska þessu hlutfalli nú, því að í fyrsta lagi gætu orðið um það mjög skiptar skoðanir, hvort ástæða væri til þess, og gæti það stöðvað framgang málsins. Í öðru lagi mætti segja, að þetta svigrúm, sem ráðh. er veitt, eigi nokkurn rétt á sér. Með fræðslul. frá 1946 var gerð mjög þýðingarmikil breyt. á framlagi ríkisins til heimangönguskóla, því að áður en þau voru sett, tók ríkið ekki þátt í stofnkostnaði skóla í kaupstöðum, en samkvæmt fræðslul. gerir það það allt að helmingi, eins og segir í l. En þetta mun yfirleitt hafa verið skilið svo, að heimilt væri að veita ríkisframlag til þessara skóla að helmingi, og það er ljóst af þeim skýrslum, sem fyrir liggja, að ríkisframlagið vegna stofnkostnaðar skólanna hefur hækkað stórlega einmitt vegna þessa ákvæðis. Þannig má benda á hlut ríkissjóðs í stofnkostnaði þeirra skóla, sem byggðir hafa verið og eru í byggingu í kaupstöðum. Hefur hann varið 12 millj. kr. til þessara skóla, og hefur Reykjavík fengið langmestan hluta af því.

Hæstv. ráðh. segir, að ég hafi sagt, að almenn ánægja hafi verið um skiptingu fjárins milli skólanna. Ég hef aldrei sagt, að það hafi verið nein almenn ánægja um þessa skiptingu. Ég hef aldrei getað ímyndað mér, að mögulegt væri að skapa almenna ánægju um það, heldur tel ég þvert á móti, að það sé eðlilegt, að það sé almenn óánægja, þar sem vitað er, að ríkisframlagið nægir ekki fyrir helmingnum af þeirri greiðsluþörf, sem fyrir hendi er. Ef almenningur hefði verið ánægður, hefði það verið sönnun þess eins, að það hefði ekki verið allt með felldu með skiptinguna. Ég veit ekki, hvort Reykjavíkurbær hefur sérstaka ástæðu til að vera óánægður, eins og hæstv. ráðh. drap á, þegar á heildina er litið. Hann hefur þegar fengið nærri 4 millj. kr. til sinna skólabygginga og á að fá um 10 millj. kr. úr ríkissjóði, svo að það er augljóst, að þótt ákvæði l. séu þannig, að þau takmarki ríkisframlagið við það, að það skuli vera allt að helmingi, þá hefur Reykjavíkurbær og kaupstaðirnir von um að fá mjög verulegt framlag, sem þeir fengu ekki áður, til þessara bygginga, og sé ég enga ástæðu til að lækka það, því að mér er það vel ljóst, að allar þær skólabyggingar í kaupstöðum, sem eru nú þegar hafnar, eru mjög þarfar og nauðsynlegar, eins og ég hef áður bent á, og Reykjavík á nú í byggingu skóla, sem mun kosta samkvæmt áætlun 5 millj. kr., og munu allir viðurkenna, að hún sé mjög þörf. Sama má segja um skólabyggingar í kaupstöðum eins og Keflavík, þar sem áætlaður byggingarkostnaður er um 3 millj. kr., og á Akranesi er sama að segja. Þessar byggingar eru óhjákvæmilegar, til þess að hægt sé að verða við fræðsluskyldunni, sem ekki má gleyma að hvílir á þessum aðilum.

Hv. þm. Barð, kvað svo að orði, að n. hefði verið gersamlega blind fyrir aðalatriði þessa máls. Ég ætla nú ekki að fara hörðum orðum um hv. þm. Barð., því að hann hefur nú talað sig dauðan í málinu, en ég vil aðeins segja örfá orð og reyna að draga fram frá mínu sjónarmiði það, sem ég held, að sé aðalatriðið í þessu máli, en það er, að samkvæmt skýrslum, sem fyrir liggja, er hluti ríkissjóðs af þeim skólahúsum, sem eru í byggingu eða byggð hafa verið á undanförnum árum, um 56 millj. kr., miðað við áætlaðan byggingarkostnað. Af því hefur ríkið greitt um 31 millj. kr. og á því eftir að greiða um 25 millj., ef áætlanir standast, en þar af eru nú þegar í skuld 10 millj., miðað við 1. júlí í sumar. Ef þessum byggingum verður haldið áfram, hlýtur að safnast skuld hjá ríkissjóði með þeim framlögum, sem nú á að veita til þessara hluta í fjárl. Sú skuld hlýtur að aukast, hvað sem sett er í l. um takmörkun á ríkisframlaginu. Til þess að gera sér þetta alveg ljóst, get ég tekið dæmi. Þó að í frv. fælust ekki þau meinlausu ákvæði, sem nú eru, heldur væri tekið fyrir ríkisframlagið til skólabygginga, þá héldi skuldasöfnunin, sem hv. þm. Barð. talaði um, áfram um mörg ár, þannig að með sama ríkisframlagi mundi taka allt að 10 ár að greiða þann hluta ríkissjóðs, sem ógreiddur er, þó að ekki sé gert ráð fyrir, að áætlaður kostnaður stórbygginga fari fram úr áætlun. En af því verður ljóst, að þetta frv. er ekkert aðalatriði málsins. Hitt er aðalatriðið, að stöðvuð verði sú skuldasöfnun, sem á sér stað, ef byggingunum, sem verður að halda áfram, verður haldið áfram. Þess vegna er það nú aðalatriði málsins, að það verði fundin lausn, sem gerir mögulegt að halda þessum byggingum áfram. Það mætti hugsa sér, að ríkisframlagið yrði aukið stórkostlega frá því, sem nú er, t. d. í samræmi við till. fræðslumálastjóra, sem fyrir liggja, en yrðu veittar 8 millj. kr. á næstu árum, mundi það ekki taka nema 3 ár eða svo að ljúka þeim skuldum, sem áfallnar eru og hljóta að bætast við. Þrátt fyrir það væri ekkert aflögu til nýrra bygginga, sem eru svo nauðsynlegar, að þær verða ekki stöðvaðar. Ég verð því að segja eins og fræðslumálastjóri komst að orði á fundi hjá n., að ef ekki fæst breyt. um greiðslu skuldanna, þá er ekki mikið fengið með þessu frv., í hvaða formi sem það er.

N. varð sammála um að gera orðalagsbreyt. á 1. gr. frv., þó að hún hafi talið og telji, að ákvæðin, sem þar eru, fái fullkomlega staðizt og séu nægilega skýr. En til þess að gera það eins ljóst og mögulegt er fyrir þeim aðilum, sem eiga hlut að máli, þ. e. bæjarstjórnum og sveitarstjórnum, sem kynnu að hugsa til skólabygginga, þá hefur hún fallizt á að gera till. um það, að síðari hluti frvgr. verði orðaður á ný og þar tekið fram eins ljóst og verða má, að sveitarstjórnaraðilar hafi rétt til ríkisframlags og hvernig það má veita, og ég hygg, að eins og brtt. á þskj. 339 er orðuð, geti þetta orðið ljóst, hverjir hafa rétt til ríkisframlags, þegar þeir fullnægja þeim almennu skilyrðum, sem nú eru fyrir framlaginu um uppdrátt og skólalóð, en framlagið greiðist eins og nú, eftir því sem ákveðið verður af fræðslumálastjórninni og þegar fé er fyrir hendi. Þetta á þá að vera byggingaraðilum ljóst, áður en þeir ráðast í skólabyggingar, því að vitanlega verða þeir að hafa um það allt samráð við fræðslumálastjórnina, áður en þeir ráðast í byggingar, og fá þá að víta um leið, hvers megi vænta um framlag frá .ríkinu. Ég hef áður undirstrikað þá yfirlýsingu hæstv. menntmrh., að fræðslumálastjórnin líti svo á, að eðlilegt sé, að skólabyggingar, sem hafa fengið ríkisframlag, njóti þess áfram, þangað til þeim er lokið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég vænti, að brtt. verði samþ. og málið þar með afgr. Að vísu leysir málið ekki allan vanda í þessu efni, en þó getur frv. orðið til þess, ef samþ. verður, að margt verði ljósara um þau hlutföll, sem hér er um að ræða og hvers megi vænta í þessum efnum.