02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., er lagt fram til staðfestingar á bráðabirgðalögum, sem sett voru snemma í s.l. mánuði, áður en þing kom saman, og í raun og veru er að miklu leyti búið að framkvæma l. eða ákveðið að framkvæma þau í aðalatriðunum.

Við 1. umr. þessa máls gáfu hæstv. landbrh. og búnaðarmálastjóri, hv. 1. þm. N-M., skýrslu um málið, og geta því sparazt talsverðar umr. nú.

Fjhn. ræddi málið allýtarlega og klofnaði um það, en klofnaði þó ekki illa, vegna þess að fjórir nm. fylgja frv., en hinn fimmti flaskaðist frá. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með þremur breyt., sem allar mega heita smávægilegar. Álit meiri hl. kemur fram á þskj. 98. Breyt., sem meiri hl. leggur til að gerðar verði, eru þessar: Í fyrsta lagi, og er sú mest, að Grunnavíkurhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu fái einnig slíka hjálp sem hér er um að ræða, vegna þess að í ljós hefur komið, að ótíð sú, sem gekk yfir ýmis héruð í sumar og náði m.a. til Árneshrepps á Vestfjörðum, náði einnig til Grunnavíkurhrepps og fyrirmunaði bændum þar heyöflun. Enginn ágreiningur er milli meiri og minni hl. um þetta atriði Önnur brtt. er sú að fella niður tvö orð. Er það aðeins til að nema burt hortitt. Þriðja brtt. er við 2. gr. frv., að landbrn. setji ekki aðeins reglur um útbýtingu lána og styrkja, heldur einnig um innheimtu lánanna. Um þetta er í sjálfu sér enginn ágreiningur.

Minni hl. leggur til, að allmiklar breyt. verði gerðar á frv. Hann leggur til, að í stað þess að ríkinu sé heimilt að veita lán, sé ríkisstj. heimilað að ábyrgjast lán til handa bjargráðasjóði og honum síðan falið að ráðstafa þessu fé eftir sínum reglum, þó með þeirri undantekningu, að þær ráðstafanir, sem búið er að gera, fái að standa, nema að því leyti sem ráðherra getur fallizt á, að þær breytist.

Nú má í sjálfu sér um það deila eins og margt annað, hvort réttara hefði verið að fara þá leið, sem farin var, eða fela bjargráðasjóði framkvæmdina, en meiri hl. n. sá enga ástæðu til að gera till. um að breyta því fyrirkomulagi, sem er haft í bráðabirgðalögunum. En svo kom líka annað til greina, að það er þegar búið að framkvæma l. að miklu leyti, svo að breytingar komast þar ekki að. Meiri hl. leit líka svo á, að ekki hefði verið óeðlilegt, þó að hæstv. ríkisstj. veldi þá aðferð til að hjálpa bændum á óþurrkasvæðinu, sem hún valdi, en legði málið ekki inn hjá bjargráðasjóði. Þá er einnig á það að líta, að sjóðurinn hefur ekki fjárráð til að taka þetta hlutverk að sér. Að vísu hefði mátt taka lán handa honum, eins og minni hl. bendir á. En þá var líka það að athuga, hvort reglur sjóðsins eru ekki svo þröngar, að þær hefðu orðið til fyrirstöðu þeirri skjótu framkvæmd, sem hér átti að gera, ef aðstoð hefði átt að veita. Mér skilst, að reglur bjargráðasjóðs séu ekki þægilegar við þær aðstæður, sem hér voru. Til þess að fyrirbyggja hallæri eða koma í veg fyrir hallæri má ekki veita lán úr sjóðnum nema til eins árs. Það gat ekki komið hér að notum, því að bændum var allsendis ónóg að fá lán aðeins til eins árs. Enn fremur er það svo samkvæmt reglum sjóðsins, að skýrslusöfnun á að fara fram, en það hlaut hér að taka langan tíma, en undir þessum kringumstæðum mátti engum tíma eyða, heldur varð að hafa hraðar hendur. Hið rétta augnablik var aðeins fáir dagar í september. Það augnablik var, þegar taflslok voru, svo að útséð var um heyöflun hjá bændum, en bændur höfðu þó ekki gripið til þess að fella bústofn sinn. Það voru ekki nema fáir dagar, sem unnt var að nota, og það hefði tæplega getað orðið samkvæmt reglum bjargráðasjóðs. Til þess að nota þetta augnablik svo, að til gagns væri, þurfti sérstaka löggjöf. Sú löggjöf kom með bráðabirgðalögunum.

Þetta er raunar atriði, sem þarf ekki að deila um. Þetta er atriði, sem er búið að framkvæma, svo að það er ekki til neins að flytja till. um að ábyrgjast lán fyrir bjargráðasjóð í þessu skyni. Ríkisstj. er samkvæmt bráðabirgðalögunum búin að taka lán. Það er því ekki heldur til neins að flytja nú till. um að fela bjargráðasjóði að úthluta lánunum, vegna þess að það hefur þegar verið gert og nokkrir hreppar eru þegar búnir að hefja sín lán. Það er þess vegna eftir dúk og disk, sem till. minni hl. kemur fram. Og hver sem afstaða manna væri til þess, hvort það væri rétt, að bjargráðasjóður væri þær dyr, sem farið væri í gegnum, þá er nú ekki hægt að breyta neinu í því efni, heldur liggur aðeins fyrir, hvort á að samþ. frv., eins og það liggur fyrir, eða ekki, með þeim smávægilegu breyt., sem meiri hl. hefur lagt til að gerðar væru á því til lagfæringar. Ég fyrir mitt leyti er alveg hissa á hv. þm. Barð., sem er viðurkenndur verzlunarmaður, að hann skuli bera fram þessar till. og eyða tíma sínum og annarra yfir þeim. Ég vænti þess því, að d. fallist á að samþ. frv. með þeim breyt., sem meiri hl. n. hefur borið fram.

Sé ég svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um það að sinni.