19.10.1950
Neðri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (3375)

13. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar gengisskráningarlögin voru undirbúin af hæstv. ríkisstj. og samþ. hér í þinginu, var meira haft við undirbúning þeirra en hér tíðkast. Það var sóttur hagfræðingur til Vesturheims til að undirbúa frv. og honum fenginn til aðstoðar prófessor í hagfræði frá Háskóla Íslands, svo að honum yfirsæist ekki í neinu við útreikningana og til þess, að alþýða landsins yrði ekki blekkt og allt væri sem vísindalegast. Það eru nú liðnir 7 mánuðir síðan frv. þetta var knúið hér í gegnum þingið, án þess að tillit hafi verið tekið til nokkurs af því, sem við fluttum sem rök gegn frv. og síðan hefur komið í ljós, að var rétt. Ég hef því flutt hér frv. það, sem hér liggur nú fyrir, ásamt hv. 6. þm. Reykv., og felur það í sér þá breytingu, að reikna skuli vísitöluna út mánaðarlega í stað hins langa tíma, sem líður á milli þess, sem hún er reiknuð út samkv. núgildandi lögum. Hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar óttuðust mjög, að launþegasamtökin mundu knýja fram kauphækkun með verkföllum, en þau hafa beðið þangað til sá sex mánaða tími, sem hagfræðingarnir töldu að þyrfti til að koma á jafnvægi, væri liðinn. Nú eru liðnir meira en 6 mánuðir, og hver er svo niðurstaðan? Hún er sú, að hagfræðingarnir hafa reiknað hringlandi vitlaust. Vísitalan hefur þegar hækkað um 22 stig, og í grundvelli gengislækkunarlaganna fólst kjararýrnun, því að fjármagn það, sem tekið var til að gera þunga innlendra vara minni, var tekið af alþýðunni í landinu. En launþegasamtökin hafa nú gert hæstv. ríkisstj. mögulegt að sýna hvað bjó í bjargráðaráðstöfunum hennar. Enn fremur væri æskilegt, úr því það er svo að einn og sami þm. hefur nú skipt sér í tvær persónur, þ. e. a. s. í persónu hæstv. viðskmrh. og hv. 3. þm. Reykv., og persóna hv. 3. þm. Reykv. hefur holdgazt í hv. prófessor í hagfræði, svo að það sýnir sig, að þrenningarkenning kirkjunnar getur haft við nokkur rök að styðjast, — þá væri æskilegt, að önnur hvor persónan væri viðstödd á meðan þetta mál er rætt. (Forseti: Hæstv. viðskmrh. er fjarverandi.) — Þá er kannske hinn hlutinn af hv. 3. þm. Reykv. einhvers staðar svo nálægur, að hann megi hlýða á mál mitt.

Eins og eðlilegt er, þá gera launþegarnir nú þær kröfur, eftir að samtök þeirra hafa nú beðið í ákveðinn tíma eftir því, að verkanir gengislækkunarinnar mættu koma truflunarlaust í ljós, að nú séu þau ekki látin bíða lengur eftir nokkrum uppbótum á sín skertu kjör; því að raunverulega var því lofað í niðurstöðum grg. hagfræðinganna fyrir gengislækkunarlögunum, að gengislækkunin skyldi ekki koma við launþega. Þannig stendur t. d. á bls. 47 í grg. hagfræðinganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Því ber ekki að neita, að gengislækkun án kaupuppbóta yrði nokkur kjaraskerðing í bili, einkum hjá efnalitlu fólki, sem notar meginhluta tekna sinna til kaupa á innfluttum nauðsynjavörum. Gegn kjaraskerðingunni vegur hins vegar lækkun skatta (eða minnkun dýrtíðar), vegna þess að útflutningsstyrkir falla niður og að nýir skattar eru lagðir á útflutninginn og enn fremur, að gróði flyzt frá verzluninni og iðnaðinum til neytendanna, þegar rýmkar um innflutningsverzlunina.“

Það var sem sagt gengið út frá því, að einungis væri um að ræða kjaraskerðingu „í bili“ og lækkun skatta og minnkun dýrtíðar mundi fljótlega bæta hana upp. Nú hefur hæstvirt ríkisstjórn í ræðum þeim, sem hér hafa verið haldnar af hæstv. fjármála- og atvmrh., verið að gera tilraun til að afsaka, hvernig farið hafi með efndirnar á þessum loforðum. En eitt getur hæstv. ríkisstj. ekki afsakað, sem sé það, að þeir menn, sem útbjuggu þetta plagg, hafa reiknað vitlaust. Hv. 3. þm. Reykv. viðurkenndi, að þeir hefðu ekki reiknað með áhrifunum af lækkun krónunnar gagnvart sterlingspundi 1949. Og það verður að segjast, að þetta er hart, að svokölluðum sérfræðingum skuli sjást yfir slíkt. Og þegar það kemur í ljós, er eðlilegt að spurt sé, hvort þeim kunni þá ekki að hafa yfirsézt um ýmislegt fleira. Og má víst að minnsta kosti draga eitthvað úr trúnni á það, að þeir séu einhver óskeikul véfrétt, eins og gjarnan var látið í veðri vaka í umræðum um gengislækkunarlögin á síðasta þingi.

Ég tók eftir því, að hv. 3. þm. Reykv. virtist enn þá trúa því, að gengislækkun hefði verið eina ráðið, þrátt fyrir það, sem nú er komið í ljós. En hvað lögðum við sósíalistar áherzlu á í sambandi við gengislækkunarlögin? Við fulltrúar sósíalista lögðum fyrst og fremst áherzlu á það, — og það var mín fyrsta athugasemd við þetta lagafrv. í fjhn., þegar það kom þar til umræðu, — að þar væri gengið fram hjá aðalvandamáli sjávarútvegsins, sem sé markaðskreppunni. Og fór ég m. a. um þetta svofelldum orðum í því nál., er ég kom þá fram með — með leyfi hæstv. forseta:

„Í öllu þessu frv. og hinni löngu greinargerð og „hagfræðilega“ áliti er ekki minnzt á það mál, sem nú er höfuðvandamál sjávarútvegsins, markaðsvandamálið. Það er erfiðleikinn á að tryggja sölu á öllu því magni, sem sjávarútvegurinn getur nú framleitt með hinum stórvirku tækjum sínum, sem er aðalerfiðleikinn, fyrst pólitísk sjónarmið hafa svo að segja einskorðað oss við hrynjandi markaði Marshall-landanna. Áþreifanlegast kemur þetta fram í því, að bankarnir skuli telja óeðlilegt, að þeir láni út á meira en 15 þúsund smálestir freðfisks með núverandi markaðshorfum. En hvergi er minnzt á slíka möguleika sem þessa í greinargerð „hagfræðinganna“. Það er sem þeir vilji útiloka kreppuna úr heiminum með því að sleppa henni úr hugmyndaheimi sínum, en vart mun slíkt ráð gefast betur en strútnum að stinga höfðinu í sandinn, er hætta nálgast.“ Og síðar segir svo:

„Íslenzk sjávarútvegsframleiðsla fékk að þreifa á því 1931, hvað kreppa auðvaldslandanna var fyrir þjóðarbúskap vorn, er saltfiskmarkaður Suðurlanda hrundi. Nú er í hinni nýju kreppu auðvaldsskipulagsins að fara svipað um freðfisk- og ísfiskmarkað Þýzkalands, Hollands og Englands. Að ganga fram hjá þessu höfuðvandamáli, eins og það væri ekki til, ber vott um eitt af tvennu: alveg dæmalausan skort á raunsæi eða tilrann til að blekkja þjóðina. Er hvort tveggja ófyrirgefanlegt af mönnum, sem telja sig „hagfræðinga“, og af ríkisstjórn, sem þó hlýtur að vita, hvernig þessum málum er komið.“

Þetta var eðlilega það atriði, sem fyrst bar að taka til athugunar, þegar um það var að ræða að bjarga sjávarútveginum. En hvað var gert? Það fékkst aldrei minnzt á þetta einn orði, hvorki af hæstv. ríkisstj. né af hagfræðiprófessornum, hv. 3. þm. Reykv. Gengislækkunin var knúin í gegn á síðasta Alþingi, án þess þeir, sem að þeirri löggjöf stóðu, þyrðu að minnast einu orði á höfuðvandamálið sjálft, sem vitað var, að hún gat enga bót á ráðið. — En hvað gerir svo hæstv. ríkisstjórn nú? Jú, hennar fyrsta afsökun nú fyrir því, að gengislækkunin hafi ekki náð tilgangi sínum, er sú, að markaðirnir hafi hrunið! Já, hvílíkt reiðarslag! Það var af því að það þurfti að koma hæstv. ríkisstjórn á óvart! Það var margsinnis búið að sýna henni fram á þetta og vara hana við. En hún fékkst bara aldrei til að ræða það einu orði — og „vísindamennirnir“ ekki heldur. Hvað þýðir svo að koma nú og segja okkur, að ekki sé til neins að koma með ráðstafanir til þess að draga úr þeirri skerðingu lífskjara alls almennings, sem gengislækkunin hefur haft í för með sér, — það sé ekki til neins, vegna þess að markaðirnir hafi hrunið og það komið í veg fyrir heillavænleg áhrif gengislækkunarinnar? Þetta var fyrir fram vitað. Og nú ber Alþingi sökina. Alþýðu landsins er ekki um að kenna. Fulltrúar hennar hér á Alþingi höfðu sagt þetta fyrir og bent á þær ráðstafanir, sem einsætt væri að gera til að afla markaða. Þeir höfðu farið fram á, að framleiðendum yrðu gefnar frjálsari hendur til að skapa markaði fyrir freðfisk og sömuleiðis fyrir saltfiskinn, sem einungis lítil klíka fær að fylgjast með, hvernig sölu er háttað á, en ýmislegt, sem fram hefur komið, bendir til að sé þó ekki framkvæmd með alþjóðarhag fyrir augum. Þessu var neitað. Með öðrum orðum: Framleiðendur og verkafólk í landinu eiga að sætta sig við, að sagt sé, að markaðir séu ekki til, séu hrundir, séu lokaðir, — og fá þó með engu móti að ganga úr skugga um það, hvernig sölunni á íslenzkum afurðum er háttað. Sama máli gegnir um það, þegar neytendur hafa á undanförnum þingum farið fram á meira frelsi og rétt einstaklinganna til að gera innkaup sín eins og þeim þykir hagkvæmast og berjast gegn vaxandi dýrtíð. Þá hefur einnig verið sagt nei. Sem sagt: Ef framleiðendur biðja um frelsi til að afla markaða, er sagt nei. Ef neytendur biðja um frelsi til að vinna bug á dýrtíðinni, er sagt nei. Ríkisstj. tekur sér vald til að taka fram fyrir hendurnar á þjóðinni hvað þetta snertir, og hún á hins vegar að sætta sig við afleiðingarnar af afglöpum ríkisstjórnarinnar. Ég verð að segja, að ég er hræddur um, að langlundargeð þjóðarinnar kunni að þrjóta fyrr en varir.

Það er sem sagt í fyrsta lagi sagt við verkamanninn: Þú mátt ekki hækka kaup þitt. Í öðru lagi er sagt við hann : Það má alls ekki bæta þér þá kjaraskerðingu, sem þú hefur orðið fyrir af völdum gengislækkunarinnar; það gera markaðsvandræðin. Í þriðja lagi er sagt við hann: Þú mátt ekki sjálfur gera tilraun til að afla markaða eða tryggja skaplegra vöruverð. Og í fjórða lagi: Þú mátt ekki kaupa sjálfur þína vöru til landsins. — Og því var þó lofað, að rýmka mundi um höftin að 6 mánuðum liðnum. En það er öðru nær. Og nú er ástandið orðið þannig, að atvinnuleysið, sem gengislækkunin átti þó að tryggja menn gegn, er nú tilfinnanlegra og meira en nokkru sinni áður á undanförnum áratug, og ekki vegna aflabrests eða skorts á tækjum, heldur vegna þess, að þjóðinni er blátt áfram bannað að bjarga sér. — Ég tók eftir því í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh., að hann talaði mikið um nauðsyn þess, að vinnandi fólk yki afköst sín; það væri grundvöllurinn undir lífsafkomu þjóðarinnar. Ég verð að segja, að það er gott, að hæstv. ráðh. er kominn á þessa skoðun. Öðruvísi mér áður brá! Hann stóð sem sagt manna mest á móti því á sínum tíma, að þjóðin skapaði sér möguleika til að margfalda afköst sín með því að afla sér nýrra og stórvirkari atvinnutækja. — En þessi stórvirku atvinnutæki standa nú bara ónotuð. Ég skal taka Húsavík sem dæmi; hún hefur duglega sjómenn, fjölda vélbáta, ágæt fiskimið, nýtt hraðfrystihús. En bátarnir eru ekki gerðir út, og hraðfrystihúsið fæst ekki opnað. — Allar bjargir bannaðar! Og þó er vitað, að ef sjómennirnir fengju sjálfir að fara með sinn afla og selja, þá gætu þeir fengið fyrir hann þær vörur, sem þá vantar. En þeim er bannað þetta af hæstv. ríkisstjórn — sama ríkisvaldinu, sem segir: Þið megið ekki heimta kaupuppbætur, verkamenn, því að markaðirnir eru hrundir! Hví í ósköpunum vill ríkisstj. ekki lófa fólkinu að bæta kjör sín með því að taka þessi mál í sínar eigin hendur, úr því allt, sem hún gerir sjálf, verður aðeins til bölvunar, og „bjargráð“ hennar byggjast á vitlausum útreikningum? Ég verð nú að segja, að ef það á nú svo að fara að draga þá ályktun af því algera gjaldþroti, sem gengislækkunarleiðin hefur beðið — eins og hv. 3. þm. Reykv. gerði í ræðu sinni — að eina ráðið sé að grípa nú til nýrrar gengislækkunar, og læra þannig ekkert af þeim mistökum, sem orðin eru — ja, þá verð ég að segja, að það væri mjög illa farið.

Nú verður þetta að segjast: Það er ekki verkalýður og launþegar landsins, sem eiga neina sök á því, að gengislækkunin hefur reynzt svo sem orðið er. Þetta eru verk ríkisstj. sjálfrar. Verkamenn og launþegar hafa þvert á móti beðið í heilt missiri eftir því, að hinar blessunarríku afleiðingar kæmu truflunarlaust í ljós. Þær hafa reynzt hrapallegar. Og hvað er þá nú annað að gera fyrir launþega en að fá 6. gr. gengisbreytingarlaganna breytt í það horf, að launþegum séu tryggðar fullar uppbætur á kaup sitt mánaðarlega, ekki sízt þar sem þrátt fyrir að því fengist framgengt, hefur samt orðið stórfelld skerðing á þeirra lífskjörum, m. a. vegna atvinnuleysis, sem nú er orðið almennt fyrirbæri um allt land? Enn fremur hefur eftirvinna, sem áður bætti þeim ranglátan vísitölugrundvöll og kjaraskerðingar að nokkru, horfið, sem og ýmis aukavinna. Þessi kjaraskerðing er því tilfinnanlegri, að menn hlutu að byggja á endurteknum loforðum um fulla vinnu handa öllum, sem meira að segja voru fest í lögum, sbr. t. d. 1. eða 2. gr. fjárhagsráðslaganna. Í trausti þessa hafði þannig fjöldi launþega keypt sér íbúðir og reynt að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nú vofir það yfir þessum mönnum, að þeir missi þessar íbúðir. Þannig er ekki einasta verið að ræna hluta af tekjum manna, heldur líka eignum þeirra. Þegar það bætist svo ofan á, að allar þessar ráðstafanir eru gerðar með lögum eða lagasetningu, sem rýra svo stórlega kjör allrar alþýðu án þess að auðmannastétt landsins hafi orðið að færa nokkrar teljandi fórnir, þá verður niðurstaðan sú, að ríkisvaldinu sé beinlínis beitt til skipulagðrar ránsherferðar á hendur almenningi í landinu. Því að samtímis eru svo bundnar hendur alþýðunnar og samtaka hennar og tekið fram fyrir hendur framleiðendanna með markaðshöftum og neytendasamtakanna um innflutning lífsnauðsynja, — og að svo miklu leyti sem ríkisvaldið nær til byggingarfélaganna, er því beitt þar einnig og mönnum bannað að byggja þak yfir höfuð sér.

Ég býst nú við, að ef hæstv. ríkisstjórn vill fara út í umræður um þetta mál, og reynir að gera það dálítið upp við sig, þá komist hún ekki hjá því að viðurkenna, að hún á hér sökina, en ekki alþýða landsins. Alþýðan hefur beðið um frelsi til athafna á ýmsum sviðum; því hefur verið neitað hvað eftir annað og fjötrarnir aðeins hertir að henni. Í vor var því lofað, m. a. í greinargerðinni, sem fylgdi gengislækkunarfrumvarpinu, að gengislækkunin skyldi fremur bæta kjör hennar en rýra. Nú vita allir um efndirnar. — Getur nú hæstv. ríkisstjórn og alþm. búizt við því, að alþýðan sætti sig við þessar ráðstafanir án þess að beita afli samtaka sinna á móti?

Þetta frv. er borið fram til þess að gefa Alþingi tækifæri til að leiðrétta nokkuð sínar misgerðir og bæta launþegum að litlu leyti þá kjararýrnun, sem þeir verða fyrir — og án þess að með því sé bætt úr þeirri kjararýrnun, sem þeir verða fyrir af völdum atvinnuleysis.

Ég skal geta þess, að við flm. þessa frv. höfum reiknað með, að sjómenn fengju að njóta gengisbreytingarinnar að einhverju leyti. Það kann að vera, að á síðara stigi þessa frv. komi fram einhverjar till. til breytinga, hvað snertir aðra en háseta; en enginn efi er á því, að það er sanngjarnt, að þeir fái að njóta gengisbreytingarinnar að einhverju leyti. Þá hefði ekki heldur verið nema eðlilegt, að athuguð væri í þessu sambandi 8. eða 11. gr., sem fjallar um álögur á útgerðina, en þær hafa meðfram orðið til þess, að togararnir hafa nú stöðvazt svo lengi sem orðið er. — En þetta skal ekki orðlengt að sinni. Ég vil að lokum leyfa mér að æskja þess, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjhn.