02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt að hryggja hv. frsm. meiri hl. með því, að ég skuli eyða tíma hans og d. í sambandi við þetta mál, en ég neyðist til að gera það samt, ekki sízt vegna þess, að til mín hafa komið hringingar, bréf og skeyti með þakklæti fyrir afstöðu mína, vegna þess að þeir sem eru fyrir utan þingið, telja þá stefnu rétta. Ég tel mig því ekki þurfa að biðja afsökunar, þó að ég eyði tíma hv. frsm. og d. til að rannsaka málið.

Ég skil ekki, hvað hv. frsm. átti við, þegar hann var að tala um, að n. hefði ekki klofnað illa, en það hefði flaskazt úr henni. Ég veit ekki, hvað hann á þar við, og vil gjarnan fá skýringu á því. Ég veit ekki, hvort hann á við, að sá hlutinn, sem klofnaði úr, sé svo lítilfjörlegur, að ekki sé takandi mark á honum. Ég tel ekki, að það hafi flaskazt úr n. Það er ágreiningur um stórt prinsipmál, sem er rétt að ræða í alvöru, en ekki með útúrsnúningi, eins og hv. frsm. meiri hl gerði.

Ég ætla þá að snúa mér beint að málinu.

Á síðasta þingi var samþ. löggjöf um Bjargráða sjóð Íslands. Þar voru samþ.l. fyrir aðgerðir landbúnaðarráðherra, hv. þm. Mýr. Þar er bjargráðasjóði aflað tekna, svo að ég hygg, að tekjur hans séu nú áttfaldar á við það, sem áður var. Samkv. 1. gr. skal þessi sjóður vera fyrir allt landið í hallærum eða til þess að afstýra þeim. Ég held, að það sé ekki ástæða fyrir ráðherra að láta ekki formann sjóðsins koma nálægt þessu, og tel ég vítavert að sýna honum slíka lítilsvirðingu. Samkv. 5. gr. skal sjóðurinn gæta vel að öllu, er bendir til þess, að yfirvofandi hallæri sé fram undan, til þess að fyrirbyggja það, og einnig er þar sagt, að sjóðsstj. skuli vera ríkisstj. til samráðs til þess að afstýra því. Samkv. 9. gr. er sjóðnum skipt í sérsjóði héraða og fyrir allt landið. Samkv. 11. gr. ber að veita styrk til að draga úr hallærum, og samkv. 12. gr. hafa sýslufélög heimild til að gera þá kröfu, að þeim sé afhent séreign þeirra í sjóðnum, og auk þess má enn samkv. 12. gr. lána úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Samkv. 13. gr. er ákveðið, að þá má láta beina styrki úr bjargráðasjóði, ef ekki ér hægt að bjarga með 11. og 12. gr., með lánveitingu til einstaklinga, sýslna og sveitarfélaga, og þar er enn fremur sagt, að hver sem fær styrk verður að senda skýrslu um það, og í 14. gr. er sagt, að ef óáran gengur yfir, má veita lán úr ríkissjóði, ef sjóðurinn hefur ekki nægilegt fé, og það á að endurgreiðast af tekjum bjargráðasjóðs. Allt var þetta fyrir hendi, er bráðabirgðalögin voru gefin út, og engin ástæða til að gefa þau út. Ríkisstj. verður því að sniðganga þessi lög, sem hún var með í að setja. Ríkisstj. hefur því valið að sniðganga þessi lög frá síðasta þingi, og er ástæðan fyrir því gefin sú, að ekki hafi verið tími til þess að afla upplýsinga á þann hátt, sem ráð er fyrir gert í lögunum. Sjóðsstj. á að vera ríkisstj. til aðstoðar og safna skýrslum, og ríkisstj. er einnig gert að aðstoða sjóðsstj. samkv. 44. gr. Engin goðgá er það af hálfu ríkisstj. að afla skýrslna, og enginn hefði haft á móti því að báðir þm. N-M. hefðu aflað gagna, en þessir menn áttu ekki að veita féð. Samkv. 4. gr. áttu skrifstofu stjórinn í félmrn., forseti Fiskifélags Íslands og form. Búnaðarfélags Íslands að hafa með úthlutunina að gera. Rök þau, sem hafa verið borin fram, þess efnis, að þessir tveir menn ættu að úthluta styrknum, eru falsrök. Ég sé ekki, að það hafi verið til að hraða hjálpinni, þótt farin hafi verið þessi leið. Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að ekki hefði annars verið hægt að ákveða, hvað bændur ættu að fá, fyrir sláturtíð. Ég held ekki, að það hafi verið nein hömlun á því að setja á, þótt ekki væri annað eða meira fyrir hendi en loforð sjóðsstj. um styrk. Ég tel, að ekki hafi verið snefill af ástæðu til að hafa þennan hátt á. Það er rétt hjá frsm., að búið er að gera þessar ráðstafanir, en féð látið út eftir þeim reglum, sem þessir menn höfðu, í stað þeirra, sem áttu að hafa með þetta að gera. Ég skil ekki ástæðu meiri hl. nm., að vilja ekki fallast á þá tillögu að veita málinu í þann farveg, sem upphaflega var til ætlazt. Með því að flaska úr bjargráðasjóði og kljúfa verkefni hans er verið að laða bændur til þess að leita til ríkisstj. frekar en til bjargráðasjóðs. Ef frv. verður samþ., er það bending um að snúa sér ekki til bjargráðasjóðs, heldur fara til pólitískra samstarfsmanna upp í stjórnarráð, og er sú ráðstöfun mjög vítaverð. Mjög illa er farið, að lama á álit á bjargráðasjóði og verksviði hans, og þar eru önnur öfl að verki en samvizka hv. nm., ef frv. verður samþ. Tel ég og allan undirbúning hafa verið ávítunarverðan. Óþarfi er að fara þannig með málið, og veikir það aðstöðu sjóðsins, ef þetta verður samþ., og er eins gott að afneita lögunum um bjargráðasjóð og opna allar dyr upp á gátt og snúa sér til sinna pólitísku samstarfsmanna um styrk.

Hv. þm. N-M. lýsti yfir við 1. umr., að hann yrði að mæta ásökunum frá sínum kjósendum um það, að þeir skildu ekki, að hann gæti ekki ráðið eins miklu um úthlutunina og honum sýndist. Ég er undrandi á ríkisstj. að láta sér detta í hug að fara inn á þessar brautir.

Hv. frsm. sagði, að bjargráðasjóður hefði ekki haft nægilegt fé, en hann hafði fyrirmæli í lögunum um að eiga kröfu á ríkissjóð. Ég sé ekki, hvers vegna Búnaðarbankinn hefði ekki alveg eins getað lánað féð bjargráðasjóði og ríkisstjórninni. Hann segir, að reglur sjóðsins hefðu getað torveldað framkvæmdir. Þetta er rangt; lög sjóðsins torvelda þær engan veginn, sbr. 15. gr. Ef þau hefðu torveldað þær, var það í hendi ráðh. að breyta því.

Ríkisstj. hefur nú reyndar látið þetta lán af hendi, en upplýst er, að mikið af þessu hefur ekki verið greitt enn; hefur það ef til vill ekki mikla þýðingu. En það hefur hins vegar miklu þýðingu, að þær framkvæmdir, sem eftir eru, verði afhentar bjargráðasjóði. Ég sé ekki, að það sé ástæða til annars en að gera það, sem till. á þskj. 97 fer inn á, að sjóðurinn yfirtaki lánið og ríkissjóður ábyrgist það. Ætlazt er til, að því sé varið til þessara framkvæmda. Úthlutun fjárins fari eftir fyrirmælum laganna, en þó gengið til móts við ráðh. þannig, að engu sé breytt nema með hans samþykki. Fengist t.d. samkomulag við ráðh. til að breyta til batnaðar, ef sjóðsstjórnin fyndi eitthvað, sem breyta þarf; en ég skil ekki andstöðu ráðh. og vænti, að bæði hann og hv. nefnd endurskoði afstöðu sína. Ég vænti þess, að brtt. á þskj. 97 verði samþykkt.