19.10.1950
Neðri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (3383)

14. mál, gengisskráning o.fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða um þetta frv. á þessu stigi málsins, þar sem um það verður ýtarlega rætt, áður en lýkur. Ég vil aðeins leyfa mér að beina nokkrum fyrirspurnum til hv. frsm. Mig langar að spyrja hv. þm.: Var ekki verðlagsvísitalan komin um 50 stig fram úr kaupgjaldsvísitölunni, áður en gengislækkunarlögin voru sett? Og var hún ekki bundin við 300 stig, áður en gengislögin voru sett, og lögákveðin með atbeina og undir forsæti Alþfl.? Í þriðja lagi vildi ég spyrja: Var ekki Alþfl. mörg þing á móti því að fella bindingu kaupgjaldsvísitölunnar, þegar kommúnistar fluttu um það frv.? Voru þeir ekki alltaf á móti þessu, meðan Alþfl. var stjórnarflokkur, þó að framfærsluvísitalan hækkaði stöðugt? — Í fjórða lagi vildi ég spyrja: Er það ný afstaða Alþfl. vegna breytts viðhorfs til þjóðfélagsins frá því, þegar flokkurinn studdi stjórn, eða er það af því, að flokkurinn er ekki stjórnarflokkur nú?

Mér finnst þetta góður inngangur að frekari umr. um þetta mál.