19.10.1950
Neðri deild: 5. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (3385)

14. mál, gengisskráning o.fl.

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Hæstv. ráðh. segir, að þetta frv. mundi eyðileggja afleiðingar og áhrif gengislækkunarlaganna. Ég fæ ekki betur séð en það hafi þegar komið í ljós, að 1. koma ekki að því gagni, sem spáð var, svo að þar er ekkert að eyðileggja.

Hæstv. ráðh. segir einnig, að vegna þess að verðhækkanirnar hafi orðið meiri en gert var ráð fyrir, sé nauðsynlegt að binda kaupgjaldið nokkurn tíma. Það, sem gerzt hefur, er, að tekið hefur verið aftur loforð, sem gefið var, þegar gengislögin voru sett. Þá var því hiklaust og skilyrðislaust heitið, að launþegar skyldu fá fullar bætur fyrir þær verðhækkanir, sem sigldu í kjölfar laganna. Þá var aldrei haft orð á því, að ef verðhækkanir yrðu meiri en þá var spáð, þá yrðu launþegarnir að sætta sig við að fá ekki fullar uppbætur. Launþegasamtökin hafa treyst því, að verðhækkanirnar yrðu ekki meiri en spáð var, og það hefur átt sinn þátt i, að þau hafa sýnt fyllsta þegnskap í launapólitík sinni. Það er því hart að heyra það frá hæstv. ríkisstj., að engu máli skipti, hvað verðhækkanirnar verði miklar. Það komi ekki til mála, að launþegarnir fái þær bættar.

Hv. 5. þm. Reykv. beindi til mín nokkrum fyrirspurnum, í fyrsta lagi, hvort það væri ekki rétt, að verðlagsvísitalan hefði verið komin allmikið upp fyrir kaupgjaldsvísitöluna, þegar Alþfl. hafði forsæti í ríkisstj. Það er rétt. Það er einnig rétt, að Alþfl. fylgdi því á sínum tíma, að vísitalan væri bundin við 300 stig, en það var eitt ákvæðið í dýrtíðarlögunum frá 1948. Ég vil hins vegar benda á, að ákvæðið um, að kaupgjaldsvísitalan væri bundin við 300 stig, var einn liður í víðtækum ráðstöfunum, sem gerðar voru 1948, er dýrtíðarlögin voru sett. Þeim var ætlað að koma í veg fyrir, að gengisfall yrði á íslenzku krónunni. Ástæðan til þess, að Alþfl. féllst þá á eða sætti sig við, að kaupgjaldið væri bundið við 300 stig, var sú, að hann var með því að reyna að koma í veg fyrir gengislækkun. Ég vil í því sambandi einnig benda á, að launþegasamtökin í landinu, sérstaklega Alþýðusambandið, studdu þessi lög, vegna þess að þau töldu þau beztu leiðina út úr þeim erfiðleikum, sem þá var við að etja. Þessu var ekki til að dreifa við setningu gengislækkunarlaganna s. 1. vor. Þau voru sett að flestu leyti í andstöðu við launþegasamtökin, sérstaklega Alþýðusambandið. Þetta eru nægileg svör við því, hvers vegna alþýðusamtökin gátu sætt sig við bindingu kaupgjaldsvísitölunnar, þó að þau gætu ekki sætt sig við þá leið, sem valin var með gengisbreytingunni s. l. vor.

Hv. 3. þm. Reykv. ræddi allrækilega um þau áhrif, sem kaupgjaldshækkun hefði á kjör launþega. Ég er honum sammála um, að það er engan veginn æskilegasta leiðin til að ná bættum kjörum, að launþegar hækki peningatekjur sínar. Þetta hefur mér alla tíð verið ljóst, og ég vil ekki halda því fram, að það sé eina færa leiðin til bættra kjara að hækka peningatekjur og krefjast sífellt hærra kaupgjalds. Mér er óhætt að fullyrða, að þessi mál hafi mætt fullum skilningi hjá launþegasamtökunum, bæði hjá alþýðusamtökunum og BSRB, því að þau hafa ekki beitt sér fyrir almennum grunnkaupshækkunum þrátt fyrir setningu gengislaganna s. l. vor. En þó að það sé játað, að skilyrði launastéttanna til að bæta kjör sín með kauphækkunum séu takmörkuð, þá verður samt að gera sér ljóst, að nokkrar kjarabætur verða alltaf af slíku. Það þarf sérstakar aðstæður, sem ekki eru hér fyrir hendi, til að launahækkanir komi ekki að gagni. Hitt er rétt, að 10% kauphækkun þýðir ekki 10% kjarabætur, en hún getur þýtt 2–3% kjarabætur. Það má segja, að ef til vill hefði verið æskilegra að fara aðra leið, en aðstæður geta verið þannig, að ekki sé um aðra leið að velja, og það á við nú. Ég endurtek það því, að þessi leið getur verið sársaukafull, en sé engin önnur leið fær, verður að fara hana.

Í framhaldi af því, sem ræðumenn hafa vikið að afstöðu Alþýðuflokksins til gengislækkunarinnar í vor, vil ég segja það, að eins og komið hefur fram hjá þm. flokksins og í nál. hans í vor, lagði hann höfuðáherzlu á, að nauðsyn bæri til að gera einnig aðrar ráðstafanir, þegar gengislækkun væri framkvæmd. Það var bent á það af forsvarsmönnum gengislækkunarinnar, að mikið jafnvægisleysi ríkti í fjármálum þjóðarinnar, en það var bent á það af hálfu Alþfl., að svo væri einnig í félagsmálum þjóðarinnar. Gengi á auðvitað ekki að vera neitt „tabú“, þannig, að því megi aldrei breyta. Gengi er verð, — verð, sem hefur víðtæk áhrif, m. a. á tekjuskiptinguna í landinu og á hana fyrst og fremst, þó að það hafi einhver áhrif á þjóðartekjurnar. Það er algert innanlandsmál, hvernig gengið er skráð. Og vegna þess, að það hefur fyrst og fremst áhrif á tekjuskiptinguna í landinu, þarf að gera tekjubreytingarráðstafanir, ef gengisbreyting á að vera réttlát. Sú endurskipting á þjóðartekjunum, sem var gerð með gengisbreytingunni í vor, er ranglát, og tekjuaukning sú, sem falla átti sjávarútveginum í skaut, verður sumpart tekin af þeim, sem ekki mega við slíku, en það hefur mikil áhrif á alla framkvæmd þessara laga, hvaðan tekjuaukningin er tekin. Slíkar ráðstafanir voru vanræktar af stjórnarflokkunum á s. l. vori. Það var þetta, sem Alþfl. fann frv. einkum til foráttu. Og það var þess vegna, sem það kom að jafnlitlu gagni og rann ber vitni. Ef gerður er samanburður á gengisbreytingunni 1939 og 1950, kemur það í ljós, að 1939 voru gerðar sérstakar tekjujöfnunarráðstafanir jafnframt gengislækkuninni, en það var algerlega vanrækt s. l. vor. Ég endurtek, að það var höfuðgallinn á gengisbreytingunni í vor og aðalorsökin til, að hún mætti jafnmikilli andúð og hún gerði. En gengisbreytingin 1939 var gerð með fullum stuðningi alþýðusamtakanna í landinu, og þá var allt gert til þess, að byrðarnar dreifðust sem réttlátlegast. En í vor tókst ekki að sannfæra Alþfl. og launþegana um, að svo yrði. Þess vegna varð Alþfl. að beita sér fyrir ráðstöfunum til að reyna að vernda kjör þeirra. Þegar stjórnarflokkarnir ítreka, að gengisbreytingin í vor hafi verið nauðsyn, og spyrja, hvað Alþfl. hafi viljað gera, þá má spyrja þá nú, þegar augljóst er, að gengislækkunin hefur ekki náð tilgangi sínum, hvað þeir ætli að gera. Er tilætlun hæstv. ríkisstj. að halda áfram á gengislækkunarbrautinni, og ef svo er, ætlar hún þá að halda áfram á henni á sama hátt og á s. l. vori?