02.11.1950
Efri deild: 13. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

24. mál, aðstoð til bænda á óþurrkasvæðunum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Ég tel ekki, að ástæða sé að eyða löngum tíma í þetta mál, þar sem allir eru sammála, bæði í nefndinni og í deildinni, að þörf hafi verið á þeirri hjálp, sem veitt var. Þetta er höfuðatriði málsins. Ekki er það dregið í efa, að þessari hjálp sé sanngjarnlega niður skipt. Bezti mælikvarðinn á ástandið á þessum stöðum er, að nú eru bændur hér sunnanlands og á öðrum stöðum, þar sem sæmilegt fékkst af heyi, að bæta við þessa hjálp ríkisstj. Þessir stéttarbræður fylgjast fullkomlega með þessum málum, og þetta kom ljóslega fram á fundi bændasamtakanna að Kirkjubæjarklaustri, að veita bæri þessa hjálp. Þetta finnst mér aðalatriði málsins, að ekki varð komizt hjá að hlaupa undir bagga, og að þessari hjálp er réttlátlega úthlutað.

Já, ágreiningurinn er um leiðir, ég vil segja form. Því er haldið fram af hv. þm. Barð., að þetta ætti að gerast gegnum bjargráðasjóð, og þeirri stefnu hélt hann fram við 1. umr. og setur það nú fram í sérstakri till., en það breytir engum niðurstöðum né því, sem gert hefur verið. Að þessu leyti skal það þegar sagt og það þakkað, að það er hvorki ráðizt af meiri né minni hlutanum að úthlutuninni. En aðalatriði í till. hv. þm. er, að bjargráðasjóður inni verkið af hendi, sem ríkisstj. og tveir menn, sem hún hefur tilnefnt, hafa gert. Ég færði rök að því, að ómögulegt var að koma þessu þannig fyrir, og vil ég benda á það, að 2 kr. í stað 25 aura er ekki eins stórkostlegt og sagt hefur verið. Það eru ekki miklar tekjur, þó a$ lagðar séu fram 2 kr. á mann og ríkissjóður leggi annað eins á móti.

Undanfarið hafa verið gerðar ráðstafanir með, ég hygg 5 síldarkreppulán, og samkv. lögum hefur bjargráðasjóður átt að hlaupa undir bagga. Og eins og lögin hafa verið, hefur þessu verið þannig varið, því að í 11. gr. stendur, að bjargráðasjóður skuli bæta að einhverju leyti tjón af langvarandi aflaleysi. Hann ætti að hlaupa undir bagga á Siglufirði og Ísafirði og fleiri stöðum í hallærum. En peningarnir eru ekki fyrir hendi. — Það getur vel verið, að það skipti einhverju máli, að þetta form sé haft, en ég get ekki séð, að það skipti neinu máli. Það skal játað, að í sumar, þegar fyrirsjáanlegt var, að bændur á óþurrkasvæðunum mundu lenda í heyþröng, hefði mátt kalla á skrifstofustjóra félmrn., sem er form. bjargráðasjóðs, og biðja sjóðsstj. að annast athugun á ástandinu í þessum héruðum. En það stendur í l. um bjargráðasjóð, að stjórn hans skuli fylgjast með, ef hallærishætta sé yfirvofandi og fram undan. Sjóðsstj. lét ríkisstj. ekkert heyra frá sér um málið, enda hefur hún sjálfsagt séð, að sjóðurinn mundi ekki hafa neina fjármuni til að inna af hendi greiðslur í þessu skyni. Gangur málsins var því sá, að búnaðarmálastjóri ritaði ríkisstj. um það, og hún tekur málið upp og sendir þessa tvo trúnaðarmenn sína til þess að rannsaka það, án þess að hugsa nákvæmlega fyrir því, hvernig næstu skref yrðu tekin. Þessir menn skila skýrslum um niðurstöður sínar, og stjórn búnaðarsambandanna er beðin að athuga þær og fellst á, að ekki geti verið um minni aðstoð að ræða. Þegar ríkisstj. fær svo skýrslurnar frá þessum aðilum, mátti hún ekki draga lengur en í 3 eða 4 daga að taka sínar ákvarðanir, þar sem bændum á þessum svæðum var nauðsynlegt að fá vitneskju um í tæka tíð, hverrar aðstoðar þeir mættu vænta frá því opinbera. En þá kemur spurningin um það, hvort ríkisstj. hefði átt að láta stjórn bjargráðasjóðs annast framkvæmd aðstoðarinnar og úthlutun á þessu fé, sem ríkissjóður hefði tekið að láni eða ábyrgzt. Ég sé ekki ástæðu til að hafa langar umræður á Alþ. um þessi tvö form, því að fyrirsjáanlegt var, að þótt sú leið hefði verið farin, sem ég var að benda á að hefði mátt fara, þá er bjargráðasjóður ekkert annað en formlegur aðili í þessu máli, þar sem hann hefur enga getu til að inna þessar greiðslur af hendi. Þegar talað er um, að þetta veiki bjargráðasjóð, vil ég aftur minnast á, hvernig tekna til hans skuli aflað. Í 3. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Bjargráðasjó$inn skal styrkja á hverju ári með tillagi úr ríkissjóði, er nemi 2 krónum fyrir hvern mann.“ Og í 2. gr. stendur: „Hvert sveitarfélag á landi hér skal á ári hverju greiða iðgjald í bjargráðasjóð, 2 krónur fyrir hvern mann.“ Síðan ákveður 14. gr., að taki sjóðurinn lán, skuli það greiðast af tekjum sjóðsins, svo sem segir í gr., með leyfi hæstv. forseta: „... og er þá ríkisstj. heimilt að ábyrgjast nauðsynleg lán fyrir bjargráðasjóðinn eða veita honum lán úr ríkissjóði, ef fé er þar fyrir hendi, en slík bráðabirgðalán ber bjargráðasjóði að endurgreiða af tekjum sínum, enda séu eignir sjóðsins og tekjur að veði fyrir bráðabirgðalánum þessum.“ Það er því bersýnilegt, að ef bjargráðasjóði hefði nú verið veitt þetta lán og þar sem kunnugt er, að hann lánaði fé vegna vorharðindanna 1999, hefði sjóðurinn orðið óstarfhæfur a.m.k. næstu 10 ár, meðan hann væri að vinna upp þessi skakkaföll. Ég veit því ekki, hversu mikill greiði það væri við bjargráðasjóð, ef við færum nú að lögvernda að afhenda honum þetta fé, um leið og við legðum á hann þær kvaðir, að tekjum hans skuli varið til að endurgreiða þessa peninga, sem tæki hann a.m.k. 10 ár að vinna upp. — Ég vil taka það fram, að bæði hv. meiri og minni hl. fjhn. hafa tekið þannig á þessu máli, að það raskar raunverulega engu í því, sem gert hefur verið, enda álít ég að það hafi verið gert af þeirri sanngirni, sem nauðsynleg er, þegar slík hjálp er veitt.