20.10.1950
Neðri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (3394)

17. mál, vegalagabreyting

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er nú engin nýlunda, að frv. um breyt. á vegal. sé flutt. Hv. þm. kannast við þetta mál mjög vel. Ég flyt þetta frv. um breyt. á vegal. að þessu sinni vegna þess, að fram hjá því verður ekki komizt, ef framhald á að verða á gerð þjóðvega í Norður-Ísafjarðarsýslu, að taka nokkra nýja vegi upp í þjóðvegatölu. Það hefur verið unnið að því undanfarin ár að skapa akvegasamband milli sjávarþorpanna við Ísafjarðardjúp, og er því nú að mestu lokið, en þá er vegamálum héraðsins þannig háttað, að sveitir þessar mega heita algerlega vegalausar, þannig að það er einn sveitahreppur, sem þjóðvegarspotti getur heitið til. Nú er það þannig, að að vísu eru nokkrir fleiri þjóðvegir til á vegalögum í þessu héraði, en þrátt fyrir það verður vegaframkvæmdum ekki haldið áfram eins og þörf héraðsins fyrst og fremst krefur, án þess að nýir vegir um sveitir þessar séu teknir í þjóðvegatölu. Það er þess vegna óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því, að samgöngubótum í héraðinu verði haldið áfram, að nokkrir þessir vegir, sem ég flyt hér till. um, að teknir verði í þjóðvegatölu, verði samþykktir sem nýir þjóðvegir á þessu þingi, áður en fjárl. fyrir næsta ár verða samþykkt.

Ég hirði ekki um að færa frekari rök fyrir þessu máli. Það liggur í augum uppi, að þetta hérað getur ekki frekar en önnur verið án vega um sínar sveitir. Að vísu hefur það lengi haft þá sérstöðu að njóta sæmilegra samgangna á sjó, en nútíminn krefst meira, — bættra samgangna á landi vegna bæði atvinnulegra og félagslegra framkvæmda. Ég ætla þess vegna, að þessu máli verði vel tekið. Ég vil láta í ljós þá skoðun, að það sé óhjákvæmileg nauðsyn að opna vegal. og fá þeim breytt, þó að ekki sé nema vegna þessa eina héraðs, en ég sé, að ýmsir þm. hafa flutt hér fjölda brtt., og veit ég, að nauðsyn mun bera til að fá þær samþ. — Ég vænti þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og samgmn.