26.02.1951
Sameinað þing: 47. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður)

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Hæstv. forsrh. sagði, að þeir hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, og hv. þm. Brynjólfur Bjarnason hefðu verið tvö ár í stjórn og lagt dyggilega grundvöllinn að núverandi örðugleikum þjóðarinnar. Ég ætla ekki að gera eldhús að hæstv. forsrh., né heldur ætla ég að verja allar gerðir nýsköpunarstjórnarinnar og sízt þeirra Brynjólfs Bjarnasonar og Áka Jakobssonar. En mér þykir óviðeigandi að jafnágætur maður og hæstv. forsrh. skuli ráðast á þessa tvo þm. einmitt fyrir það, sem þeir skást hafa gert. Og það vil ég segja hæstv. forsrh. í bezta bróðerni, að enn hefur engri ríkisstj. á Íslandi tekizt að tryggja betur hag þjóðarinnar en einmitt nýsköpunarstjórninni. Býð ég honum svo á ný fulla sætt og legg til, að við reynum í sameiningu að gera núverandi stjórn nýsköpunarstjórninni meiri og fremri.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. Brynjólfi Bjarnasyni.

Ef útflutningsverzlunin hefði verið gefin frjáls, hefði ekkert annað þurft að gera fyrir útveginn. Þess vegna báru sósíalistar fram frv. um að leysa böndin af útflutningsverzluninni,“ sagði hv. þm. Brynjólfur Bjarnason áðan. Ónei, það var ekki þess vegna. Ástæðan til þess, að kommúnistar vilja nú ólmir fá sem mest frelsi til að verzla með útflutningsafurðir, er allt önnur. Ástæðan er sú, að kommúnistum mun hafa tekizt að tryggja það, að íslenzk stjórnarvöld nái ekki milliríkjasamningum við löndin austan járntjaldsins. Jafnframt mun kommúnistum hafa tekizt að tryggja eigin fyrirtækjum sínum sérréttindi til þess að selja íslenzkar vörur í þessum löndum. Kommúnistar munu hins vegar hafa rekið sig á, að samtök íslenzkra framleiðenda ern ekkert ginnkeypt fyrir því að gera framleiðsluvörur sínar að tekjulið kommúnista á Íslandi. Af þessu sprettur áhugi kommúnista á því að brjóta niður sölusamtök útvegsmanna, í þeirri von, að þá hrjóti einhverjir molar í þeirra flokkssjóð.

Ég tel útvegsmönnum nauðsyn að efla samtök sín og samsölu. En vilji útvegsmenn sjálfir hafa aðra skínan þeirra mála, mun ég ekki standa gegn því, heldur láta þá sjálfa ráða þessu mikla hagsmunamáli sínu.

Við, sem sæti eigum á Alþ., bjuggumst ekki við að heyra neitt nýtt af vörum stjórnarandstæðinga hér í kvöld og erum þess vegna alls ekkert vonsviknir, þótt okkur hafi verið skammtaður sami grauturinn í sömu skálinni og venjulega. Við höfum heyrt þessar sömu staðhæfingar óteljandi sinnum áður, hrekjum þær einstaka sinnum, en virðum þær að sjálfsögðu sjaldnast svars, svo að ekki eyðist óhóflegur tími í óhagnýtt karp. Hér mun þó þykja skylt að gera afvik frá venjunni vegna þeirra háttvirtu hlustenda, sem síður eru hnútunum kunnugir, og skal ég ekki víkjast undan þeirri skyldu. Vegna ýmissa staðhæfinga þeirra hv. 3. og hv. 6. landsk., tveggja Alþýðuflokksmanna, skulum við aðeins líta um öxl.

Sem kunnugt er lét stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar af völdum í desembermánuði 1949. Sú stjórn hafði neyðzt til þess að leggja 100 millj. kr. nýrra árlegra skatta á þjóðina. Greiðsluhalli ríkissjóðs hafði samt sem áður orðið um 60 millj. kr. á ári þrjú valdaár hennar. Og þrátt fyrir virðingarverða viðleitni til að stöðva kaupgjaldið í því skyni að hindra vöxt verðbólgunnar hafði það þó víðast hækkað um 20–30%, og allt upp í 42%, en ákvæðisvinna hafði hækkað um 32–63%. Þegar hér var komið, báru svo útvegsmenn fram kröfur í árslok 1949 um aðstoð, er hefði þyngt skattabyrði almennings um 100 milli. kr. á ári, og var þá ekkert ætlað fyrir því verðfalli afurðanna, er síðar kom í ljós, né heldur til að leysa þarfir togaranna og síldarútvegsins. Við það bættist svo, að ef enn átti að halda áfram á sömu braut, varð ekki hjá því komizt að leggja á nýja skatta til þess að jafna áðurnefndan greiðsluhalla undanfarinna ára. Valið stóð því á milli þess að leggja um 200 millj. kr. nýja skatta á þjóðina eða leggja inn á nýjar leiðir í efnahagsmálunum.

Það var minnihlutastjórn Sjálfstfl., sem mynduð hafði verið í byrjun desembermánaðar 1949, sem hreppti það vandasama hlutskipti að höggva á hnútinn. Hún gerði sér ljóst, að þess var enginn kostur að leggja 200 millj. kr. nýja skatta á þjóðina, og eftir að hafa grannskoðað öll þau úrræði, er til greina gátu komið, kvað hún upp úr um það, að um ekkert væri að velja annað en gengisfellingu. Bjó hún þá út og lagði fyrir Alþingi frv. þess efnis, ásamt ýtarlegri grg., sem þeir dr. Benjamín Eiríksson og prófessor Ólafur Björnsson höfðu samið, en þessir tveir ágætu sérfræðingar á sviði hagfræðinnar höfðu, sem kunnugt er, verið ráðunautar stjórnar Sjálfstfl. í málinu, allt frá því hún tók við völdum.

Eftir að minnihlutastjórn Sjálfstfl. hafði lagt frumvarp sitt fyrir Alþingi, samþykkti þingið vantraust á hana. Sagði hún þá tafarlaust af sér, en síðan var núverandi stjórn mynduð. Höfuðstefna hennar var sú að samþykkja fyrr nefnt frv. sjálfstæðismanna með minni háttar breytingum, til þess með því móti að freista þess, að auðið yrði að gefa verzlun landsmanna frjálsa og að tryggja það, að aðalatvinnuvegir þjóðarinnar yrðu reknir styrkja- og hallalaust í meðaláferði, svo að með þessum hætti gæti skapazt jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Stj. hefur með einurð og festu fylgt yfirlýstri stefnu sinni. Á vegi hennar hafa orðið margvíslegir örðugleikar, sumir ófyrirsjáanlegir, svo sem aflabresturinn, verðfall afurðanna og langvarandi vinnustöðvanir. Hafa þessir atburðir leitt til þess, að enn hafa eigi fyllilega rætzt þær vonir, er við gengisfellinguna voru bundnar. Hefur þó margt breytzt til bóta frá því, sem áður var, svo að þeim, er bezt skil kunna á þessum málum, þykir sæmilega horfa, að fljótt muni úr rætast, ef óhöppum og sjálfskaparvítum fækkar.

Þá hefur stjórnarliðið afgreitt tvenn fjárlög með varfærni, einkum hin síðari, þ. e. a. s. fjárlög yfirstandandi árs. Mætti vel svo fara, að tekjuafgangur yrði ríflegur, ef sæmilega árar, en slík afgreiðsla fjárl. er, ásamt hóflegri útlánastarfsemi bankanna og þar af leiðandi takmarkaðri fjárfestingu, grundvallarskilyrði þess, að tekið verði fyrir myndun nýrrar dýrtíðar í landinu.

Gagnrýnin á ríkisstj. hefur nær eingöngu staðið í beinu eða óbeinu sambandi við gengislækkunina. En sú gagnrýni hefur verið máttlaus og raunar brosleg, einfaldlega vegna þess, að andstæðingarnir stóðu sjálfir ráðþrota og máttvana. Þeir áttu sér engin úrræði og voru jafnvel svo aumir, að þeir áttu sér heldur engar óskir aðrar en þær, ýmist að draga sig út úr stjórnmálunum eða að koma á sem allra mestum glundroða í því skyni að afla sér pólitísks fylgis með því. Vilji menn fá alveg ótvíræða sönnun um, að stjórnarandstæðingar stóðu uppi algerlega úrræðalausir og að gagnrýni þeirra gegn gengisfellingunni þess vegna er marklaus og alvörulaus hégómi, nægir að minna á, að enginn þeirra hefur bent á gjaldstofn, sem nægi fyrir einum tíunda hluta þess fjár, sem afla hefði þurft ríkissjóði, ef gengið hefði ekki verið fellt, hvað þá meira. En án skatta og án gengisbreytingar hefði fiskverðið orðið 40–45 aurar, eða minna en helmingur þess verðs, sem allir þó nú viðurkenna að útgerðin þarfnist, ef eðlilegar vonir eiga að standa til hallalauss rekstrar. Svona augljósan sannleika þarf ekki að ræða, af því að allir skilja hann.

Án alls efa var stefnt rétt með gengislögunum. Á grundvelli þeirrar löggjafar verður byggt í efnahagsmálum þjóðarinnar í framtíðinni. Hitt er svo rétt, að lög þessi voru hvorki né eru allra meina bót. Vandinn á sviði efnahagsmálanna verður ekki leystur í eitt skipti fyrir öll. Stöðugt skapast ný viðfangsefni og vandamál, sem ævinlega þarf við að glíma og fram úr að ráða, eftir þeim leiðum, sem hverju sinni þykja líklegastar. En þetta raskar ekki því, að öll er málfærsla stjórnarandstæðinganna í þessum efnum svo aum, að hún er þeim sjálfum til minnkunar og móðgun við heilbrigða dómgreind þjóðarinnar.

Að sjálfsögðu hefur ríkisstj. þurft að fást við mörg vandamál. Það þurfa ríkisstjórnir allra landa ævinlega að gera og þá ekki sízt á þessum alvörutímum. Og auðvitað hefur aflaleysið, verkföllin, verðfall útflutningsafurðanna og hækkað verðlag aðkeyptra nauðsynja fremur aukið vandann en minnkað. Með elju hefur verið reynt að ráða fram úr örðugleikunum, og held ég, að það hafi tekizt eftir vonum. Nú síðast var glímt við vandamál bátaútvegsins, þar til loks var höggvið á þann hnút. Kann að vera, að einhverjum þyki sem nærri hafi verið vegið sínum hagsmunum. En hvort tveggja er, að ekki var kostur neins þess úrræðis, er öllum að óreyndu hefði fallið við og nægt hefði til að ýta bátunum úr vör, sem og hitt, að e. t. v. ofmeta menn sín eigin óþægindi af því, sem að var horfið.

Mér þykir hlýða að skýra þessi mál nokkru nánar, einnig vegna þess, að sem atvmrh. hef ég mest um þau fjallað fyrir hönd ríkisstj., þótt allar meiri háttar ákvarðanir í þeim sem öðrum stórmálum séu að sjálfsögðu teknar af allri stjórninni.

Ég þarf engar sönnur á það að færa, að eigi varð hjá því komizt að rétta hag bátaútvegsins með einum hætti eða öðrum, vegna þess að það viðurkenna allir. Ástæðan til þessa er fyrst og fremst sú, að aðkeyptar nauðsynjar útvegsins hafa hækkað geysilega í verði á erlendum markaði á síðasta ári, en fiskverðið hækkaði ekki á árinu 1950, heldur lækkaði. Sjá allir, að slíkt verzlunarárferði getur ekki stýrt góðri lukku. Ofan á þetta bættist svo sjötta síldarleysisárið fyrir Norðurlandi, en fjárhagur útvegsmanna, sem kunnugt er, löngu orðinn svo þröngur, að þeir geta ekki af eigin rammleik mætt slíkum áföllum. Það er auk þess staðreynd, sem eigi tjáir að dylja sig, hversu erfitt viðfangs sem það mál er, að hlutaskiptin á bátunum eru orðin slík, að varla er þess að vænta, að þorri bátanna beri sig á þorskveiðum, nema útgerðin fái annað tveggja, beinan styrk úr ríkissjóði til niðurgreiðslu á einhverjum þeim útgjöldum, sem hvíla á útgerðinni einni, eða þá hærra verð fyrir aflann en sjómenn telja sig þurfa eða gera kröfur til. Alþ. hefur þá einnig á undanförnum árum viðurkennt þetta sjónarmið í löggjöfinni um þessi efni.

Við þetta er svo því að bæta, að sjómenn hafa enga kauphækkun fengið á árinu 1950, en aðrar launastéttir í landinu yfirleitt 23% hækkun, eða sumar jafnvel eitthvað meira, og töldu þó margir, að sjómenn byggju við skarðan hlut fyrir, þótt þar um valdi að sönnu mest eða eingöngu aflaleysi. Vegna sjómanna varð því að hækka fiskverðið mikið frá fyrra árs verði, en auk þess þarf útgerðin, svo sem áður sagði, hærra verð, ef ekki á að stefna vísvitandi út í augljósa ófæru. Útvegsmenn hafa nú ákveðið að ábyrgjast sjómönnum 96 aura fyrir þorskkílóið, en 105 aura fyrir ýsu, miðað við slægðan fisk með haus. En í fyrra var eitt og sama verð fyrir þessar fisktegundir, þ. e. a. s. 75 aura kílóið, eða jafnvel lægra á stöku stað. Sé gert ráð fyrir, að hraðfrystihúsin og saltfiskkaupmenn geti og vilji greiða fyrir fiskinn sama verð og í fyrra, sem margir þeirra þó mæla gegn, hefði þurft um 300 millj. kr. úr ríkissjóði til að jafna þennan mismun, og er þá eftir að rétta hlut útvegsins, en útvegsmenn telja, að til þess mundi þurfa mikið fé.

Það, sem fyrir lá, var nú, eftir hvaða leiðum átti að aðstoða útveginn. Ég skal ekki ræða hér, hvort alþm. hefði verið geðþekkt að leggja enn nýja skatta á þjóðina, svo mörgum tugum millj. skipti, til þess að standa undir útgjöldum ríkissjóðs af beinum styrkjum til útvegsins. Hitt er víst, að útvegsmönnum og sjómönnum voru slík úrræði afar ógeðfelld. Þeir hafa, sem kunnugt er, tilhneigingu til að líta á sig sem eigendur þess gjaldeyris, sem þeir afla, og enda þótt færa megi rök með þeirri skoðun og móti, var ekki nema eðlilegt, að ríkisstj. leitaði fyrst og vandlegast að lausn vandans eftir þeim leiðum, sem þessum fjölmennu og nytsömu þjóðfélagsstéttum var geðþekkast, þ. e. a. s. með því að veita fiskframleiðendum fríðindi í sambandi við innflutning á vissum vörutegundum, sem keyptar verða fyrir nokkurn hluta þess gjaldeyris, sem fæst fyrir framleiðsluvöru bátaútvegsins. Ríkisstj. hefur nú tekizt að leysa málið á þessum grundvelli, og skal ég til frekari skýringar lesa hér upp þá yfirlýsingu, sem ég fyrir hönd ríkisstj. gaf á fundi í Sþ. í dag, varðandi þetta mál. Skýrsla ríkisstj. er svo hljóðandi:

„Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, hafa staðið yfir viðræður frá því í októbermánuði s. l. milli umboðsmanna ríkisstj. annars vegar og umboðsmanna útvegsins hins vegar, varðandi úrræði til þess að leysa þann vanda, sem að útveginum hefur steðjað vegna þess, að frá því að gengislögin voru sett í marzmánuði s.l., hefur verðlag á aðkeyptum nauðsynjum útvegsins stórhækkað á erlendum markaði, en fiskverðið hefur hins vegar ekki hækkað á árinu 1950, heldur lækkað.

Það yrði of langt mál að rekja hér sögu þessara löngu samningaumleitana eða þeirra rannsókna á hag og afkomu útvegsins, sem framkvæmdar hafa verið af ríkisstj. hálfu, enda þykir nægilegt að skýra frá því, að 24. jan. s. l. skrifaði ríkisstj. LÍÚ bréf, þar sem m. a. segir, að í því skyni og að því tilskildu, að takast megi að skapa það verðlag á afurðum bátaflotans, að eigendur hans telji sér fært að hefja útgerðina tafarlaust, sé ríkisstjórnin reiðubúin til þess að veita bátaútveginum sérréttindi í sambandi við innflutning á nokkrum vörutegundum. Skyldu þessi fríðindi ná til vöru, sem keypt yrði fyrir hálft andvirði framleiðsluvöru bátaflotans, að undanskildu þorskalýsi, síld og síldarafurðum.

Ríkisstj. tók það fram, að þessi fyrirheit væru því háð, að stj. tækist að fá til umráða nægjanlegan gjaldeyri, til þess að auðið yrði að auka til verulegra muna innflutning til landsins á mörgum öðrum vörum. Hafði stj. þá fyrst og fremst í huga nauðsynjar almennings og þar á meðal ýmsar þær vörur, sem skortur hefur verið á að undanförnu. Ætlaðist stjórnin til, að innflutningur þessara vörutegunda gæti orðið það mikill og frjáls, að hægt yrði að fullnægja eftirspurninni og einnig að safna nokkrum birgðum af þeim. — Loks hét stjórnin því, að ef ekki reyndist auðið að leysa vandamál bátaútvegsins með þessum hætti, mundi hún beita sér fyrir annarri lausn málsins. — Landssambandið brást mjög vel við þessu bréfi og skoraði á meðlimi sína að hefja tafarlaust veiðar. Gerðu menn það yfirleitt, aðrir en þeir, sem áttu í kaupdeilu, en þeir voru, sem kunnugt er, allmargir. Má því segja, að enga verulega stöðvun á rekstri bátanna hafi leitt af leit að úrræðum í þessu mikla vandamáli.

Eins og áður greinir, var það frumskilyrði þess, að ríkisstj. teldi sér fært að hníga að þeim ráðstöfunum bátaútveginum til framdráttar, sem um ræðir í nefndu bréfi, að henni tækist að tryggja nægilegt fé til stóraukins innflutnings á nauðsynjavörum til landsins. Hafa gengið miklar sagnir og mjög ýktar og villandi um, að ríkisstj. hefði í huga að taka stórlán erlendis, jafnvel 200–300 millj. kr. Hefur það og verið óspart látið í veðri vaka, að fyrir stj. vekti helzt að auka sem mest innflutning á óþarfri vöru. Allt er þetta mikill misskilningur. Hið sanna í málinu er þetta:

Aðstaða íslenzkra banka erlendis hefur batnað síðasta hálfa árið. Er þessi batnandi aðstaða út á við í samræmi við vonir þeirra manna, sem stóðu að gengisfellingunni og stefnu ríkisstj. í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Þessa bættu aðstöðu Íslands erlendis taldi ríkisstj. og ráðunautar hennar þó hvergi nærri traustan grundvöll undir stórvægilegri aukningu innflutnings á nauðsynjavörum, og var þess vegna álitið óhjákvæmilegt að leita annarra úrræða til frekara öryggis. Ríkisstj. sneri sér í því sambandi til ECA-stofnunarinnar í Washington og óskaði aðstoðar hennar í málinu. Niðurstaða þeirrar málaleitunar liggur nú fyrir þannig, að tekizt hefur að fá loforð um stóraukið beint framlag af Marshallfé á þessu ári. Enn fremur hefur ríkisstj. fengið vilyrði Bandaríkjanna um aukið framlag í Evrópugjaldeyri, sem greiðslubandalag Evrópu mundi þá inna af hendi. Loks hefur svo Ísland, svo sem kunnugt er, rétt til yfirdráttar hjá greiðslubandalagi Evrópu, sem hægt er að notfæra sér, ef ríkisstj. telur það nauðsynlegt og ráðlegt. Fær Ísland þannig til umráða mikinn erlendan gjaldeyri því til tryggingar, að hægt verði að auka til verulegra muna vöruinnflutning til landsins. Er þá tryggður sá kjarni málsins, að stóraukinn verður innflutningur nauðsynja til landsins með auknu verzlunarfrelsi, öllum almenningi til verulegra hagsbóta, þótt enn sé ekki fastákveðin endanleg skipun þessara mála.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því, að megintilgangur Marshallhjálparinnar er sá, að skapa þeim þjóðum, sem hennar njóta, skilyrði til sjálfsbjargar með því fyrst og fremst að gera þeim kleift að efla atvinnurekstur sinn og koma honum á heilbrigðan grundvöll, til þess þannig að bæta afkomuskilyrði almennings. Hins vegar er ekki ætlað, að bein fjárframlög verði varanleg. Verður því að viðurkenna, að þessi framlög, þó að góð séu og af góðhug í té látin, munu reynast Íslandi lítils virði, ef þjóðin kann ekki fótum sínum forráð, en lætur glepja sér sýn og ginnast inn á háskabraut kaupstyrjaldar, sem að óbreyttum kringumstæðum hlýtur að verða almenningi til bölvunar.

Þar sem nú þannig ríkisstj. telur sig fá til umráða nægjanlegan erlendan gjaldeyri til fullnægingar þeim skilyrðum, sem hún í öndverðu setti fyrir því, að bátaútvegsmenn gætu öðlazt þau fríðindi, sem þeim með fyrr nefndu bréfi var heitið, hafa þeir nú, samkvæmt fyrirheiti bréfsins, öðlazt þessi fríðindi. Er bátaútveginum ætlað að hagnast á innflutningi sérstakra vörutegunda eða á sölu á innflutningsskírteinum sínum á þessum vörum. Hefur verið saminn sérstakur listi yfir þær og leitazt við að velja vörurnar þannig, að þær séu út af fyrir sig öllum æskilegar, en þó hefur verið reynt að sneiða hjá höfuðnauðsynjum almennings. Til kaupa á þessum vörum er ekki ætlazt til að varið verði öðrum gjaldeyri, að undanskildum þó sjómannagjaldeyrinum. Ríkisstj. áskilur sér samt sem áður rétt til þess að víkja frá því ákvæði, ef hún telur nauðsynlegt vegna breyttra aðstæðna. Vörur þær, sem inn verða fluttar gegn þessum skírteinum, verða ekki háðar verðlagseftirliti.

Þessu samkomulagi við útvegsmenn er ætlað að ná til framleiðslu ársins 1951. Hefur ríkisstj. engin fyrirheit gefið um, að það verði framlengt. Þvert á móti er það eindreginn ásetningur stj. að afnema þessa skipan svo skjótt sem auðið er, og vonar hún fastlega, að það megi takast, þegar nefndu samningstímabili lýkur.

Rétt þykir að skýra frá því, að þessi skipan hefur verið borin undir og samþykkt af stjórn alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en eins og menn vita, eru Íslendingar aðilar að sjóðnum.

Sérfræðingar stj. og útvegsmanna eru nú að ljúka við að semja reglur um framkvæmd þessa samkomulags, og verða þær mjög bráðlega birtar, ásamt lista yfir þær vörur, sem flytja má inn samkvæmt áður nefndum innflutningsskírteinum.“

Hér lýkur skýrslu stjórnarinnar.

Til frekari skýringar vil ég nú leyfa mér að nefna nokkrar vörutegundir, sem verða á hinum skilorðsbundna frílista, bátalistanum svo nefnda:

Matvæli: Ávextir, nýir, þurrkaðir og niðursoðnir. Grænmeti, nýtt, þurrkað og niðursoðið. Ávaxtasulta og saft. Sýróp og glykose. Krydd ýmiss konar. Kornvörur í pökkum.

Vefnaðarvara og fatnaður: Tilbúinn fatnaður. Vefnaður úr silki og gervisilki. Sokkar úr nylon, gervisilki o. þ. h. Hattar og húfur. Gólfteppi, dreglar og gólfmottur.

Byggingarvörur: Handlaugar, baðker o. þ. h. hreinlætistæki. Olíukyndingartæki. Saumur, skrúfur og boltar. Hurða- og gluggajárn, lásar, skrár, lamir. Gólfkork, vegg- og gólfflísar.

Hreinlætisvörur: Sápur, alls konar. Þvottaduft og sápuspænir. Snyrtivörur, svo sem andlitsduft, smyrsl o. þ. h. Skó- og gólfáburður, fægilögur o. þ. h. vörur. Toiletpappír.

Rafmagnsvörur: Ljósakrónur, stofulampar, vatnsþéttir lampar og vinnuljós. Alls konar rafmagnsheimilistæki, svo sem þvottavélar, ísskápar, hrærivélar, strauvélar, ryksugur, svo og önnur rafmagnsbúsáhöld. Enn fremur rafmagnseldavélar og ofnar.

Ýmsar vörur: Bifreiða- og flugvélavarahlutir, frostlögur. Reiðhjól og reiðhjólavarahlutir. Barnavagnar. Skrifstofu- og bókhaldsvélar. Vélar til tré- og járnsmiða. Blómlaukar, jólatré, hljóðfæri og músikvörur, úr, klukkur, silfur til smíða, ljósmyndavörur og íþróttavörur, spil, peninga- og skjalaskápar, rakvélar og rakvélablöð.

Af þessum vörum er ætlazt til að heimilt verði að kaupa eftirtaldar vörur gegn greiðslu í dollurum eða EPU-gjaldeyri, eftir því sem kaupandinn óskar:

Kornvörur í pökkum. Rafmagnskerti og rafútbúnað í bifreiðar. Snjókeðjur. Bifreiðahreyfla og aðra varahluti í bifreiðar. Flugvélamótora og varahluti. Frostlög og bremsuvökva. Sýróp og glykoce. Olíukyndingartæki. Skrifstofu- og bókhaldsvélar.

Allmikið hefur verið deilt á ríkisstj. fyrir þessar ráðstafanir, rétt eins og gerist og gengur. Verður að meta vilja stjórnarandstöðunnar fyrir verkið, því að aðstaðan til árása er erfið og geta þess vegna lítil. Það er aldrei sterk vígstaða að verða að viðurkenna, að brýn þörf sé nýrra úrræða til bjargar höfuðatvinnurekstri þjóðarinnar, ráðast svo á það, sem gert er, en hafa sjálfur ekkert jákvætt til málanna að leggja. Er því aðstaða stjórnarandstöðunnar í þessu velferðarmáli sjómanna og útvegsmanna og allra þeirra þúsunda og tugþúsunda Íslendinga, sem framfæri sitt hafa af bátaútveginum beint og óbeint, sannarlega bágborin.

Ef til vill er alvöruleysi stjórnarandstæðinga gert of hátt undir höfði með því að fara fleiri orðum um þetta mál. Samt sem áður þykir mér rétt að bæta nokkru við.

Kostir þeirra úrræða, sem til hefur verið gripið, eru fyrst og fremst þeir, að með þeim tókst að höggva á hnútinn. Vélbátarnir, sem legið höfðu í höfn, hófu veiðar. Í stað hins lamandi atvinnuleysis kom hið lifandi starf. Í stað skorts kom björg í bú þúsundanna. Valin var sú leiðin, sem sjómönnum og útvegsmönnum var geðþekkust, og loks voru engin önnur úrræði fyrir hendi, sem ekki fólu í sér stærri ágalla og fleiri ásteytingarsteina en sú leið, sem farin var. Má í því sambandi minna á fiskábyrgðina sælu, sem nýsköpunarstjórnin beitti sér fyrir í árslok 1946, með sérlega einlægum stuðningi kommúnistanna. Já, kommúnistarnir gátu verið einlægir á sínum duggarabandsárum, þótt sjaldan væru þeir ráðhollir. Þessi óheillaleið hlaut fylgi allra flokka, því að þá lét Framsfl. ekki standa á fylgi sínu við nýsköpunarstjórnina, þótt hann annars hefði enga ofurást á henni. Ég játa fúslega, að úr vöndu var að ráða í árslok 1946. Útgerðin hafði þá um langt árabil búið við ábyrgðarverð að því leyti, að ríkið seldi afurðirnar fyrir fram og menn áttu að vísu að ganga um flest annað en aflafenginn. Nú hafði þessum grundvelli snögglega verið kippt undan fótum útvegsins. Bátaútvegsmenn voru misjafnlega stæðir og treystust því ekki til að bæta áhættu verðlagsins ofan á misæri og aflabrest. Hins vegar höfðu margir aðrir efnazt vel og almenningur allur orðinn svo vel stæður, að auðvelt var að afla ríkissjóði tekna, ef með þyrfti. Frá þessu sjónarmiði þótti rétt að dreifa verðlagsáhættu þessa atvinnurekstrar á alla þjóðfélagsþegnana, enda áttu þeir allir mikið undir því, að hann stöðvaðist ekki. Þó var í öndverðu ekki ætlað, að ábyrgðir héldust til langframa, og skýrt tekið fram af þeim, sem fluttu málið, að ef ríkissjóður skaðaðist á ábyrgðinni, yrði a. m. k. að færa framleiðslukostnað niður, sem því næmi, ef til endurnýjunar kæmi. Síðar var þetta allt að engu haft, svo sem menn vita.

En enda þótt að þessum sjónarmiðum megi þannig færa allsterk rök, tjáir þó ekki að mæla því í gegn, að lagt var út á varhugaverða braut, það hefur reynslan sannað. Með þessu móti sagði Alþ. við útvegsmenn: „Þið skuluð bara hugsa um að afla, en þið þurfið hins vegar ekkert að hugsa um vörugæðin, fremur en ykkur hentar. Og afurðirnar megið þið selja eins aulalega og verkast vill, ríkissjóður borgar.“ Þetta gat varla góðri lukku stýrt og gerði það heldur ekki. Reynslan hefur sannað svo áþreifanlega ókosti þessara úrræða, að mig stórfurðaði, þegar ég heyrði hv. 3. landsk. (GÞG) lýsa því yfir sem stefnumáli Alþfl. að hverfa að fiskábyrgðinni á nýjan leik, eftir að núv. ríkisstj. tókst með gengisl. að létta þessum bagga af ríkissjóði og forða þjóðinni frá þeim örlögum, sem hennar hlutu að bíða, ef sjálfsbjargarviðleitnin og ábyrgðartilfinningin var til langframa að engu gerð í höfuðatvinnurekstri landsmanna. Allar yfirsjónir eru mannlegar. En sá, sem ekkert lærir af annarra og allra sízt þjóðarreynslunni, á ekki að vera að fást við að stýra málefnum heildarinnar. Miklu skárra og skaðminna hefði að sönnu verið að greiða vissar uppbætur á hvert fiskkíló, er á land var dregið, en láta útvegsmenn eftir sem áður eiga allt sitt undir vöruvöndun, dugnaði og fyrirhyggju í afurðasölunni og öðru slíku. En enn hef ég þó engan heyrt fallast á að leggja 40–50 millj. kr. nýja skatta á þjóðina í þessu skyni. Þessi leið, ef farin hefði verið, gat auk þess haft mjög hættulegar afleiðingar, sem ég ræði ekki að sinni. Fleiri úrræða var ekki völ, svo að mér sé kunnugt um.

Það hefur óspart verið reynt að sverta þessi bjargráð, og má vel vera, að þau reynist verr en þeir ætla, sem að þeim standa, og sjá menn þó á þeim ýmsa galla og örðugleika í framkvæmdinni. En eins og málið í heild blasir við þjóðinni, verður þó höfuðsjónarmiðið, auk þess að aflétt hefur verið stöðvun bátaflotans, að stóraukinn verður innflutningur til landsins á mjög mörgum nauðsynjavörum. En auk þess leiðir það af fríðindum sjávarútvegsins, að almenningi gefst nú kostur á að kaupa ýmsar vörur, sem hann fram að þessu hefur vanhagað um og saknað mikið. Og séu sagnirnar um svartamarkaðsbraskið ekki algerlega staðlausir stafir, þá ætti verðlag á þeim vörum ekki að hækka, heldur þvert á móti að lækka, a. m. k. hvað ýmsar þær tegundir áhrærir, sem almenningur áður aðeins hefur átt kost á að kaupa á þessum svarta markaði.

Rætist þær vonir, sem við þessa lausn málsins eru tengdar, verða þessi bjargráð þess vegna eigi aðeins útveginum til framdráttar, heldur einnig og engu síður öllum almenningi, sem um langt skeið hefur ýmist búið við vöruskort eða óhóflegt verð á ýmsum vörum. Hið aukna verzlunarfrelsi og stóraukinn innflutningur nauðsynja bætir úr vöruskorti og lækkar verðlag og er því mikilvægt hagsmunamál alls almennings í landinu.

Menn mega ekki gleyma því, að útvegsmenn geta ekki selt innflutningsskírteini sín við hvaða verði sem þeim þóknast. Verðið ákveðst ekki heldur eingöngu af kaupgetu þjóðarinnar, heldur einnig og engu síður af kaupviljanum. Hækki verð þeirrar vöru, sem inn er flutt samkvæmt þeim skírteinum, óeðlilega, samanborið við þau 85% af þörfum þjóðarinnar, sem inn verða flutt án þeirra, neita menn sér um dýru vöruna, en kaupa hina. Með því stöðvast sala skírteinanna, sem að sjálfsögðu aftur leiðir til verðfalls á þeim. Þetta vita útvegsmenn mætavel, m. a. frá umræðum málsins við ríkisstjórnina.

Það er þess vegna of snemmt fyrir stjórnarandstæðinga að fagna óvinsældum þessara úrræða. Enn er a. m. k. óséð, hvort þau reynast baggi eða léttir, a. m. k. þeim hluta þjóðarinnar, sem neitar sér um það, sem miður er nauðsynlegt. Og hitt er víst og áreiðanlegt, að fyrir allan almenning er þessi leið, sem farin hefur verið, miklu aðgengilegri og léttbærari en að taka á sig milljónatugi nýrra skatta, sem ella hefði með þurft, til þess að hindra þá þjóðarógæfu, sem leitt hefði af stöðvun bátaútvegsins.

Alveg sérstaka rækt hefur stjórnarandstaðan lagt við það að sýna verzlunarstéttinni, hversu grátt hún sé leikin með þessum aðgerðum. Ég er ekki alveg viss um, að allir kaupsýslumenn verði sammála um það. Flestir þeirra munu áreiðanlega fagna því að geta nú þjónað hagsmunum sínum og heildarinnar í senn, er þeim með auknu verzlunarfrelsi gefst færi á að neyta hagsýni sinnar, hygginda og atorku. En annars hafa hvorki kommúnistar né Alþýðuflokksmenn fram að þessu þótzt vera sérstakir málsvarar þessara manna, þó að þeim nú allt í einu, þegar á hólminn kemur, renni blóð til skyldunnar, hvað einhverja þeirra áhrærir, hvernig sem á því kann að standa. En sleppum því. Flestir kaupsýslumenn og þá ekki sízt þeir, sem oftast hafa gengið bónleiðir til búðar, — þeir, sem vanastir eru eyðublöðum fjárhagsráðs, sem á stendur „beiðni yðar er synjað“, fagna stórauknum innflutningi og mikilli raunhæfri rýmkun hins langþráða verzlunarfrelsis. Og þeir verða líka ófáir, sem gráta þurrum tárum, þótt þeir missi af ánægjunni af að sitja daglega í biðstofu valdhafanna, úr því að þeir geta nú flutt inn margvíslega vöru, sem ýmist hefur aðeins fengizt á svörtum markaði eða þeim sjálfum hefur a. m. k. án allrar undantekningar verið synjað um innflutningsleyfi fyrir, með því að kaupa innflutningsskírteini af einhverjum útvegsmannanna eða í þeirri samsölu, sem útvegsmenn sennilega stofnsetja til að sjá um trygga sölu skírteinanna við skynsamlegu verði.

Ég endurtek: Það er of snemmt fyrir andstæðinga að hrósa sigri yfir því, að bjargræðin, sjómönnum, útvegsmönnum, verkamönnum og raunar öllum þorra landsmanna til handa, verði óvinsæl.

Annars hef ég enga tilhneigingu til að fegra þessi úrræði. Þau eru þó án alls efa margfalt skárri en fiskábyrgðin gamla. Í rauninni eru þau líka gömul, og vil ég vegna yfirlýsingar hv. 3. landsk. þm., Gylfa Þ. Gíslasonar, og Hannibals Valdimarssonar á því, hversu vítaverðar þessar ráðstafanir séu, víkja nokkru nánar að þessu.

Það er sem sé aðeins verið að endurlífga hrognapeningana svo kölluðu. Þó geta menn treyst því, að skóli reynslunnar hafi nú sorfið agnúana af framkvæmdinni, enda var þess ekki vanþörf, jafnhörmulega og sú framkvæmd fór úr hendi. Hrognapeningarnir voru nefnilega réttur útvegsmönnum til handa til þess að flytja inn vissar vörur með stórauknu álagi og selja þessi innflutningsleyfi sérhverjum hæstbjóðanda, sem þeim sýndist, þ. e. a. s. nákvæmlega sami réttur sem útvegsmenn nú öðlast, með þeim skilsmun, að sú heimild, sem útvegsmenn þá fengu til álags á gjaldeyrinn, var í reyndinni full trygging fyrir sölu gjaldeyrisins með því álagi, en slíka tryggingu fá útvegsmenn nú ekki, og þá var þessi réttur fenginn milliliðunum, sem prófessorinn var að fordæma, en nú er þessi réttur afhentur fiskframleiðendunum.

Nú þætti kannske einhverjum háttvirtum hlustanda fróðlegt að vera minntur á, hvaða stjórn og hvaða ráðherra veitti útvegsmönnum fríðindi hinna svo nefndu hrognapeninga. Einkum mun lesendur Alþýðublaðsins fýsa að sjá dólgana dregna fyrir lög og dóm og væntanlega helzt hengda að leikslokum, svo skilmerkilega sem Alþýðublaðið hefur að undanförnu lýst arftaka hrognapeninganna, þ. e. a. s. úrræðum þeim, sem nú á að beita. „Hér hefur verið farin sú leiðin, sem háskalegust er.“ „Stjórnin hefur selt verzlun landsmanna á leigu, svipað og Danakonungar fyrr á öldum.“ „Búið er að færa bölvun hinnar gömlu einokunar yfir þjóðina að nýju,“ o. s. frv., svo að nokkur spakmæli blaðsins séu tilgreind. Ég skal ekki halda mönnum of lengi í spenningi þessarar getraunar né heldur heita útvarpshlustendum verðlaunum fyrir rétta ráðningu. Hefði þó sannarlega sá, er rétt getur, verðskuldað að eignast eina af hinum nýju bókum, sem nefnast „Hvað vill Alþýðuflokkurinn“, í verðlaun. Það var nefnilega einmitt þetta, sem Alþfl. vildi. Það var sem sé „fyrsta stjórn Alþfl.“ á Íslandi, stjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, sem gat af sér hrognapeningana svo kölluðu, sem nú aftur hafa getið af sér innflutningsskírteinin, þ. e. a. s. þá lausn, sem nú á að beita. Og það var ráðherra Alþfl., Emil Jónsson, sem um það gaf út reglurnar. Þá vita menn a. m. k., hvað Alþfl. vildi, þegar hann var í stjórn. Hvað hann svo vill í dag eða á morgun, það er aftur á móti sönn verðlaunaráðgáta. Annars vil ég geta þess, að ég nefni nafn Emils Jónssonar eingöngu vegna þess, að sem ráðherra bar hann ábyrgð á hrognagjaldeyrinum. Hins vegar var öll þáv. ríkisstj. og a. m. k. ýmsir okkar, sem hana studdum, meðábyrgir í þessum efnum og berum engan kinnroða fyrir, fremur en við, sem stöndum nú að þessum ráðstöfunum sem er beint en stórkostlega endurbætt framhald af ráðstöfunum fyrrv. stjórnar, berum kinnroða fyrir það, sem við nú erum að gera. Er líka full ástæða til að ætla, að svo miklu betri sem hrognapeningar fyrstu stjórnar Alþfl. reyndust þjóðinni en hin gamla einokun Danakonunga, svo miklu betri muni og innflutningsskírteini núv. ríkisstj. reynast hrognapeningum stjórnar Stefáns Jóhanns Stefánssonar.

Ég vil svo, áður en ég skil við þetta mál, að gefnu tilefni lýsa það staðlausa stafi, að þessar ráðstafanir séu útveginum gagnslausar vegna þess, að verðlag á fiski sé eftir sem áður óákveðið. Máli mínu til sönnunar nægir að lesa hér upp bréf það, sem LÍÚ og verðlagsráð sjávarútvegsins skrifuðu ríkisstj. síðastliðinn laugardag. Bréfið hljóðar þannig:

„Rvík, 24. febr. 1951.

Með tilvísun til bréfs hæstv. ríkisstj., dags. 24. f. m., þar sem ríkisstj. gefur fyrirheit um viss fríðindi bátaútveginum til handa, „í því skyni og að því tilskildu, að takast megi að skapa það verðlag á afurðum bátaflotans, að eigendur hans telji sér fært að hefja útgerð tafarlaust“, vill stjórn LÍÚ og verðlagsráð sjávarútvegsins hér með lýsa því yfir, að með samkomulagi við ríkisstj., dags í dag, er tryggð sú verðlagsmyndun, sem um ræðir í áður nefndu bréfi ríkisstjórnarinnar, dags. 24. f. m., m. a. með því, að stjórn SH hefur lýst yfir, að hún muni mæla með því, að félagar í SH greiði grunnverð það, sem við höfum farið fram á, og vitað er, að frystihús hafa þegar hafið kaup á þessum grundvelli.

Virðingarfyllst,

f. h. Landssambands íslenzkra útvegsmanna Sverrir Júlíusson, Sigurður H. Egilsson,

f. h. Verðlagsráðs sjávarútvegsins

Ingvar Vilhjálmsson.“

Loks vil ég svo einnig að gefnu tilefni mótmæla því, að ríkisstj. beri skylda til að tryggja bátaútveginum nauðsynleg rekstrarlán. Ég veit ekki til, að slík skylda hafi fram að þessu verið talin hvíla á þeim ríkisstjórnum, sem hér hafa setið að völdum. Og auðvitað ber ríkisstj. ekki heldur skylda til að tryggja bátaútveginum lán, fremur en öðrum atvinnurekstri landsmanna. Ríkisstj. hefur samt sem áður tvívegis rætt við bankastjóra Landsbankans hina auknu lánsfjárþörf útvegsins í sambandi við þá verðhækkun á fiski, sem af þessum ráðstöfunum leiðir, við fullan skilning og góðar undirtektir allra bankastjóranna. Allt, sem hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, sagði um þetta, var þess vegna alveg út í hött.

Ég ræði þetta mál svo ekki frekar að sinni, en óska og vona, að framkvæmdin megi fara vel úr hendi, og veit, að hnigið hefur verið að því viturlegasta ráði, sem völ var á.

Annars eru árásir stjórnarandstöðunnar á ríkisstj. allar keimlíkar því, sem ég nú hef gert að umræðuefni. Ég skal aðeins til viðbótar drepa á eitt eða tvö dæmi úr útvegsmálunum, sem falla undir mitt ráðuneyti.

Hv. landsk. þm. deildi á ríkisstj. út af togaradeilunni, og það er daglegur viðburður, að Alþýðublaðið ráðist á ríkisstj. og saki hana um sofandahátt varðandi lausn togaradeilunnar. Alþýðublaðið og Alþfl. veit þó mætavel, að togaraverkfallið hófst vegna mistaka Alþýðuflokksmanna, sem sumpart voru einkenni og orsök þess sjúkdóms, sem e. t. v. dregur Alþfl. til dauða, þ. e. a. s. hræðslunnar við kommúnista. Alþfl. veit enn fremur, að allt frá öndverðu fylgdist ríkisstj. vökulu auga með sérhverjum möguleika til sátta í deilunni. Sáttasemjari ríkisins tók fljótlega málið í sínar hendur. Ég lasta engan, þótt ég staðhæfi, að vandfundinn sé jafningi hans í því starfi. Samt skipaði ríkisstj. bráðlega, samkvæmt ósk sáttasemjara, tvo af allra mikilhæfustu embættismönnum landsins honum til aðstoðar. Þessir menn unnu afar mikið og þarft verk og lögðu þann grundvöll, sem á var sætzt. Þeim auðnaðist þó ekki að leiða deiluna til lykta. Fyrir því valdi ríkisstj. strax og ný vonarglæta vaknaði um sættir í málinu einn mikilhæfasta leiðtoga Alþfl., Emil Jónsson, og einn af ráðherrunum þessum mönnum til aðstoðar. Ég ofmæli ekki, þegar ég segi, að fyrir harðfylgi, dugnað og lagni allra þessara manna, er störfuðu á ábyrgð og fyrir atbeina ríkisstj., tókst að leysa deiluna. Og það er ekki heldur ofsagt, þótt það tvennt sé fullyrt, að engin tök voru á að sætta deiluaðila fyrr en gert var og að án stöðugra afskipta og einbeittrar forustu ríkisstj. um sættir í þessari örlagaríku deilu er áreiðanlegt, að hún hefði staðið miklu lengur.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál öllu meira, en það stafar frekar af velvilja til Alþýðuflokksmanna en illvilja í þeirra garð. En það er hvorki drengilegt né réttmætt, að Alþfl. noti þetta mál til ádeilu á ríkisstj. Afskipti kommúnista af málinu voru svo svipuð og vant er. Þeir gerðu alltaf það eitt, sem verst gegndi þjóðarhag og bezt hentaði til að skapa glundroða og öngþveiti. En jafnframt sáu þeir eigin hagsmunum sínum vandlega borgið með því að hindra stöðvun þeirra togara, sem á þeirra vegum voru gerðir út. Það er því alveg rétt, sem hv. þm. Brynjólfur Bjarnason sagði, að togaraverkfallið var af mannavöldum, þar voru flokksbræður hans fremstir.

Jafnfáránlegar eru árásirnar á ríkisstj. út af stöðvun bátaflotans. Svo sem ég hef þegar skýrt frá, hefur stj. um margra mánaða skeið leitað úrræða í málinu. Alþm. ætti ekki að þurfa að segja, að slík mál eru ekki auðleyst. Og þeim, sem sjálfir árum saman hafa leitað svipaðra lausna og borið ábyrgð á svipuðum ráðstöfunum, ýmist sem ráðherrar eða stjórnarliðar, og í þeirra hópi eru allir stjórnarandstæðingar, er lítill sómi að því að leggja ekkert jákvætt til mála, en fjandskapast þó gegn því, sem gert er, og sverta það og svívirða á allan hátt.

Ég hef beint orðum mínum fyrst og fremst til Alþfl., vegna þess að til hans eru gerðar kröfur. Fornvinir kommúnista, þ. á m. ég, vita, að síðasti vonarneistinn um, að hægt sé að vinna með þeim á þjóðlegum grundvelli, er slokknaður, við þá er gagnslaust að ræða. En gegn þeim þjóðarvoða, sem af starfsemi þeirra stafar, verða öll lýðræðisöfl í landinu að sameinast, hversu mikið sem annars ber á milli.

Allt það, sem ég hér að framan hef rætt um, er þess eðlis, að stj. getur látið sér andstöðu og árásir stjórnarandstæðinga í léttu rúmi liggja. Stjórnarflokkarnir ráða, fylgja sannfæringu sinni, fara sínu fram og falla þá eða standa með dómi þjóðarinnar á gerðum sínum. Stjórnarandstæðingar geta því, hvað þetta áhrærir, stjórnarinnar vegna haldið áfram að brengla staðreyndir og blekkja, eftir því sem þeir hafa innræti til, ráðast á allt, sem gert er, og það alveg jafnt þótt menn séu nýkomnir úr stjórn og hafi þar staðið að svipuðum eða sömu framkvæmdum. Aðeins á einu sviði stjórnmálanna getur velferð þjóðarinnar oltið á því, hvort stjórnarandstaðan reynir að villa henni sýn. Ég á hér, eins og menn munu skilja, við það, hvort stjórnarandstæðingar reyna að beita áhrifum sínum á verkalýðinn til þess að stofna til nýrrar kauphækkunarstyrjaldar. Fjárhagur flestra atvinnurekenda, a. m. k. við sjávarsíðuna, er orðinn þröngur, og atvinnurekstur þeirra berst í bökkum. Þetta vita allir. Og nú er sú breyting á orðin, að ríkissjóður getur ekki lengur aflað sér fjár til þess að greiða hallann af rekstrinum, eins og hann hefur gert undanfarin fimm ár. Atvinnurekendur eiga ekki heldur aðgang að ótakmörkuðum rekstrarlánum, til þess að greiða með fyrirsjáanlegan rekstrarhalla. Af þessu leiðir, að í sjálfsvarnarskyni er atvinnurekendum sá einn kostur nauðugur að standa gegn kauphækkunum að óbreyttum kringumstæðum. Séu kauphækkanir taldar sigur verkalýðnum til handa í slíkri styrjöld, mun sá sigur þess vegna verða torsóttur og tvísýnn. Hitt er aftur á móti víst, að átökin verða hörð og langvarandi og krefjast stórra fórna og mikillar blóðtöku af fátæku þjóðfélagi.

Á þessu máli eru margar hliðar og mörg sjónarmið, sem hér vinnst ekki tími til að ræða eða rekja. En eins og málið liggur fyrir, er þess ekki heldur þörf. Hér nægir að fá svarað einni einustu spurningu. Hún er þessi: Er það rétt, að hækkað kaupgjald komi verkalýðnum að engu gagni eins og nú er ástatt í atvinnulífi Íslendinga? Sé þetta rétt, verði svarið við þessari spurningu jákvætt, leiði sigur í þessari styrjöld ekki til bættra lífskjara verkalýðsins, þá er það þung ábyrgð á lýðhollum mönnum að leiða fólkið út í tvísýna og þjóðinni dýra og örlagaríka baráttu. Til þess ógæfuverks mega engir lána sig, aðrir en þeir, sem, eins og kommúnistar, vinna vísvitandi að glundroða og upplausn í þjóðfélaginu, af því að þeir hafa allt önnur sjónarmið og markmið en við lýðræðissinnar. Þessari áríðandi spurningu hefur þegar verið svarað. Henni var svarað á s. l. sumri af hagfræðingum þeim, sem Alþýðusamband Íslands og BSRB fengu til að rannsaka þetta mál og semja um það greinargerð, en hagfræðingar þessir voru góðir og gegnir stjórnarandstæðingar. Dómur þeirra er í aðaldráttum þessi: Kauphækkanir eru verkalýðnum með öllu gagnslausar, nema þær byggist á aukinni framleiðslu eða gróða í atvinnurekstrinum. — Ég hygg, að allir hagfræðingar Íslands séu í hjarta sínu samþykkir þessu svari. Hitt veit ég að öllum almenningi er fullljóst, eins og líka áðurnefndir hagfræðingar álitu, að svo sem nú horfir, er hvorki að vænta aukins gróða né aukinnar framleiðslu í atvinnulífi Íslendinga.

Kauphækkanir eru þess vegna verkalýðnum gagnslausar. En ég efast um, að með því sé sagan öll sögð. Ég hygg, að fjárhagur og lánstraust atvinnurekenda neyði þá til að stöðva eða draga úr atvinnurekstrinum, ef kaupgjald hækkar að óbreyttu afurðaverði. Sé það rétt, og það er því miður rétt, mundi afleiðing slíks „sigurs“ verkalýðsins í kaupstyrjöld snúast gegn honum og verða til þess eins að magna versta fjanda verkalýðsins og þjóðarheildarinnar, þ. e. a. s. atvinnuleysið.

Ég endurtek því, að þjóðhollir menn í stjórnarandstöðunni verða að gæta sín gegn þeirri freistingu að gera stj. minni háttar skráveifur, í því skyni að krækja sér í pólitískan ávinning. Á þessu sviði þjóðmálanna hvílir þungi ábyrgðarinnar eigi aðeins á stj., heldur einnig á þeim sjálfum. Ég vona, að umhyggjan fyrir þjóðinni reynist sterkari en andúðin á stjórninni, þegar á hólminn kemur. Flest árásarefnin á stjórnina eru í beinu eða óbeinu sambandi við fall krónunnar. Ég minni þjóðina á, að núverandi stjórn hefur ekki fellt krónuna, heldur aðeins hlutazt til um, að löggjöfin viðurkenndi með réttri skráningu það verðfall krónunnar, sem rekur rætur sínar til þess, að rofið var sambandið á milli afurðaverðs og kaupgjalds á árinu 1940.

Út af fyrir sig harma menn fall krónunnar. Hitt var svo aðeins óumflýjanleg nauðsyn og skilyrði þess, að takast megi að hindra frekara gengisfall, að viðurkenna staðreyndir í þessum efnum. Stjórnarandstæðingum vil ég segja það, að svo mikið sem fall krónunnar hefur orðið, þá skulu þeir sanna það, að haldi þeir uppteknum hætti með neikvæðri baráttu gegn sérhverju úrræði ríkisstj. til úrlausnar á höfuðvandamálum þjóðarinnar, og einkum og sérstaklega ef þeir gerast svo ábyrgðarlausir að leiða verkalýðinn út á slysabraut kaupgjaldsstyrjaldar, sem stofnar þjóðinni í augljósan voða og aldrei getur orðið verkalýðnum til annars en bölvunar, þá mun verða meira gengisfall á þeim sjálfum en krónunni, þótt það kannske komi ekki að fullu í ljós fyrr en þeir verða skráðir, þ. e. a. s. við næstu kosningar. Þá mun koma í ljós, að fleiri eru í hættu en þeir, sem þora að taka ábyrgð á óvinsælum aðgerðum á örlagaríkum tímum. Þjóðin gerir líka kröfu til hinna. Íslendingar eru fúsir til að fyrirgefa yfirsjónir stjórnmálamanna sinna. Það sýnir reynslan. En þjóðin fyrirlítur, fordæmir og refsar þeim, sem reyna að falsa staðreyndir í því skyni að villa henni sýn, þegar mest er í húfi.

Ég hef þá lokið máli mínu. Mér gefst ekki kostur á að taka þátt í framhaldi umræðnanna á miðvikudag, því að ég mun fara utan í fyrramálið í erindum ríkisstj. Ég kveð þm. og aðra háttvirta hlustendur og óska þeim öllum alls hins bezta og stjórnarandstæðingum m. a. þess, að þeir afneiti ekki sannleikanum með öllu í þessum umræðum.