20.10.1950
Neðri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (3404)

23. mál, sala og útflutningur á vörum

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt hér, er um breyt. á l. nr. 11 12. febr. 1940, um sölu og útflutning á vörum. Þau lög, sem ég legg til, að breytt sé hér, voru sett í byrjun stríðsins og voru þá nauðsynleg og raunar sjálfsögð, en upprunalega var til þess ætlazt, að þau giltu sem stríðsfyrirbrigði, sett til þess að gefa ríkisstj. möguleika á að hafa eftirlit með öllum útflutningi úr landinu. bæði til þess að tryggja, að ekki flyttist of mikið út af því, sem landsmenn sjálfir þurftu að nota, og til þess að koma í veg fyrir gjaldeyrisflótta, og enn fremur hitt, að ýmsar þjóðir, sem við þurftum þá að semja við, gerðu kröfu til þess, að ríkisstj. væri fær um það að semja jafnvel um allan þann útflutning, sem við réðum yfir, þannig að þess vegna var nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að tryggja sér slíkt vald. Eftir stríðið var það svo um tíma, að tekin var upp ríkisábyrgð á mestu af okkar útflutningsvörum, t. d. fiskinum, og má segja, að raunverulega var það ekki nema eðlilegt, meðan ríkið tók að sér að ábyrgjast gagnvart framleiðendum verð á útfluttum saltfiski, freðfiski og fleiri útflutningsvörum, að ríkið gerði um leið kröfu til að geta ráðið útflutningnum, geta ráðið því, hvar varan væri seld, fyrir hvaða verð o. s. frv. Nú var fyrir ári síðan ríkisábyrgðin afnumin, og skulum við gera okkur ljóst, hvaða áhrif það hlýtur að hafa í þessum efnum. Meðan framleiðendur höfðu ríkisábyrgð á fiskinum, þá áttu þeir raunverulega ekkert á hættu, þá átti ríkið það á hættu, hvernig fór um fisksöluna, og var þá ekki nema eðlilegt, að það færi líka saman, að það hefði einnig vald á þessu sviði; þá hafði ríkið líka það aðhald um söluna, að það tapaði, og það miklu, ef það hugsaði ekki vel um hana. Hvernig fer þetta núna? Nú er búið að afnema þessa ábyrgð ríkisins á fiskinum, og nú eru það framleiðendur sjálfir, sem eiga allt undir því, hvernig selst. En hvernig er þeirra aðstaða með að fá sjálfir að selja vöruna og koma henni í peninga? Það er ríkið, sem hefur valdið í þessum efnum og getur bannað einum framleiðanda, sem framleiðir fisk, að flytja hann út og hindrað hann í að koma sinni vöru í verð. Ríkisstj. getur hindrað menn í því að koma framleiðslu sinni í verð án þess, að ríkið hafi neitt í hættu eða standi í neinni ábyrgð. Nú væri hægt að liða þetta, ef ríkisstj. sæi fyrir því að halda skipulagningu á vörusölu, en það gerir hún ekki. Hún tryggir sér engin sambönd til þess að selja fisk og rekur enga skipulagningu til þess að afla nýrra markaða. Það eru aðeins sendar út einstakar sendinefndir. Ríkisstj. hefur ekkert framtak sjálf til að finna nýja markaði, en framleiðendur eru lamaðir í að vinna nýja markaði og þar af leiðandi að afla verðmæta. Ríkisstj. skoðar það sem sagt ekki sitt hlutverk að vinna að sölu útflutningsvörunnar, og einstaklingarnir hafa ekki vald til þess. Þetta ástand er óþolandi. Annaðhvort verður ríkisstj. að taka alveg að sér söluna og hafa með höndum sölu-organisation eða þá að gefa framtaki einstaklinganna meira frelsi. Nú sem stendur er hér hið versta skipulag, sem til er, hvorki þjóðnýting né einkaframtak, og út úr þessu öngþveiti verðum við að komast, ef við eigum ekki að eyðileggja allt okkar atvinnulíf. Því legg ég til í þessu frv., að frjálst sé að bjóða út til sölu, selja og flytja út íslenzkar afurðir með þeim takmörkunum einum, sem l., sem hér er lagt til að breyta, ákveða, eða ákveðnar eru í öðrum lögum um gjaldeyrisverzlun, og um þetta fjallar 1. gr. Ég þarf náttúrlega ekki að draga dul á það, að við sósíalistar berjumst fyrir þjóðnýtingu, en eins og stendur er engin von til þess, að hún verði upp tekin, en við viljum ekki láta nota núverandi öngþveitisástand til að ófrægja sósíalísmann. Afskipti ríkisstj. af afurðasölumálunum nú eru ekki sósíalismi, heldur alls óskyld höft, og viljum við ekki láta taka það sem dæmi um sósíalisma, en viljum hins vegar stuðla að því, að hægt sé að reka atvinnuvegina. Við viljum láta það, sem dugandi er í kapítalismanum, fá að njóta sin, ef kapítalisminn á að vera á annað borð. Því legg ég til í 1. gr., sem ég lýsti áðan, að létta höftum af útflutningsverzluninni með vissum takmörkunum, og þær takmarkanir eru settar í 2. gr. Ég dreg ekki úr nauðsyn þess að setja þarna takmarkanir, og er takmarkið með þeim að koma í veg fyrir gjaldeyrisflótta, þannig að ekki sé hægt að leggja fyrir gjaldeyri erlendis og enn fremur til þess að koma í veg fyrir, að framleiðendur og útflytjendur undirbjóði hver annan. Við vitum, að það er alltaf til staðar hættan á slíku og að þannig skapist lægra verð erlendis en raunverulega er hægt að fá. Erlendir aðilar geta hér og náð tökum með því að fá innlenda menn til að vera leppa fyrir sig og selja vöruna allt of ódýrt. Þetta þarf að koma í veg fyrir, og það er hægt með því að setja lágmarksverð á vöruna, eins og gert er ráð fyrir í 2. gr., enda útvegi ríkisstj. upplýsingar um, hvaða verði sé hægt að ná, og setji það sem lágmarksverð. Ég vil taka það fram, að ég set þetta sem heimild fyrir ríkisstj., því að ef til vill getur hún átt mjög erfitt með að setja lágmarksverð á einstaka vörutegundir. Þetta er því orðað sem heimild, en ég held, að með þessu mætti koma í veg fyrir gjaldeyrisflótta og undirboð. Núverandi fyrirkomulag hindrar hins vegar ekki undirboð. Meira að segja umboðsmenn Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda í Grikklandi hafa boðið saltfiskinn fyrir lægra verð en Norðmenn, enda þótt okkar fiskur sé betri. Slíkt er náttúrlega alveg óþolandi. En hér er ekkert kontrol haft á, því að ríkisstj. er ein um þetta, og virðist skylt skeggið hökunni. Ef útflutningsverzlunin væri frjálsari, þá yrði eftirlitið sterkara, því að þá fá fleiri aðstöðu til að flytja út, og með 2. gr. þessa frv. er ríkisstj. betur gert mögulegt að koma í veg fyrir undirboð. Ég vil taka það fram, að mér er ljóst, að erfitt getur orðið að setja þetta lágmarksverð. Það hagar sem sagt svo til, að verðlagssvæðin í heiminum eru mismunandi, t. d. ameríska svæðið, sterlingsvæðið, verðlagssvæði sósíalistísku landanna, Spánn o. fl., þar sem gengi peninganna segir ekki til um raunverulegt vöruverð. Þetta þýðir, að við getum selt fyrir mismunandi hátt verð, en verðum líka að kaupa inn fyrir mismunandi hátt verð. Þegar ríkisstj. þannig ákveður lágmarksverð, verður að miða við eitthvert ákveðið verðlagssvæði. Ef við miðum við sterlingssvæðið, þegar lágmarksverð er sett t. d. á freðfisk, þá yrði það hærra en verðið, sem mundi fást fyrir hann t. d. í Ameríku. Þetta gæti þýtt, að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir til þess að þeir, sem flyttu út freðfisk, fengju uppbót. Og ef við ætlum að selja til allra verðlagssvæðanna, þá þarf að samræma verðið. — Í 3. gr. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. hafi þann möguleika að gera samninga við ákveðin ríki, og er hennar kontrol þá í fullu gildi hvað samninga við það ríki snertir.

Kem ég þá að 4. gr., sem er höfuðnýmæli þessa frv. 4. gr. fer út á það að gefa útflytjendum rétt til að hagnýta viðskiptamöguleika við lönd, sem ekki verzla við okkur í frjálsum gjaldeyri. Það er viða lítið um frjálsan gjaldeyri, en þau ríki, sem lítið hafa af honum, geta oft framleitt vörur, sem við gjarnan vildum flytja inn og gætum fengið í vöruskiptum. 4. gr. veitir einmitt heimild til slíkra vöruskipta. Þessi till. er óskyld gotupeningafyrirkomulaginu. Með 4. gr. er tryggt, að það, sem eftir henni er selt, sé með samsvarandi verði eftir 2. gr. Hvernig á svo að hindra, að verðið á innflutningnum eftir 4. gr. verði of hátt? Með því að heimila verðlagsyfirvöldunum ákveðið hámarksverð á vöruna. Ef t. d. útflytjandi selur fisk til clearinglands, segjum lands, sem framleiðir iðnaðarvöru, svo sem Austur-Þýzkalands eða Austurríkis, eða lands, sem framleiðir matvöru, svo sem Gyðingalands, og flytur þaðan inn vöru og það sýnir sig, að verðið sýnist of hátt, þá geta verðlagsyfirvöldin sett á vöruna ákveðið hámarksverð. Sá, sem þessa verzlun ræki, yrði því að vera hagsýnn, og stefnir þetta að því að minnka milliliðagróðann og þjappa að mönnum um að vera praktískir í innkaupi. Með lágmarksverði á útflutningsvöru og hámarksverði á innflutningsvöru eru svo hagsmunir alþýðunnar tryggðir. Þetta ætti einnig að geta skapað heilbrigða samkeppni og aðhald að útflytjendum og innflytjendum, sem mundu þá síður kaupa inn einhvern óþarfa, ef gróði af þeirri verzlun væri mjög takmarkaður. Ég geri og í 5. gr. ráðstafanir gegn þeirri hættu. Þar er sett heimild handa ríkisstj. til þess að banna innflutning á vörum, sem við höfum ekki efni á að flytja inn. Og þá er eðlilegt, að ríkisstjórnin hafi einkasölu á slíkum vörum, og það ætti ekki að þurfa að bæta mörgum mönnum við ríkisbáknið til þess að annast dreifingu þeirra. Það er eðlilegast, að ríkisstj. annist þetta sjálf og gefi þessum aðila rétt til að flytja inn vörurnar, en ekki láta SÍS og heildsalana gúkna yfir innflutningnum til þess að koma vörunum á svartan markað. Ég held, að með þessum ráðstöfunum og betra gjaldeyris- og verðlagseftirliti mætti koma í veg fyrir gjaldeyrisflótta og loginn gjaldeyri, og mætti þá um leið koma í veg fyrir, að verðlag á þeim vörum yrði of hátt.

Þá er í 6. gr. þessa frv. gert ráð fyrir, að þeir, sem flytja út vörur, njóti sömu réttinda og talað er um í 4. gr. og beri sömu skyldur. Ég álít, að núverandi ástand í þessum efnum stofni í hættu öllum þeim iðnaði landsins, sem undanfarið hefur verið byggður upp. Ég veit, að allir þm. gera sér það ekki ljóst, að ýmis iðnaðarfyrirtæki hér standa framar sams konar iðnaði á Norðurlöndum. Ef aðeins þessi iðnaður fær að njóta sín, þá stöndum við framar. Auðvitað er ekki að miða við þann iðnað, sem er alveg á byrjunarstigi. Ef aðeins iðnaði landsins er gefið olnbogarúm og athafnafrelsi, felast í honum stórkostlegir möguleikar til útflutnings. Sem dæmi get ég nefnt rafmagnsverksmiðjuna Rafha. — Rafha fékk eftir stríðið mjög fullkomnar vélar og hefur haft möguleika á að selja framleiðslu sína til Danmerkur. Þessar dýru og fullkomnu vélar eru aðeins látnar ganga 8 tíma í sólarhring. En hvernig háttar til í sams konar iðnaði erlendis? Jú — það er unnið við hann í vöktum, þessar dýru vélar, sem margar eru automatískar, eru látnar ganga 24 tíma í sólarhring. Ef þessar vélar eiga að nýtast til fulls, verða þær að ganga 24 tíma. 100% nýting þeirra útheimtir 24 stunda vinnu. Það er vitleysa að kaupa nýtízku vélar og láta þær aðeins ganga hluta úr sólarhringnum. Það er betra að pjakka með gömlu skóflunni sinni allt árið en kaupa mokstursvél og láta hana vinna einn dag á ári. Þess vegna verðum við að losa þær hömlur, sem iðnaðurinn á við að stríða, hann verður að fá að flytja inn hráefni og verður að fá að flytja út framleiðslu sína.

Til samanburðar á Norðurlöndum skal ég taka t. d. sojakökuframleiðslu Dana. Þeir flytja hráefnið inn frá Asíu og vinna úr því til eigin þarfa og til útflutnings. Við Íslendingar getum komizt í sömu aðstöðu og Danir. Við eigum nýtízku vélar og við eigum fossa og ódýrt afl til að reka þessar vélar. Iðnaðurinn verður að fá að flytja inn hráefni og verður að fá að flytja framleiðslu sína úr landi. En þetta er ómögulegt með þeim höftum og skriffinnsku, sem nú ríkja. Auðvitað yrði að gæta þess, að þetta athafnafrelsi yrði ekki misnotað, og yrði gjaldeyriseftirlitið að hafa þar eftirlit með. Það má t. d. geta þess, að vélsmiðjan Héðinn er svo vel búin vélum, að hún er í röð hinna beztu á Norðurlöndum. Nú er þessi vélsmiðja að stöðvast. Hér á árunum, meðan stóð á byggingu síldarverksmiðjanna, smíðaði Héðinn ágætar vélar í þær; nú gæti hann framleitt slíkar vélar til útflutnings. En til þess yrði Héðinn að fá að flytja smíðajárn inn og að flytja framleiðslu sína út. Og ef nú Héðinn vildi flytja framleiðslu sína út, væri honum það ómögulegt, því að útvegun nauðsynlegra leyfa mundi taka svo langan tíma.

Það er ekki hægt að gera iðnaðinn útflutningsfæran meðan þau höft og öngþveiti, sem nú eru, ríkja. Og það er ekki hægt að greiða lægri laun hér en í öllum öðrum löndum. Það verður að skapa iðnaðinum þær aðstæður, að hann verði samkeppnisfær erlendis, en það verður hann aldrei, meðan skriffinnska ríkis er honum sá fjötur um fót sem nú er.

Þegar Alþingi hefur verið að setja kúgunarlög sín gegn launþegum, höfum við sósíalistar barizt á móti þeim. Það verða að vera tryggð 100% afköst vélanna, áður en hægt sé að ganga að þeim kröfum. Það getur ekki orðið annað en tap að eiga nýtízku vélar, þegar ekki eru tryggð nema 10% afköst. Á meðan er ekki hægt að koma í veg fyrir tap, hvernig sem launin eru lækkuð. Það verður að tryggja rekstur atvinnuveganna, tryggja nýtingu vélanna, tryggja vinnu og tryggja vörur. En nú veit ég, að sumir munu spyrja: Gerir ríkisstj. ekki allt, sem hægt er, til að tryggja, að vélarnar séu nýttar 100% og markaðir nýttir 100%, og gerir ekki fjárhagsráð allt til að örva viðskiptin? — Ég vil segja þeim, sem ekki þekkja til og halda að allt sé í lagi, að ef íslenzkur iðnaður á að sækja allt undir fjárhagráð, þá er hann dauðadæmdur. Það er mikil samkeppni á heimsmörkuðunum, og margar fleiri þjóðir en við, sem vilja selja og ná í markaði. Íslenzkir fiskframleiðendur hafa eftirsótta vöru, en ef þeir eiga að ná í markaði, þá þýðir það, að það þarf að bregða fljótt við. Ef íslenzkur framleiðandi þarf að sækja eitthvað undir fjárhagsráð, þá þýðir það 3–4 mánaða bið, í staðinn fyrir að hann þarf að geta gert samningana á hálfum mánuði. En það þýðir, að fiskurinn verður óseljanleg vara, og vörurnar, sem fyrir hann hefðu fengizt, vantar. Um vöruskipti er sjaldnast að ræða, en nú er það vitað, að bezt kjör fást, ef hægt er að velja úr framleiðslu hvers lands.

Það er ekki af pólitískum ástæðum, sem ég held þessu fram, heldur get ég bent á fjölmargar greinar í sjálfu Morgunblaðinu, sem sanna, að fjárhagsráð er að eyðileggja íslenzkan iðnað. — En gerir hæstv. ríkisstj. þá ekki allt, sem í hennar valdi stendur, til að útvega markaði fyrir íslenzka framleiðslu? Það er fjarri mér að ætla að tala illa um hæstv. núv. ríkisstjórn, en ráðherrar geta verið skeikulir og yfirsézt um verzlunarmöguleika úti í löndum, og þeir líta ekki á það sem skyldu sína að útvega vörur. Hæstv. núv. ríkisstjórn lítur ekki á það sem skyldu sína að vera eins og útspýtt hundsskinn út um allan heim í leit að mörkuðum. Og það er ekki von, að vel gangi, meðan sá hugsunarháttur ríkir. Norðmenn hafa svo gersamlega slegið okkur út á heimsmarkaðinum, þeir hafa sendimenn, sem njóta styrks af ríkisins hálfu, úti um allan heim í leit að mörkuðum fyrir vörur þeirra. En hvað gerum við? — Mér liggur við að segja, að við Íslendingar einbeitum okkar verzlunarstétt á fjárhagsráð. Fyrir hverju fyrirtæki þurfa helzt að vera tveir forstjórar. Annar til að sitja og bíða uppi í biðsölum fjárhagsráðs, en hinn til að sitja á skrifstofu fyrirtækisins og reyna að fá viðskiptasambönd. Þannig einbeitum við okkar verzlunarstétt á fjárhagsráð í staðinn fyrir að senda hana út um allan heim í leit að mörkuðum.

Þetta kann engri góðri lukku að stýra, og það er ríkisstj. ein, sem ber ábyrgðina. Ríkisstj. skoðar það ekki sem sitt verkefni að leita markaða, og þó að hún gerði það, væri hún skeikul. Þjóðin getur ekki lengur látið svo til ganga. Við verðum að vera samkeppnisfærir, en það verðum við ekki meðan þessi skriffinnska ríkir. Norðmenn slá okkur gersamlega út, og á meðan sitjum við hér og látum okkar verzlunarstétt bíða uppi í fjárhagsráði og knékrjúpa því til að sarga út eitt og eitt leyfi. En á meðan liggur freðfiskurinn og skemmist; hann er nú þegar orðinn 6 mánaða og er þar af leiðandi vara, sem gjalda verður varhuga við að selja, að minnsta kosti á nýjum mörkuðum.

Með því skipulagi, sem ríkir, er ríkisstj. að koma á einokun, ekki ríkiseinokun, heldur eins og sakir standa þeirri hættulegustu einokun, sem hugsazt getur. Það væri fróðlegt að vita, hve mikill hluti innflutningsins fer í gegnum hendur tíu manna, og það sömu manna og eru eigendur Vísis og Morgunblaðsins. Með þessu er búið að svipta almenning öllum rétti til að ráða sjálfur, hvar hann gerir sína verzlun. Með sérsamningum milli SÍS og heildsalanna er búið að sjá fyrir því, að þeir, sem hafa haft einokunaraðstöðu, geta haldið henni áfram. Þannig geta þessir menn innan þrengstu veggja ákveðið, hvar þjóðin skuli verzla, og þannig er það einnig hvað útflutninginn snertir. Þessir menn óttast samkeppni, þeir óttast samkeppni frá SÍS og frá öðrum heildsölum. Þeir hafa sérréttindi, og það eru þau, sem hér er verið að verja. Það tala engir ákafar um það að eyða höftum en formælendur Sjálfstfl. og þar á meðal eigendur Morgunblaðsins og Vísis, en með þessu er verið að skapa einokun þessum mönnum til handa. Og í hvert skipti, sem við sósíalistar berum hér á Alþingi fram tillögur til að létta þessari einokun, þá eru þær drepnar. Það, sem ég álít sérstaklega nauðsynlegt, er að bæta úr fyrir útgerðinni. Nú skapast það hættulega ástand, að menn eru atvinnulausir, það vantar vörur og það vantar byggingarefni, en menn ganga atvinulausir. Á sama tíma eru nýju togararnir bundnir við hafnarbakkann, en sjómennirnir ganga atvinnulausir. Úti á landi liggur vélbátaflotinn og hraðfrystihúsunum er lokað. Sem dæmi get ég tekið Húsavík, sem ég hef áður minnzt á. Því í ósköpunum fá sjómenn og útgerðarmenn ekki að veiða fisk og framleiða hann til útflutnings? Hver er ávinningurinn af því að banna mönnum að reyna að selja út sínar vörur, til þess að kaupa svo inn fyrir þær nauðsynjavörur í staðinn, svo sem byggingarefni, matvörur, vefnaðarvörur og annað nauðsynlegt? Það er aðeins einn aðili eða hagsmunahópur, sem getur haft hagsmuni af því, að mönnum sé bannað þetta, og það er sá aðilinn í þjóðfélaginu, sem vill skapa atvinnuleysi á Íslandi og dýrtíð og svartan markað. Ef sami aðilinn, t. d. hér í Reykjavík, sem hefur umráð yfir þeim leyfum, sem veitt eru til innflutnings og útflutnings, hefði hagsmuna að gæta í að skapa atvinnuleysi, sem kæmi niður á almenningi í landinu, — m. ö. o. ef auðmannastéttin eða sú litla ráðandi klíka úr henni, sem nú ræður yfir innflutningnum og útflutningnum og ríkisstjórninni, vill skapa atvinnuleysi um allt land, til þess að brjóta verkalýðinn á bak aftur í kaupdeilum, þá fær hún þarna tækifæri til þess. Verkamenn og sjómenn úti um landið geta séð um sinn útflutning og skapað sér atvinnu, ef þeir eru látnir í friði við það fyrir einokunarvaldinu hér í Reykjavík, sem bannar þeim að fiska til þess að flytja út og bannar þeim að flytja út framleiðsluvörur sínar og bannar þeim að byggja yfir sig hús og bannar þeim annað fleira, sem þeim er mjög nauðsynlegt. Það er verið að færa valdið í hendur örlítillar voldugrar stéttar hér í Reykjavík yfir lífsafkomu verkamanna og sjómanna með þeim þrælahöftum, sem nú eru höfð í þessum efnum.

Ef einhverjum fyndist þetta vera rangt hjá mér og annað mundi koma út en það, sem ég hef haldið fram, svo framarlega að staðreyndirnar væru látnar reyna sig í þessum efnum, — því þá ekki að leyfa staðreyndunum að skera úr, þannig að dregið sé úr höftunum á þessum sviðum og framleiðendum, sem þarna er um að ræða, sé gefið tækifæri til þess að sýna, hvort ekki er rétt það, sem ég segi um þessi mál? — Og ég vil biðja hv. þingmenn utan af landi að hugleiða, hvað mundi gerast, ef t. d. hraðfrystihúsin á Dalvík, Húsavík og annars staðar úti á landi fengju leyfi til að flytja út framleiðsluvöru sína sjálf. Ég býst við, að Landsbankinn segði kannske við þau: Ég lána ykkur ekki út á þann fisk, sem þið flytjið út. — Og nú gætu bankarnir gert það af því að þeir hefðu ekki trú á, að hægt væri að selja út fiskinn. En ef t. d. búið væri að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., og ríkisstj. væri búin að gefa út lista yfir vörur, sem fluttar væru inn, þá mundu frystihúsin, sem eru úti á landi, geta flutt út vörur og flutt vörur inn í staðinn, — þannig að þá mundu heildsalarnir hér í Reykjavík hafa áhuga á að bjóða þeim að flytja út þann fisk, sem þau hefðu, til þess að geta flutt vörur inn aftur. Það fyrirkomulag, sem í frv. er lagt til að verði, mundi skapa áhuga fyrir að flytja út þessar vörur, vegna þess að hægt væri að skapa markað fyrir fiskinn. Og strax og þessir aðilar sæju, að þetta væri hægt að gera og fá vörur fyrir þessar útflutningsvörur inn í staðinn, þá mundu þessir aðilar bjóðast til þess að gera það og leggja fjármagn í þetta. En hins vegar vil ég segja, að ég álít þetta ekki heppilegt fyrirkomulag í þessu efni. Ég álít, að frystihúsin ættu að standa að þessu, þannig að þau fengju lán hjá bönkunum.

Þetta er einn þátturinn í því, sem gæti verið lausnin á þeim vandræðum, sem útgerðin er komin í, nefnilega að knýja verzlunarauðmagnið til þess að leggja í útgerð. Við megum ekki láta verzlunarauðmagnið fá valdið yfir útgerðarmálunum og gróðann af útgerðinni og láta svo útgerðina sjá um að skapa gjaldeyri og tapa á því. Og ef þetta væri gefið frjálsara við framleiðendur um allt land, mundi verða framleitt miklu meira um allt land og meira selt út úr landinu og meira flutt inn aftur. — Og ég vil vekja athygli allra hv. þm. á því, að ég veit ekki, hvað er orðið af þeim réttindum, sem í stjskr. eru ákvörðuð um atvinnufrelsi og eignarrétt manna, svo framarlega sem hægt er að fara eins að og gert hefur verið í þessum efnum, án þess að ríkið sé látið bera ábyrgð á því, sem gert er og hefur verið í þessum efnum nú.

Freðfisksframleiðslan hefur minnkað úr 30 þús. smál. í 15 þús. smál. Það þýðir, að öll hraðfrystihús á landinu verða að vinna með minni afköstum en áður og þar af leiðandi meiri tilkostnaði á hverja smál. af fiski. Og þetta skeður, án þess að hraðfrystihúsaeigendur fái tækifæri til að sanna, hvort ekki er hægt að selja 30 þús. tonn af hraðfrystum íslenzkum fiski erlendis. 10 þús. tonn af freðfisksframleiðslunni hafa verið þorskflök. 2 þús. tonn af þeim hafa verið seld til Ameríku með um 20% tapi. 8 þús. tonn eru því til að selja á Evrópumarkaði. 4 þús. tonn af þeim er nú selt, en 4 þús. tonn liggja óseld. Ég leyfi mér að staðhæfa, að það hefði verið hægt að selja þessi 4 þús. tonn, sem óseld eru. En eigendur þeirra hafa ekki haft frelsi til þess að selja þessi 4 þús. tonn af þorskflökum og að kaupa vörur inn í landið í staðinn fyrir þessa útflutningsvöru. Og það hefur verið vonlaust fyrir þessa aðila að leita til fjárhagsráðs um að framkvæma slík kaup. Það hefur jú tekizt að fá ofurlítið keypt á þennan hátt frá Austurríki af rafmagnsvörum, eftir langa bið. — Þessi 4 þús. tonn af freðfiski, sem nú bíða óseld, mundi vera hægt að selja fyrir 20 millj. kr. En með áframhaldi þess skipulags, sem er, er verið að eyðileggja þessa vöru, — nema svo færi, að skyndilega breyttist til viðvíkjandi mörkuðum, svo að hægt væri að koma út vörunni, sem, því miður, er að verða ekki góð vara. Hver ber ábyrgð á því, ef þetta vörumagn eyðileggst? Ríkið hefur vald til að selja þessa vöru og ber ábyrgð á því, ef varan eyðileggst, að því leyti sem möguleiki kynni að vera á því, að framleiðendur gætu selt þessa vöru sjálfir. Og hvað gerist svo á eftir, ef varan eyðileggst? Svo og svo mörg hraðfrystihús fara þá á höfuðið. Það er þegar byrjað að bjóða til sölu hraðfrystihús á landinu. En höftunum er ekki létt af, og eigendur framleiðsluvara hraðfrystihúsanna verða að liggja með þær. Sama valdið, sem lætur þá liggja með vörurnar, enda þótt þeir mundu að öllum líkindum geta selt vörurnar sjálfir, það gengur að þeim og býður til sölu framleiðslutæki þeirra, hraðfrystihúsin. Ef til vill selur þetta sama ríkisvald einhverjum, sem að ríkisvaldinu standa, þessar vörur fyrir lítið verð. Og þannig getur lítil klíka, sem neitar þessum mönnum um leyfi til að selja sínar vörur, valdið því, að rænt er í krafti þess skipulags, sem er á þessum hlutum, þessum eignum hraðfrystihúsanna, með því að banna þeim að selja vörur sínar og kaupa aðrar vörur í staðinn, og hindrað þá í að geta hagnýtt sér þessi nýju framleiðslutæki, gengið svo að þeim til að bjóða vörur þeirra og hús upp og fá þá einhverjum vörurnar, sem treyst er til að selja þær. Mistök ríkisvaldsins eru farin að verða nokkuð mikil, þegar svo er komið.

Ég hef minnzt hér á freðfiskinn, sem nú er til í landinu. En það er kannske enn þá þýðingarmeira spursmálið um freðfiskinn, sem framleiddur verður á næsta ári. Ég vek athygli hv. þm. á því, að eitt af því, sem skapar vandamál togaraútgerðarinnar, er það, að ef bátaútgerðin er sett mest í saltfisksframleiðslu, þá þolir saltfisksmarkaðurinn ekki, að togararnir gangi í það að veiða í salt. Ef togararnir fiska til saltfisksverkunar, þá þurfum við að geta látið bátaflotann framleiða handa hraðfrystihúsunum. Og það er það eðlilegasta. Og að tryggja freðfisksmarkaðinn, það er að tryggja, að togurunum sé óhætt að fara á saltfisksveiðar. — Ég álít, að hægt sé að koma freðfisksmarkaðinum mikið upp úr 15 þús. tonnum á ári, jafnvel í 25 til 30 þús. tonn. En ef það á að gerast, þarf að losa svo um höftin, að hægt sé að selja þessa hluti, og það áður en vertíð byrjar. Því að ef bankarnir fá að halda uppi þeirri stefnu, sem þeir hafa gert, og ef á að halda höftunum, sem verið hafa, þá gæti freðfisksframleiðslan verið látin takmarkast við 15 þús. tonn á ári. Hins vegar gætu kannske selzt 25 til 30 þús. tonn á ári af þessari vöru.

Nú kynnu menn að halda, að þetta, sem ég hef hér sagt, sé aðeins almennur áróður út af því, að ég er andstæðingur hæstv. ríkisstjórnar. — Ég flutti till. svipaða þessari í vor, en hún var felld. Ég hafði þá trú þá, að það væri hægt að gera miklu meira en gert væri á þessu sviði, að selja okkar freðfisk til útlanda. Ég hef síðan fengið tækifæri til þess að ganga úr skugga um, að þetta var rétt álitið hjá mér þá og að þessir möguleikar eru enn þá fyrir hendi. Ég notaði tækifærið, þegar ég í sumar fór til Þýzkalands, til þess að ræða það við þann ráðherra og það ráðuneyti, sem hefur með verzlunarmál að gera þar, og ég spurði þann ráðh. að því, hvað hann áliti um möguleikana á að kaupa vörur frá Íslandi og selja vörur til Íslands. Og hef ég í grg. fyrir þessu frv. birt að mjög miklu leyti það, sem ráðherrann svaraði mér og gaf mér skriflega, sem ég og hef látið í té til þeirra samtaka, sem ég hef þótzt vita, að mundu hafa áhuga fyrir þessum málum. — Ég vil í sambandi við Austur-Þýzkaland taka það sérstaklega fram, að ég hef nú ferðazt um þau fjögur lönd, sem meira eða minna eru að koma á hjá sér sósíalistískum framleiðsluháttum, Austur-Þýzkaland, Tékkóslóvakíu, Ungverjaland og Pólland. Og við höfum viðskiptasamninga við þrjú síðast töldu löndin. Og í Tékkóslóvakíu er þarna stærstur freðfisksmarkaður fyrir okkur. En ég vil taka það fram, að Austur-Þýzkaland er að mínu áliti miklu meira og öruggara framtíðarmarkaðsland fyrir freðfisk og fisk yfirleitt en Tékkóslóvakía. Þannig háttar til um Austur-Þýzkaland, að af Þýzkalandi óskiptu þá er það fyrst og fremst Vestur-Þýzkaland, sem framleiðir og tekur á móti fiskinum, en íbúar Austur-Þýzkalands, sem hlutfallslega miklu meira borða af þeim fiski. Í Berlín og Saxlandi er einna drýgstur fiskmarkaðurinn. Þjóðverjar eru ákaflega miklar fiskætur, sem Tékkar eru ekki. Hins vegar vorum við það heppnir, Íslendingar, að slá svo fljótt til árið 1945, þegar matarskortur var í Tékkóslóvakíu, að koma okkar fiski þar að. Og okkur tókst þá að fá Tékkana til að borða þennan fisk og finna, hvað hann var góður, — þannig að íslenzkur fiskur er nú í heimilum í Tékkóslóvakíu og á veitingahúsum þar uppfærður sem íslenzk flök. Og það var sérstök heppni, fyrir atorku þeirra, sem fóru þá með völd, að við komum okkar freðfiski þar að. Tékkum var boðið 25 millj. kr. lán til eins ár í senn, sem við veittum þeim til þess að koma okkar fiski að, þó að þeir vildu ekki nota þá aðferð að öllu leyti. — Í Austur-Þýzkalandi eru möguleikar fyrir sölu á okkar fiski nú ekki kannske ótakmarkaðir, en gífurlega miklir. En möguleikarnir til að borga fiskinn þar eru hins vegar takmarkaðir. Landið var í rústum, og þeir eru að byggja það upp aftur og það er allmikið að komast í lag. En engu að síður eru möguleikarnir til að selja fisk þar stórkostlega miklir. Ég ræddi við áður nefndan ráðherra um þá möguleika, og niðurstaðan, sem hann komst að, var, að þeir í Austur-Þýzkalandi gætu tekið við fiski og gætu borgað hann þannig, að fyrir hann kæmi staðgreiðsla í vörum, fyrir um tvær millj. dollara, eða um 33 millj. kr. Og listi yfir þær vörur, sem þeir geta látið fyrir fiskinn, er hér í grg. frv., og ég býst við, að hver hv. þm., sem les þennan lista á bls. 4 í grg., sjái, að þarna eru vörur, sem svo að segja undantekningarlaust er skortur á á Íslandi. Ég hafði enga heimild til þess — vegna þess að það er bannað með lögum að bjóða íslenzkar vörur erlendis — að bjóða vörur fyrir ákveðið verð frá Íslandi, og því síður að ræða um verð á vörum til innflutnings, vegna þess að það er ekki hægt að gera af öðrum en þeim, sem þekkja til innflutnings, og auk þess er það mjög mikil fyrirhöfn. Því að þarna er um að ræða hundruð og þúsundir af vörum, með mismunandi verði og mismunandi að öðru leyti. Og það væri alveg óvinnandi verk að ætla að gera ýtarlega athugun um tilboð frá öllum aðilum í Austur-Þýzkalandi, sem þarna koma til greina, um verð á öllum þessum vörutegundum, a. m. k. fyrir mann, sem ekki hefur sérstaka aðstöðu um efnahag til þess að uppihalda sér þar í marga mánuði. Og líka er ekki aðstaða til þess fyrir slíkan mann að gera þetta, sem er á ferð, vegna þess að það mundi taka marga mánuði í fjárhagsráði að fá samninga um slíkt — og yrði líklega neitað síðast. — En ef frv. þetta, sem hér liggur fyrir, yrði að l., hefur fjárhagsráð rétt til að setja hámarksverð á þessar vörur. Og þegar það væri fengið, þá vissi hver maður, fyrir hvað hann mætti selja útflutningsvörurnar og kaupa vörur fyrir þær aftur, til þess að geta selt þær á Íslandi. Hins vegar er hægt fyrir hvern verzlunarfróðan mann að finna út í þessu margar vörur, sem okkur skortir, vörur, sem séu undir því hámarksverði, sem mætti selja þær fyrir hér heima. En strax í þeim till., sem ráðherrann gerði, var fyrst gengið út frá því, að þeir gætu keypt freðfisk, þ. e. hraðfryst fiskflök, fyrir 500 þús. dollara og ísfisk fyrir 400 þús. dollara, saltsíld fyrir 450 þús. dollara, síldar- og fiskimjöl fyrir 250 þús. dollara og síldarlýsi fyrir 250 þús. dollara. Og það yrði fyrir fast verð. Ég vil taka fram í þessu sambandi, að ég tel, að sölumöguleikarnir í Austur-Þýzkalandi mundu verða meiri. Ég efast ekki um, að hægt mundi vera að selja tvöfalt magn á við þetta fiskmagn, en að vísu ekki fyrir greiðslu út í hönd, heldur ef við gætum gefið þeim eins árs gjaldfrest á þessum vörum. Og ég vil taka það fram, ekki sízt vegna þeirra rafmagnstækja, sem okkur vantar til Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar, að ég álít heppilegt frá þjóðhagssjónarmiði, að við mættum framleiða hér meiri freðfisk og selja til Austur-Þýzkalands, jafnvel með því móti að fá ekki verðmæti fyrir hann fyrr en eftir eitt eða tvö ár, og þá mikið af rafmagnstækjum, sem við þurfum handa okkar raforkuverum, sem við erum að byggja hér upp og við þurfum að byggja handa bæjunum og einnig fyrir sveitirnar. Það er t. d. vitað, að Andakílsárvirkjunin getur skaffað sveitunum í kring nægilegt rafmagn, ef næg rafmagnstæki væru fyrir hendi til þess, en það er nú ekki hægt að framkvæma, vegna skorts á slíkum tækjum. Og ég tel enn fremur, að við gætum selt fisk til Austur-Þýzkalands og lánað andvirði nokkurs magns af honum til eins til tveggja ára. Ég veit, að slíkar sölur eru tortryggðar. Árið 1927 vorum við í vandræðum með að selja síldarframleiðsluna. Þá var selt til Sovétríkjanna, sem voru ekki í mjög háu áliti þá. Þá var selt með 12 mánaða greiðslufresti, og þeir víxlar voru greiddir á gjalddaga. En með þessu var þá bjargað síldarmarkaðinum. Það sama mundi gerast nú, ef framleiðendur hefðu einhvern rétt og vald til þess að fara með sína framleiðslu og selja hana á erlendum markaði. Það væri með því móti hægt að margfalda þjóðartekjurnar af þessari framleiðslu, sem er ekki hægt að gera nú, vegna þess hversu viðkomandi aðilar eru fjötraðir. Þess vegna vil ég taka fram, að möguleikarnir þarna eru mjög miklir. Og það mætti læra að hagnýta þessa möguleika á því, að Svíar bjóða mjög góða greiðsluskilmála á þessari vöru í Austur-Þýzkalandi, til þess að koma sinum fiski þar inn. Og Norðmenn og Danir hafa sömu aðferð. Og ef við eigum að slást við þessar þjóðir um fiskmarkaðinn, þá verðum við að geta hreyft okkur. Menn geta ekki barizt bundnir á höndum. Svíar bjóða 12 mánaða kredit á þeim fiski, sem þeir geta selt. Á meðan hanga menn hér og gera ekkert til að vinna markað fyrir fiskinn í Austur-Þýzkalandi. Ég veit, að það þýðir ekkert að reyna að tala við ríkisstj. um þetta. Ég veit, að ríkisstj. vill ekki verzla við Austur-Þýzkaland. Ég veit, að hún hefur sent samninganefnd þangað, til þess að sýnast og til þess að spilla fyrir afurðasölu þangað. En hún hefur ekki gefið slíkri nefnd umboð til þess að selja. Ég hef skorað á ríkisstj. að svara því, hvort hún ætlaði að gefa slíkri nefnd slíkt umboð. En ég veit, að ríkisstj. mun ekki svara þeirri spurningu og mun ekki gefa þessari nefnd slíkt umboð. Og það er af því, að hæstv. ríkisstj. vill ekki brjóta í bág við vilja, sem e. t. v. hefur komið fram sem fyrirskipanir, sem hún hefur fengið, um að hafa ekki viðskipti við viss ríki. — En þó að ríkisstj. vilji ekki koma neitt nærri stjórn þýzka lýðveldisins í Berlín, hvað er mikið að lofa þó íslenzkum útflytjendum og bönkum að hafa svigrúm til að framleiða og bjóða vörur innan þessara takmarka, sem sett eru í þessu frv., og selja þær? Hvað er því til fyrirstöðu, að Landsbankinn geti gert clearing-samning við banka í Berlín, án tillits til þess, hvort ríkisstj. hefur gert samning um sölu þar? Íslenzkir framleiðendur gætu staðið að slíkum samningum. Og Landsbankinn mundi þá í sambandi við clearing-framkvæmdir þurfa að hafa á hendi ráðstafanir á gjaldeyrinum. Við vitum, að vald bankanna til þess að ráðstafa gjaldeyrinum yrði að vera mikið að þessu leyti. Til þess að fyrirbyggja aukningu dýrtíðar í landinu yrðu innflytjendur að jafna verð á erlendum vörum, sem kynnu að verða mismunandi dýrar, eftir því hvar í löndum þær væru keyptar með clearingviðskiptum, þar sem vöruverð er misjafnlega hátt eftir verðlagssvæðum erlendis. En að öðru leyti yrðu bankarnir að hafa mikið vald yfir erlenda gjaldeyrinum til að ráðstafa honum. Og hvað er því til hindrunar, að ríkisstjórnin leyfi borgurunum að sýna, hvað þeir geta á þessum sviðum, og leyfi bönkunum að annast viðskipti í þessu sambandi? Ég fæ ekki skilið það. Ef þetta væri leyft, mundi það þýða aukna atvinnu innanlands. Og það er e. t. v. höfuðástæðan til þess, að ríkisstj. telur sig þurfa að berjast í gegn því, að þetta sé leyft, að það mundi auka atvinnuna í landinu, setja af stað áframhaldandi rekstur hraðfrystihúsanna, sem nú standa kyrr, og að það mundi þá verða líka hægt að flytja inn byggingarefni til þess að byggja eitthvað meira, og vefnaðarvörur til að klæða fólkið betur. E. t. v. er það þetta, sem ríkisstj. óttast, að hægt verði að draga úr vöruskortinum. Ég veit, að hæstv. ríkisstjórn fæst ekki til að ræða þetta. Og í sínum blöðum þyrla einokunarheildsalarnir upp ryki um þetta mál. Það eina, sem ekki má gera, er að skera úr um þetta. Ef það eru eintómar skýjaborgir hjá mér, að hægt sé að skapa markað fyrir okkar fisk í þessu landi, því má það þá ekki sýna sig sem vitleysa?

Og það eru möguleikar til að selja okkar hraðfrysta fisk ekki aðeins fyrir austan járntjaldið. Hraðfrystur fiskur hefur verið seldur til Gyðingalands, að sumu leyti fyrir frjálsan gjaldeyri og að sumu leyti í vöruskiptum. Og jafnvel þó að við seldum eitthvað af hraðfrystum fiski þangað fyrir þurrkaða ávexti, — væri það þá alveg óverjandi, að íslenzkar húsmæður fengju eitthvað af ávöxtum handa börnum sínum? Er það betra að láta fiskinn grotna niður hér í landinu en að láta börnin fá þurrkaða ávexti?

Hvað er því til fyrirstöðu, að landsmenn fái ofurlítið minni höft og frjálsari hendur? Það getur ekki verið nema eitt því til fyrirstöðu, og það er: Hagsmunir þeirra manna, sem einoka útflutninginn, einoka innflutninginn og vilja einoka atvinnulífið í landinu, þannig að þeir geti ráðið, hve mikið sé unnið. Þeirra manna, sem vilja skapa atvinnuleysi í landinu, til þess að geta haldið niðri kaupi verkamanna, til þess að geta haldið við skorti í landinu, til þess að geta haft einokun á útflutningnum og innflutningnum, til þess að geta grætt á hvoru tveggja. Þetta einokunarkerfi, sem þarna er orðið verkfæri í höndunum á nokkrum fáum mönnum, verður að falla. Ef því verður ekki breytt nú á þessu þingi, þá kyrkjum við okkur efnahagslega. Bæði íslenzkur sjávarútvegur og iðnaður dregst saman og kiknar undir þeim fjötrum, sem verzlunarauðmagnið með sínu einokunarkerfi leggur á þessa atvinnuvegi. Það verður að leysa þessa fjötra og létta þessum byrðum af atvinnurekstrinum. Það verður að gefa fólkinu í landinu rétt til þess að sýna, hvað það getur í þessum efnum. — Hæstv. fjmrh. talaði um það í framsöguræðu sinni um fjármálin, að við Íslendingar þyrftum að auka framleiðsluna, og það væri það, sem við aldrei vildum skilja. Hann var þá að tala til Alþfl. og Sósfl. með þessum orðum. Mér virðist þetta nú koma úr hörðustu átt, þegar það kemur frá hæstv. viðskmrh., sem líka hefur haldið því fram, að verkamenn vilji ekki auka afköstin. Það hafa aldrei verið aukin afköstin meira en þegar ríkisstjórn frá verkamönnum var á Íslandi. En nú banna stjórnarvöldin framleiðendum, sjómönnum og verkamönnum að nota sín tæki til þess að auka framleiðsluna, og banna að flytja meira út. Það er verið að tala um, að það þurfi að vinna meira. En það er verið að banna okkur að vinna meira. Það er verið að segja, að við viljum heimta. En við viljum, að verkamenn fái að sýna, hvernig hægt er að stjórna atvinnulífinu, og að verkamenn og þeir aðrir, sem vinna að framleiðslunni, fái að vera í friði fyrir einokunarvaldinu hér í Reykjavík. Það er verið að drepa niður framtakið, vegna þess að þeir, sem framleiða, fá ekki að selja sína vöru og flytja inn vörur í staðinn fyrir þessari einokunarklíku hér í Reykjavík.

Ég held þess vegna, að engin afsökun sé til fyrir því að samþ. ekki þetta frv., sem hér liggur fyrir, og losa þannig um þessi einokunarhöft. Ég skil vel, að þeir fáu menn, sem nú ráða okkar verzlunarlífi, vilji ógjarnan fórna sinni einokunaraðstöðu. En þeir verða að fórna henni. Og ég verð að segja, að mér finnst heimskulegt af þeim — eins mikið og þeir tala um frjálsa verzlun og frjálsa samkeppni — að þora ekki að taka upp baráttuna við frystihúsin, framleiðendur og verkamenn í þessum efnum, og verða þá undir í þeirri samkeppni, ef svo verkast. Ég veit, að fyrirkomulagið, sem nú er á þessum hlutum, er þægilegra fyrir þá — ekki sízt fyrir þá, sem eru í ríkisstj. — að hafa slíka aðstöðu. En drengilegra fyndist mér af þeim að berjast um viðskiptin í ofurlítið frjálsara atvinnulífi við sína stéttarbræður. Ég veit, að viljinn til þess að knýja eitthvað fram í þessum efnum er ekki aðeins hjá framleiðendum og útflytjendum og ekki aðeins hjá miklum hluta af þeim verkamönnum og sjómönnum, sem vinna við framleiðsluna, sem dregst saman vegna þessara einokunarhafta. Hann er líka til í verzlunarstéttinni íslenzku. Það er áreiðanlega meiri hl. af henni sem vill láta minnka þessi höft. En þeim, sem það vilja, er haldið í skefjum af þeim voldugustu og ríkustu, af þeim forréttindamönnum, sem nú njóta góðs af einokunarfyrirkomulaginu, sem er í þessum málum, og ekki virðast víla fyrir sér að kyrkja okkar efnahagslíf, ef þeir geta.

Ég hef haldið því fram, að höfuðvandamálið væri að afla markaða. Ég álít það fyrsta sporið til þess að leysa vandamál sjávarútvegsins, sem nú liggur fyrir að reyna að leysa, að gefa honum þó þetta meiri starfsmöguleika til markaðsöflunar, svigrúm til að koma sinni vöru í verð og til þess þannig að auka sína framleiðslu. E. t. v. mætti ganga lengra í þessu en ég geri í þessu frv. Ef sú skoðun kemur fram, er ég fyrir mitt leyti reiðubúinn til að ræða það. Hitt vil ég leggja áherzlu á, að ég álít, að Alþ. geri sig samsekt um að eyðileggja okkar efnahagslíf, svo framarlega sem það lætur þetta þing líða án þess að breyta þannig um stefnu, að þeir núverandi einokunarfjötrar nokkurra fárra heildsala í Reykjavík, sem á atvinnulífinu eru, verði linaðir eða helzt afnumdir. Ég held, að það vofi yfir, og það strax á næstu vikum, að efnahagslífið verði eyðilagt hjá okkur, ef engar breytingar verða á til batnaðar um markaðsmöguleika. Það er hins vegar hugsanlegt að selja alla okkar fiskframleiðslu, ef fiskleysi eða aflaleysi verður í löndum hér nálægt okkur, t. d. að í Englandi skapaðist þá markaður í bili fyrir okkar fisk. En lífsnauðsyn væri okkur á því að geta hagnýtt markaðsmöguleikana, sem fyrir hendi eru, til þess að geta hafið útflutning á þeim freðfiski, sem nú er til og liggur óseldur í landinu.

Og sama hygg ég að gildi um ísfiskinn og jafnvel saltfiskinn, þó að ég sé ekki eins kunnugur því.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. þm. vilji alvarlega athuga þetta frv., sem ég hér hef lagt fyrir, og ég get nú byggt á miklum mun meiri staðreyndum hvað möguleika á mörkuðum snertir en ég gat gert, þegar ég lagði svipaða brtt. fyrir á síðasta þingi. Og ég vil, að hv. þm. athugi þetta frv. og grg. þess. Leyfi ég mér svo að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.