24.10.1950
Neðri deild: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (3413)

31. mál, skáldalaun rithöfunda og listamanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég hef flutt þetta frv. áður hér í hv. þd., og gerist því ekki þörf á að fjölyrða um efni þess nú. Megintilgangur frv. er sá, að leitast við að koma fastri skipan á úthlutun launa til skálda, rithöfunda og annarra listamanna. En þeim hefur undanfarin ár verið veitt ákveðin fjárhæð á fjárl. Nú á fjárlagafrv. er gert ráð fyrir rúmlega hálfri millj. kr. til þeirra. Ýmis háttur hefur verið hafður á skiptingu þessa fjár. Því hefur nú um nokkur ár verið úthlutað af sérstakri þingkjörinni nefnd. Áður var fénu úthlutað af listamönnunum sjálfum og lengi vel af menntamálaráði:

Um úthlutun þessa listamannafjár hafa löngum orðið miklar og harðar deilur, sem hafa verið mjög hvimleiðar og orðið listamönnunum sjálfum til ógagns, en ýmsum óheilbrigðum upplausnaröflum í landinu til eflingar. Virðist varla vera um það ágreiningur, að ástæða væri til þess að koma hér á fastari skipan. Hitt hefur menn greint á um, hvaða leið skuli til þess farin. Sú leið, sem hér er stungið upp á, er, að allt að tólf skáld, rithöfundar og aðrir listamenn skuli njóta árlegra heiðurslauna úr ríkissjóði að upphæð 18 þús. kr. hver. Í frv. er og lagt til, að því fé, sem veitt er í fjárl. til skálda, rithöfunda og annarra listamanna umfram heiðurslaun þau, sem þessir tólf af skáldum, rithöfundum og öðrum listamönnum fá, verði skipt þannig á milli þessara manna, að fénu verði úthlutað í þremur flokkum, og skuli upphæð einstakra fjárveitinga í hverjum flokki vera 9000 kr., 6000 kr. og 3000 kr. Ætlazt er til, að hæstu fjárveitingarnar af þessum þrem flokkum geti fallið í skaut viðurkenndra listamanna, en lægstu fjárveitingarnar byrjendum og öðrum, sem ástæða þætti til að sýna viðurkenningu. — Ráð er fyrir því gert í frv., að þau skáld, rithöfundar og aðrir listamenn, sem notið hafa heiðurslauna samkv. 1. gr., þ. e. árlegra heiðurslauna að upphæð 18 þús. kr., í fimm ár, skuli njóta þeirra ævilangt, og skuli þeir skipa listarráð (akademi) og vera menntamálaráðuneyti og menntamálaráði til ráðuneytis um mál, er varða listir.

Listarráð eru til hjá mörgum menningarþjóðum. Hér er slík stofnun ekki til. Vísindafélag okkar er frjáls félagsskapur, sem gefur sig að vísindum fyrst og fremst. Skáld og listamenn eiga þar hins vegar ekki fulltrúa sem slíkir. Taki ríkisvaldið nokkra listamenn á sérstök árleg heiðurslaun, virðist ekki óeðlilegt, að þeim verði skipað saman í slíkt ráð eða slíkan félagsskap og þeim gert að skyldu að vera menntmrn. og menntamálaráði til ráðuneytis um mál, er varða listir. Gert er ráð fyrir, að Alþ. sjálft úthluti þeim árlegu heiðurslaunum, sem hér er gert ráð fyrir, en að fé því, sem veitt er á fjárl. þar fram yfir til skálda, rithöfunda og annarra listamanna, verði úthlutað af menntamálaráði. Þó er ráð fyrir því gert, til þess að reyna að tryggja, að ekki verði deilur um úthlutunina, að jafnan skuli menntamálaráð senda listarráði og heimspekisdeild háskólans til umsagnar tillögur þær, sem fram koma innan ráðsins, áður en ákvörðun er tekin, þó að endanlegt vald um úthlutun þessa fjár sé í höndum menntamálaráðs.

Þetta, sem ég hef greint, er meginefni þessa frv. Nánari grein álít ég ekki þörf á að gera fyrir því, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.